30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

22. mál, félagsleg þjónusta fyrir aldraða

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég bjóst satt að segja ekki við að mjög miklar umr. yrðu um þetta mál.

Ég gat satt að segja ekki skilið almennilega ræðu hv. 8. landsk. þm., nema þá þannig að öll málefni aldraðra væru allt í einu komin í stakasta lag einungis af því að hæstv. heilbrmrh. hefði sagt í einhverju blaðaviðtali að hann ætlaði að leggja fram frv. Það er náttúrlega mikill misskilningur. Ef við lítum á feril þessa manns í sæti ráðh. hefur hann ekki staðið þannig við orð sín að ástæða sé til að taka það alvarlega sem hann hefur um þessi mál að segja. Ég get tekið undir það með hv. þm., að það er út í bláinn að leggja til í þessu þskj.heilbr.- og trmrh. skipi nefnd sem geri tillögur um umbætur og betri skipulagningu þessara mála. Miklu eðlilegra væri að skipa þessa nefnd með öðrum hætti og fara ofan í þessi mál.

Ég held að það sé staðreyndin, að við Íslendingar höfum ekki búið það vel að öldruðum að nein ástæða sé til að vera með neinn hroka í þeim efnum. Ég get raunar bent á fjölmarga staði víðs vegar um landið þar sem bygging dvalarheimila fyrir aldraða hefur ýmist tekið óeðlilega langan tíma eða jafnvel stöðvast og engar horfur eru nú á að þessar byggingar geti haldið áfram vegna þess að fjármagn skortir til framkvæmdanna. Á mörgum heimilum er mikið neyðarástand vegna þess að vistrými skortir fyrir aldraða sjúklinga. Mér fyndist því betur við hæfi að við sameinuðumst um það í sambandi við þetta mál og sérstaklega í samhengi við þau fjárlög, sem afgreidd verða innan skamms, að taka verulega á í þessum efnum strax. Og vegna þess að hv. 8. landsk. þm. er með frv. hæstv. félmrh. í vasanum væri skemmtilegt að fá upplýsingar um það, svona í grófum dráttum, hversu mikið fé til viðbótar hann ætlar til þessara mála og hvort við því megi búast, að þegar á næsta ári verði gert nýtt átak í þessum málum. Það er kjarni málsins núna að bregðast skjótt við.

Ég ætla að vona að mál, sem lagt er fram í fyrstu viku þingsins, verði afgreitt frá n. með einum eða öðrum hætti, jafnvel þótt það sé stjórnarandstæðingur sem í hlut á. Ég get ekki skilið þennan hroka. Ég býst við því, að þegar frv. heilbrmrh. verður lagt á borðin hér verði margir fyrir vonbrigðum miðað við það hvað á ég að segja? — hvað hv. þm. var fasmikill áðan þegar hann var að tala um að réttast væri að vísa þessu máli frá strax af því að sú endanlega lausn væri fundin í eitt skipti fyrir öll sem gerði það að verkum að við þyrftum ekki lengur að hafa áhyggjur af gamla fólkinu. Ég held að það sé ástæðulaust að tala svona og miklu réttara að leyfa þm. að sjá fyrst frv. heilbrmrh., því að það er erfitt fyrir okkur að fara að hefja hér tangar málefnalegar umr. um eitthvert frv. sem við fáum ekki að sjá, en er geymt undir pilsfaldinum á einstaka þm.