09.02.1981
Neðri deild: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

103. mál, orlof

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst svara þeirri spurningu hv. þm., hvort ég sé tilbúinn að breyta reglugerðinni um útfærslu orl1ofslaganna þannig að unnt verði að taka þessi mál í raun og veru út úr póstgíróinu og hafa innheimtu og ávöxtun í hverju byggðarlagi um sig. Svar mitt við þeirri spurningu er nei. Ástæðan er m.a. sú, sem komið hefur fram í þeim umr. sem hér hafa farið fram um orlofsmál, og líka sú, að nú eru í gangi viðræður milli ríkisstj., verkalýðssamtakanna og Seðlabankans um orlofsmál og ávöxtun orlofsfjár og ég vænti þess, að þeim viðræðum miði svo, að áður en þetta orlofsár er á enda hafi náðst samkomulag um það sem menn telja ástæðu til að breyta.

Fyrir nokkrum dögum, eða 3. febr. s.l., skrifaði félmrn. Seðlabankanum og óskaði eftir því að hefja viðræður við bankann til að fjalla um orlofsmálin og ávöxtun orlofsfjár. Auk fulltrúa ráðuneytanna í þessum viðræðum, sem eru Arnmundur Backman og Þröstur Ólafsson, eru í viðræðunum af hálfu Alþýðusambandsins Jóhannes Siggeirsson og Þórir Daníelsson og af hálfu Farmanna- og fiskimannasambands Ingólfur Ingólfsson. Ég tel því að það sé a.m.k. eðlilegt að við hinkrum þangað til niðurstaða úr þessum viðræðum liggur fyrir. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. sé mér sammála um að það sé eðlilegt að vera ekki að ganga frá þessum málum fyrr en viðræður hafa farið fram milli þessara formlegu aðila.

Hv. þm, spurði mig um það, hvort það væri brot á lögum eða ekki að ávaxta þetta fé um sinn á bankabókum. Það er alveg ljóst, að ákvæði laganna eru auðvitað sá rammi sem reglugerðin fer eftir. Reglugerðin gerir ráð fyrir að þetta sé innheimt af Póstgíróstofunni og renni þangað. Það er það form sem reglugerðin byggir á. Ég þekki ekki í smáatriðum það fyrirkomulag sem þm. er hér að nefna. Ég vil ekki fella dóm yfir því, ég kann ekki við það án þess að athuga málið betur, en það er alveg augljóst mál hvaða atriði það eru sem reglugerðin hefur inni að halda í þessu sambandi.

Hv. þm. misskildi, held ég, dálítið mál mitt frá því að umr. fóru fram síðast. Þá lét ég það koma fram, að auðvitað væri upphæð vaxtanna út af fyrir sig ákvörðunaratriði hverju sinni. En ég sagði líka að innheimtuformið, sem nú er, væri reglugerðarmál. Það er ekki lagamál. Þannig er ekki neitt ákvæði í lögunum um að Póstgíróstofan eigi að innheimta og ávaxta orlofsfé. Það er eingöngu í reglugerðinni. Ef fara ætti þá leið, sem hv. þm. er að gera hér tillögu um, yrði að útfæra í lagatexta skyldur póstgírósins, en það er ekki gert í því frv. sem hér liggur fyrir. Þannig er það ófullkomið að því leyti.

Ég vil einnig minna á það, sem hér hefur komið fram áður, að það er auðvitað mikið öryggisatriði fyrir launafólk, að hér sé um að ræða vissa miðstýringu og heldur trausta skráningu á réttindum launafólks í þessum efnum. Af þeim ástæðum er það sem ákveðin nefnd, sem ég setti á laggirnar fyrir nokkrum vikum, hefur nú komist að þeirri niðurstöðu, að heppilegast sé að ávaxta skyldusparnaðinn og innheimta í gegnum póstgíróið vegna þess að það fyrirkomulag, sem verið hafi í þeim efnum, tryggi ekki nægilega traust skil, eins og hv. 7. þm. Reykv. gat um áðan. Það er þess vegna eðlilegra að menn séu fastheldnir á það fyrirkomulag, sem hefur verið á þessum málum um skeið og hefur heldur verið að batna, frekar en menn vilji hlaupa til og kasta þessu út um víðan völl án þess að sjá málinu farborða með traustum hætti.

Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni að það séu eingöngu forustumenn Alþb. sem hafa ýmislegt við þessar hugmyndir hans að athuga. Mér er t.d. ekki kunnugt um að hv. þm. Magnús H. Magnússon sé forustumaður Alþb. Hann er varaformaður Alþfl., eins og kunnugt er. Hann hefur hreyft athugasemdum við þetta frv. hv. þm. með mjög svipuðum hætti og ég hef hér gert. Ég man ekki betur en ég hafi í umr., sem fóru fram hér fyrr, tekið í raun og veru í einu og öllu undir það sem hv. þm. Magnús H. Magnússon hafði um þetta frv. að segja. Hér er auðvitað um að ræða áhyggjuefni meðal fjölmargra aðila sem þekkja til þessara orlofsmála. En þetta er ekkert bundið við Alþb., eins og hv. þm. var að segja. Það er í besta falli misskilningur og í versta falli vitleysa.

