09.02.1981
Neðri deild: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

103. mál, orlof

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., hefur verið til meðferðar hér á hv. Alþingi áður og hefur komist til félmn. Út af því, sem kom fram áðan, þykir mé rétt að upplýsa að það var ákveðið á fundi félmn. s.l. haust að senda þetta frv., sem þá lá fyrir frá síðast þingi, til umsagnar Alþýðusambandsþings sem þá var að setjast á rökstóla. Ég get upplýst það hér, að Alþýðusambandsþing sendi um hæl neikvæða umsögn um þetta frv. og vildi ekki fallast á þessa breytingu. Mér þykir rétt að þetta komi fram í umr. um þetta mál.

Ég veit ekki betur en að það hafi verið almennt talið stórt framfaraspor fyrir vinnandi fólk í landinu þegar samræmd var og tryggð innheimta orlofs gegnum Póstgíróstofuna og um leið var afnumið það ófremdarástand, sem var í orlofsmálum hér á landi, öllum launþegum til tjóns. Ég held að okkur sé skylt að rifja þetta upp hér vegna þess að það var einmitt fólkið sjálft, vinnandi fólk í landinu og launþegasamtökin, sem beittu sér fyrir þessari breytingu og þessari nauðsynlegu aðgerð til að reyna að tryggja að allir byggju við sama rétt á þessu sviði, sem allir hljóta að viðurkenna að er nauðsyn.

Ég vil taka undir það með hæstv. félmrh., að það hlýtur að verða viðurkennt að mjög var mikilvægt að fá þá breytingu á þessari löggjöf að það fólk, sem verður fyrir því óláni að vinna hjá fyrirtækjum hér á landi sem verða gjaldþrota, fengi greiðslu á því orlofsfé sem það hefur átt inni hjá slíkum fyrirtækjum. Þetta var mjög nauðsynleg breyting, enda samþykkt, að mig minnir, mótatkvæðalaust hér á hv. Alþingi.

Það hefur verið margt sagt um þessi orlofsmál og eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á meðferð málsins víðs vegar um landið. Ég hef iðulega heyrt því haldið fram, að það séu veruleg brögð að því að fyrirtæki greiði ekki beint til Póstgíróstofunnar gegnum Póst og síma og jafnvel að aðgerðir Póstgíróstofunnar séu mismunandi eftir fyrirtækjum. Má vera, að svo sé, og er slæmt ef rétt er. Ég hef einnig heyrt — og heyrt færð rök fyrir því — að það eigi sér stað að ýmis fyrirtæki leggi orlofsgreiðslur vegna starfsmanna sinna inn á eigin bankareikning á hæstu vöxtum og skili síðan til Póstgíróstofunnar eftir vissu tímakerfi, í sumum tilfellum án vaxta eða með þeim vaxtakjörum, sem Póstgíróstofan greiðir til inneignaraðila, og hagnist þannig verulega á þessu kerfi. Ef þetta á við rök að styðjast er þarna vissulega ágalli á þessu kerfi og þarf að skoða vandlega. Það hefur ekki verið til þess ætlast að einn eða neinn græddi á þessu, heldur átti fyrst og fremst að tryggja vinnandi fólki í landinu þann rétt sem það á til orlofsgreiðslna.

Ég tel að það sé nauðsynlegt að skoða vandlega ýmsa þætti þessa máls núna, þegar það kemur enn á ný til nefndar, og sé rétt að beita sér fyrir því, að þetta mál fái vandlega meðferð eftir því sem efni standa til.