11.02.1981
Sameinað þing: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mér finnst þessi svör hæstv. sjútvrh. bera vott um mikið ráðleysi ríkisstj. í sambandi við fiskverðsmálin. Þetta er auðvitað afleiðing af því sem var boðað á gamlársdag og hefur haft alvarleg áhrif á lausn þessa máls, því að þar setti ríkisstj. loku fyrir að framleiðendur eða útflytjendur sjávarafurða fengju hærra verð í íslenskum krónum fyrir afurðirnar og tóku upp vitlausa viðmiðun í sambandi við gjaldeyrinn. Það var eins og engum gæti komið til hugar annað en að Bandaríkjadollar héldi áfram að lækka í verði, að falla, en þá er krónan fest við Bandaríkjadollar, og það hefur gert að verkum að í janúar og það sem af er febrúar hefur ríkisstj. stórskaðað alla útflytjendur, bæði sjávarafurða og útflutningsgreina iðnaðarins og aðra, með því að hækka gengi krónunnar gagnvart Evrópumynt. Nú keppast ráðh. við að lýsa yfir að þarna hafi orðið mistök sem þurfi að leiðrétta. Þjóðinni er tilkynnt þetta í nokkra daga í fjölmiðlum. Hér er því sjáanleg ein af ástæðunum fyrir því, hvað dregist hefur að finna lausn á fiskverðsákvörðun, en sú töf hefur einnig haft í för með sér að spilla fyrir að samkomulag náist á milli sjómanna og útgerðarmanna. Hver er þáttur stjórnarandstöðunnar í þessu? Er rétt að spyrja. Hefur stjórnarandstaðan verið viðþolslaus og reynt að spilla fyrir málum?

Hæstv. sjútvrh. sagði hér fyrir u.þ.b. viku, þegar ég spurðist fyrir um þessi mál, að ég væri að reka fleyg í þetta viðkvæma mál. Hann má þó eiga það, að nú svaraði hann eins og maður. Á hvaða hátt hefur stjórnarandstaðan rekið fleyg í þetta mál? Er það skoðun ríkisstj. að Alþingi komi ekkert við það sem er verið að gera í þjóðfélaginu og að ráðh. eigi að nota hvert tækifæri til að stjórna með brbl. og ræða svo hver fyrir sig við ríkisfjölmiðla og aðra fjölmiðla í landinu og þar sé tilkynnt hvað stendur til að gera, en Alþingi Íslendinga sé fótum troðið og lítilsvirt? Það er auðvitað ekki síður sök stjórnarþingmanna en ráðh. að láta bjóða Alþ. slíkt sem þetta. Það hefur ekki þekkst fyrr að öllum ráðum sé ráðið upp í stjórnarráði og síðan sé þm. stjórnarliðsins smalað saman inn í þingflokksherbergin hérna í þinginu eins og rollum á haustdegi. Þetta láta þessir þm. bjóða sér hvað eftir annað eins og þeir séu sálarlausir með öllu.

Hvað hugsar hæstv. sjútvrh. sér þegar hann talar um að breyta útflutningsgjaldinu? Fyrst er unnið stórkostlegt starf við að ná sáttum á milli seljenda og kaupenda, annars vegar sjómanna og útgerðarmanna og hins vegar fiskvinnslu, um að breyta útflutningsgjaldinu og hafa eitt og sama útflutningsgjald, á þeim grundvelli að það sé eðlilegra að þeir, sem selja dýrari vöru úr landi og framleiða dýrari vöru, greiði hærra verð í krónutölu í útflutningsgjald. Þegar þessi samræming átti sér stað var lækkað hlutfallslega útflutningsgjaldið af ódýrari vöru sem þoldi ekki svo hátt gjald. En það kemur annað til. Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins kemur einnig inn í þetta dæmi. Verðjöfnunarsjóðurinn hefur það hlutverk að draga úr áhrifum verðsveiflna er verða kunna á útflutningsafurðum fiskiðnaðarins. Þegar ein grein gengur betur í ár en áður og jafnvel mörg ár á undan, við skulum segja skreiðarverkunin, réttlætir það ekki að taka kúfinn af skreiðarverkuninni til að lækka útflutningsgjöld í annarri grein. Skreiðarverkun á þá auðvitað að greiða hlutfallslega meira af söluverði skreiðar í sina deild í Verðjöfnunarsjóðnum til að styrkja þar stöðu sína þannig að hún geti tekið við sveiflum niður á við þegar að því kemur, því alltaf má við því búast. Þetta er eðli og tilgangur Verðjöfnunarsjóðsins, en ekki alltaf að hirða það sem kemur inn og sjá um að hvergi komi neins staðar inn, heldur bara út á meðan eitthvað er til. Þetta er ríkisstj. núna að hætta sér út í, sem er rangt að mínu mati.

