10.02.1981
Efri deild: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2231 í B-deild Alþingistíðinda. (2428)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég skal ekki tefja tímann lengi, þar sem ætlunin er að afgreiða þetta frv. frá deildinni í dag. Ég vil aðeins lýsa ánægju minni með þær endurbætur sem gerðar hafa verið á frv. í meðferð nefndar. Þegar frv. var hér til 1. umr. í deildinni benti ég á það, að ég teldi þörf á að lengja þann tíma sem heimilt er að draga vexti af lausaskuldum húsbyggjenda og íbúðakaupenda frá framtölum, þar sem húsbyggingartíminn er yfirleitt langur hjá okkur. Við þeim óskum hefur verið orðið og lýsi ég ánægju minni með það.

Það eru reyndar fleiri endurbætur á frv. sem ég fagna, eins og t.d. þær að leyfa frádrátt vaxta af skuldum sem stofnað er til vegna endurbóta á húsnæði. Ég tel að það sé til þess fallið og stuðli að því, að menn hugleiði betur hvernig nýta megi eldra húsnæði, og komi í veg fyrir oft ótímabærar og óþarfar byggingarframkvæmdir, dýrar byggingarframkvæmdir, þar sem nýta megi miklu betur en gert hefur verið eldra húsnæði, sem til er í landinu, með lagfæringum sem kosta miklu minna fjármagn.

Vegna þess, hversu erfiðlega og seint hefur gengið að lengja lánstíma almennt hjá bankakerfinu, hverjum sem um er að kenna, þá hefur líka verið reynt að bæta úr því í þessu frv., bæði með því að stytta tíma á fasteignaveðtryggðum lánum úr þremur árum niður í tvö ár, þann tíma sem leyft er að draga vexti af slíkum lánum frá á framtölum, og eins er með 4. lið í brtt. tekið mið af því, að bankar hafa lánað mikið af sjálfskuldarábyrgðarlánum í stað fasteignaveðslána. Hér eru tekin inn ákvæði um þau. Allt þetta tel ég vera atriði sem eru mjög til bóta og létta þá erfiðleika sem húsbyggjendur eiga við að glíma af ýmsum ástæðum, m.a. ríkjandi vaxtastefnu, sem er þannig í framkvæmd að hún íþyngir verulega þeim sem standa í húsbyggingum og húsnæðiskaupum. Ég tel að hér sé stigið spor í rétta átt, og lýsi ánægju minni með það.