Eins er það, að hér séum við, ég og hv. 7. þm. Reykv., sérstaklega að berjast fyrir hagsmunum Reykjavíkur. Þá kemur það rétt einu sinni enn upp, að þessu fé sé safnað öllu saman hér í Reykjavík og hér sitji einhverjir Reykvíkingar yfir hvers manns hlut í landinu, einkum og sér í lagi landsbyggðarinnar. Þetta er auðvitað endileysa. Hér er um að ræða sameiginlega ávöxtun í stofnun sem tilheyrir ríkinu öllu. Ég veit ekki betur en Seðlabankinn hafi þá lagaskyldu að veita öllum íbúum landsins vissa þjónustu, t.d. í sambandi við afurðalán, svo ég nefni dæmi. Að vera að tala um, að það sé einhver frekja í Reykvíkingum að vilja ávaxta þetta fé í Seðlabankanum, hefur ekkert með það að gera, snertir ekkert það mál. Við Reykvíkingar reynum yfirleitt í umr. á Alþingi að hefja okkur yfir þann byggðaríg, sem stundum gýs hér upp úr mönnum af furðulegustu tilefnum, og væri satt að segja hægt að halda um það langar ræður og er orðið býsna þreytandi oft að heyra þá texta sem hér eru lesnir upp í þessum virðulega ræðustól.

Hér er ekki um það að ræða að menn séu að slíta á milli sín peninga eftir kjördæmum eða byggðasjónarmiðum. Hér er bara um það að ræða, að menn telja sig hafa ákveðið innheimtu- og ávöxtunarfyrirkomulag sem sé heppilegra og öruggara fyrir launafólk en annað fyrirkomulag sem bent hefur verið á. Ef slíkt fyrirkomulag ætti heimilisfang og dvalarstað í Bolungarvík væri mér nákvæmlega sama um það, skipti ekki nokkru máli. Aðalatriðið er að fyrirkomulagið sé öruggt. Það væri fráleitt og það væri ábyrgðarleysi að kasta því fyrirkomulagi á glæ, nema menn hefðu eitthvað annað öruggt á hendinni. Og það er athyglisvert, verð ég að segja, eftir alla þá gagnrýni sem póstgíróið hefur að mörgu leyti sætt að menn skuli komast að þeirri niðurstöðu, að það sé heppilegast, jafnvel þeir menn sem hafa átt að sinna þessu í Landsbankanum, að flytja skyldusparnaðinn inn í póstgíróið líka. Það finnst mér mjög athyglisverð niðurstaða og benda til þess, að menn telji að hér sé um alltrausta ávöxtun og innheimtu að ræða.

Það skiptir svo ekki litlu máli í þessu sambandi að haustið 1978 — eða hvort það var á fyrri hluta ársins 1979 — voru samþykkt hér á hv. Alþingi lög sem gera í raun og veru ráð fyrir að ríkissjóður sé bakábyrgur fyrir vanskilum atvinnurekenda, þannig að ef launamaður á inni orlof á hann að fá það hvað sem líður greiðslu atvinnurekandans, ef ég man rétt. Þetta var gert með breytingu á lögum um greiðslu launa við gjaldþrot fyrirtækja. Hér er um að ræða mjög þýðingarmikið mál. Ég held að ekki sé nokkur leið að tryggja þessa bakábyrgð ef innheimta og ávöxtun fer fram á mörgum stöðum í landinu. Ég held að slíkt sé ekki hægt. Hugsanlega mætti hafa fyrirkomulagið þannig, að það væri með eitthvað öðrum hætti en nú er, en að fjárheimtan yrði á mörgum stöðum í landinu, jafnvel hjá öllum verkalýðsfélögunum, og er ég ekkert að gera lítið úr þeim, er vafasamt. Ég held að svona bakábyrgð ríkisins gæti við slíkar kringumstæður tæplega komið til greina eða a.m.k. sé ég það ekki í fljótu bragði.

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þessa umr. að bæta. Ég legg á það áherslu frá minni hálfu, að ég tel eðlilegt að viðræður alþýðusamtakanna við ríkisstj. og Seðlabankann verði til lykta leiddar áður en frekari skref eru stigin í þessu máli, og ég vona að úrslit sjáist áður en þetta orlofsár er á enda, núna fyrir 1. maí n.k.

En eitt er athyglisvert í þessu máli, af því að hv. þm. er kunnugur innan veggja í verkalýðssamtökunum. Mér er ekki kunnugt um að svona tillaga hafi komið fram þar — eða hvað? Hafa verið fluttar tillögur um það á Alþýðusambandsþingum eða í miðstjórn Alþýðusambandsins að ávöxtun orlofsfjár verði hjá hverju einstöku verkalýðsfélagi? Ég kannast ekki við að það hafi gerst á seinni árum. Mér fyndist þó eðlilegast, ef menn vilja á annað borð koma þessu fram, að impra fyrst á málinu þar, þeir sem eru á annað borð virkir í verkalýðssamtökunum, eða a.m.k. að láta það fylgjast að þannig að viðhorf verkalýðssamtakanna komi einnig fram í málinu. Ég held nefnilega að hv. þm. haldi hér fram algjöru minnihlutasjónarmiði í verkalýðssamtökunum, ég býst við því, og það sé ástæðan til þess að hann hefur ekki farið af stað með málið þar. Ég kannast a.m.k. ekki við það. Það stafar þá af því að ég þekki ekki svo nákvæmlega til í þeim efnum, en ég kannast ekki við að slíkt hafi komið fram þar.

Varðandi þessi mál í heild legg ég sem sagt áherslu á það kerfi sem við höfum verið með. Það er tiltölulega öruggt. Það hefur farið batnandi á undanförnum árum. Það kerfi, sem hér er lagt til, tryggir ekki það öryggi sem menn telja sig hafa haft. Loks legg ég áherslu á það, að við höfum þegar í gangi viðræður milli alþýðusamtakanna, ríkisstj. og Seðlabankans um fyrirkomulag þessara mála og þær viðræður er sjálfsagt að leiða til lykta áður en frekari skref eru stigin í þessum málum.