Útflutningsgjaldið eins og það er núna skiptist aðallega í fjóra meginhluta. Aflatryggingasjóður fær nú yfir helminginn eða 50.5%. Þar af eru 19.5% framlag til almennu deildarinnar og til áhafnadeildar 31%. Vátryggingar fiskiskipa fá fjórðung af gjaldinu eða 25%. Fiskveiðasjóður fær 20% og Fiskimálasjóður 1%. Til sjávarrannsókna fara 2.5% og svo 1/2% annars vegar til sjómannasamtakanna og hins vegar til Landssambands ísl. útvegsmanna. Ég held að eftir því, hvernig þetta útflutningsgjald skiptist verði auðvitað að meta það og vega: Þola þær greinar, sem eiga að fá útflutningsgjaldið, að það sé skert eitthvað frekar? Ég vil geta þess í þessu sambandi, að þegar eftir myndun vinstri stjórnarinnar sálugu var bætt verulega við verkefni Aflatryggingasjóðs. Hvað snertir framlag til áhafnadeildarinnar tel ég ákaflega hæpið að það sé hægt að skerða neitt, — raunar hvorki framlagið til almennu deildarinnar né áhafnadeildar Aflatryggingasjóðs. Það væri e.t.v. hægt að skerða frekar hlut vátrygginga fiskiskipa ef staða útgerðarinnar væri sæmilega góð, en nú vitum við mætavel að staða hennar er síður en svo að vera sæmileg. Hún er afleit þó útgerðin fái væntanlega 19% fiskverðshækkun, eins og helst er nú rætt um. Aðrir liðir eru lítilfjörlegir. Þeir eru ekki nema 4.5% svo að það mundi muna litlu þó af þeim væri klipið, enda legg ég það ekki fyrir mitt leyti til. En ég vara við þessari breytingu.

Sömuleiðis kom mér á óvart þegar hæstv. ráðh. sagði að olíugjaldið yrði áfram óbreytt.

Nú er ekkert olíugjald. Það var 7.5% til 31. des. Það þarf því nýja löggjöf um olíugjald. Um gjald þetta urðu nokkrar deilur þegar frv. um það var til afgreiðslu í októberlok eða nóvemberbyrjun. Þá lýsti hæstv. ráðh. því yfir, sem hann og gerði litlu eftir að hann tók við embætti sjútvrh., að hann væri mótfallinn olíugjaldi í því formi sem það er á lagt. Því kemur mér það á óvart ef hann ætlar nú í þriðja skipti að leggja á gjald sem hann telur vera rangt og raunar heimskulegt að leggja á í því formi, eins og hann hefur margoft tekið fram. Sjálfstæðismenn og fulltrúi Alþfl. í sjútvn. Nd. töldu að það ætti að fara í auknum mæli yfir í almenna skattlagningu, en ekki láta útgerðarmenn og sjómenn eina standa undir þessu olíugjaldi. Um hitt greinir okkur ekki á, hæstv. sjútvrh. og mig, að útgerðin þarf á þessum tekjum að halda. En ég furða mig á því, að ráðh., sem búinn er að sitja í sínu embætti í eitt ár og þrjá daga, segir að skattur, sem hann hefur tvívegis lagt til að verði lagður á, sé ranglátur og snarvitlaus, en lýsir því nú yfir í þriðja skipti, að hann ætli að leggja vitlausan skatt á sem hann sé algjörlega á móti sjálfur.

Þegar við förum að athuga þetta nokkru nánar er það ekki svo vitlaust hjá hæstv. ráðh. að halda svona á málum. Vitaskuld verður hann að vera samstiga hinum níu í ríkisstj. Af því þeir eru alltaf að ganga aftur á bak og reka sig á veggina vill hann auðvitað gera það líka svo hann geti verið áfram í þessu samfélagi. Það er sennilega eina skýringin sem hægt er að finna í þessu sambandi. Syndaflóðið stóð í 40 daga og 40 nætur, en á fiskverðsákvörðun á Íslandi í ársbyrjun 1981 hefur staðið í 43 daga og nætur. Framsfl. kvartar um grútmáttlausa stjórnarandstöðu, eins og leiðtoginn í þingflokknum hefur margoft gert. Svo kemur ritstjóri Tímans og skælir þau ósköp í leiðara fyrir þremur dögum yfir hvað stjórnarandstaðan sé hörð og erfið. Það eru ekki einu sinni þornuð enn tárin á blaðinu sem kom út fyrir þremur dögum. Þá er hann að taka upp hanskann fyrir foringjann sinn, sem grét hér beisklega fyrir viku yfir því, að við værum vondir menn sem værum að skipta okkur af því hvað gengi með sjávarútveg á Íslandi og með ákvörðun um fiskverð, — ákvörðun sem íslenskt efnahagslíf byggist á, — og að fulltrúar þm., sem eru kjörnir úr sjávarbyggðum, skuli leyfa sér að ýta við steinsofandi mönnum þegar þeir voru búnir í rúma 40 daga að hanga á þessu máli.

Ég vona að það sé þá satt og rétt sem ráðh. segir, að fiskverðið komi fyrir helgi. Það er fiskverðsákvörðun sem á að gilda til 1. mars. Síðan kemur auðvitað önnur fiskverðsákvörðun, því að sjómenn og útgerðarmenn verða að taka mið af þeim væntanlegu uppbótum á laun sem koma 1. mars. Vonandi verða þó þessar ákvarðanir tvær teknar samtímis, þannig að sjómenn, útgerðarmenn, fiskverkendur og þjóðin öll og verkafólkið, sem vinnur í fiskvinnslunni, viti hvað fiskverðið verði út vertíðina. — En mér finnst að menn, sem þannig stjórna, eigi að tala sem allra minnst um langtímastefnu. Þeir geta ekki einu sinni fylgt tímatalinu eftir, eru á eftir tímatalinu um 43 daga.