11.02.1981
Sameinað þing: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

187. mál, vegáætlun 1981--1984

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er satt að segja raunalegt að heyra hv. þm. eins og síðasta hv. ræðumann, hv. 1. þm. Vesturl., standa hér fulla af þakklætisyfirlýsingum í garð hæstv. ríkisstj. fyrir þann ómyndarskap sem birtist okkur í till. sem þessari sem hér liggur fyrir til umr. Litlu verður Vöggur feginn, — ég segi ekki meira en það.

Ég missti af framsöguræðu hæstv. samgrh., en ég geri ekki ráð fyrir að ég hafi misst af miklu því að frá því að hann settist í þetta ráðherrasæti hefur hann ekki haft uppi nema úrtölur í þessum næstmikilvægasta málaflokki okkar. Ég heyrði á hv. 3. þm. Norðurl. e., að hann hefði sjálfur fullyrt um þennan málatilbúnað sinn að hann hefði brotið í blað, og fullur af þakklæti var hv. síðasti ræðumaður þar sem hann talaði um blaðbrotið. Allur myndarskapurinn er þessi, að til framkvæmda á að verja 2.10% af þjóðarframleiðslu árið 1981. Halldór E. Sigurðsson — þakklæti til hans gleymdi hv. þm. Alexander Stefánsson í ræðu sinni — kom þessu hlutfalli árið 1971 í 2.27. Hann gerði enn betur árið 1972: í 2.36, og hann gerði enn vel árið 1973: í 2.24, 2.11 1974 og 2.07 var þetta 1975 eða jafnhátt því sem nú eru áform uppi um. Það hefði verið nær að halda lofræðu í minningu hv. þm. Halldórs E. Sigurðssonar og hans framtaks í þessum efnum, sem braut miklu frekar í blað í þessari sögu en hæstv. núv. ráðh. (Gripið fram í: Og forverar hans.) Ég tala nú ekki um forvera hans. (Sjútvrh: Vill hann ekki lesa upp prósentutöluna rétt?) Ég les þessar prósentutölur rétt upp. Hér er ég með langtímaáætlun hæstv. ráðh. Ég tek ekki endilega með fjárveitingu Framkvæmdastofnunar, sem kemur honum ekkert við, það eru 5% af þeim fjárhæðum sem á leggja til Vegagerðar á næsta ári, og kemur úr allt annarri átt og er ekki stórum hans að þakka og ekkert blaðbrot, enda er það svo að þessir hæstv. ráðherrar brjóta ekkert í blað, þeir brjóta bara af sér.

Hv. þm. Lárus Jónsson benti á það í ræðu sinni að hér eru verðlagsforsendur 42%. Ég var þar nær í morgun, og það mun birtast í útvarpi í kvöld, sem hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að hann hefði enga trú á að verðbólga yrði undir 50% á þessu ári. Hvað verður þá um framkvæmdaafl þessa fjármagns? Við höfum líka séð það, þm., á fundum með vegagerðarmönnum að það er með öllu ófært að leggja úr höfn og ýta úr vör með það fjármagn sem nú á að vera til skiptanna. Á þessu verður að ráð bót.

Hv. þm. Alexander Stefánsson hefur nú fengið í sínar hendur sem fjvn.-maður tillögu um framtíðarskipan þessara mála frá 19 Sjálfstæðisþm. Hann ætti að glugga í hana og vita hvort hann yrði þá ekki feginn að sjá þá stefnumótun ef hún er borin saman við þá langtímaáætlun sem hæstv. ríkisstj, hefur lagt fyrir þingheim. 2% af vergri þjóðarframleiðslu er meiningin eftir þeirri langtímaáætlun að verja til vegamála og 0.1% í viðbót næstu 8 árin, — af því að það hefur verið staðið það slaklega að málum undanfarin ár, bæta þeir við 0.1%.

Eins og ég sagði í umr. um þessar ályktunartill., sem fram fóru hér á hinu háa alþingi í síðustu viku, þarf að skila aftur úr ríkissjóðshítinni því stórfjármagni sem af umferðinni er tekið og er hærra hlutfall af ríkistekjunum en í nokkru öðru ríki, sem við þekkjum til og skilað til baka í einna lægstu hlutfalli af því sem við þekkjum til. Svo er gert ráð fyrir að á árinu 1982 verði hækkunin milli ára 30%, frá 1981–1982, og svo óbreytt seinni tvö árin, 1983–1984, óbreytt frá 1982. Þá sjá menn að heldur er framsýnin í fyrirrúmi hjá þeim sem þessar áætlanir setja saman.

Nei, ég endurtek það: Ég sé ekki með hvaða hætti á að standa að framkvæmdum þessara mála, og þá tala ég bara um árið í ár, miðað við þær áætlanagerðir sem við þm. höfum þegar séð á fundum með vegagerðarmönnum. Það er óhugsandi að ná fram hinum allra brýnustu og viðkvæmustu málefnum nema stórlega verði úr bætt, og það eru vissulega öll tök á því ef við til að mynda lítum á hin gífurlegu innflutningsgjöld af bifreiðum, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. að renni til ríkissjóðs, og enn hækkandi bensíngjald, enda er það út af fyrir sig að hafa bensínið dýrt ef tekjunum af sölu þess er skilað til réttra aðila, til vegagerðarinnar, til framkvæmda í þessum mikilvæga og næstmikilvægasta málaflokki, eins og ég segi, fyrir utan orkumálin. Ég fæ ekkert annað út úr þessu lesið en það sem ég nú hef sagt um þær prósentur og eftir því súluriti, sem ég hef hér fyrir framan mig, að vísu ekki með öllu sambærilegt, í langtímaáætluninni, við það sem er í framlagðri vegáætlun. En það er svo önnur saga.

Ég vænti þess að hv. fjvn. taki alvarlega til athugunar, — enda þótt mér sé ljóst að við sjálfstæðismenn náum ekki okkar hugmyndum fram fyrir þetta ár, það þarf miklu meiri undirbúning, — að hún taki það vandlega til athugunar, með hvaða hætti málum verði þokað miklu betur fram til verks en er áformað í þessari áætlanagerð.