11.02.1981
Sameinað þing: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

187. mál, vegáætlun 1981--1984

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég verð að leyfa mér að lýsa furðu minni yfir því þegar hæstv. samgrh. talar hér fyrir vegáætlun og leggur hana fram á grundvelli þess, að verðbólgan á árinu 1981 verði aðeins 42%. Á s.l. ári, þegar komið var langt fram á árið, voru hér til umfjöllunar fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun. Ríkisstj., sem tók við í febrúar hafði haft nokkurn tíma til að vinna fjárlög og vinna lánsfjáráætlun, en hún lagði þessi gögn fyrir Alþingi og lýsti því yfir að 31% yrði verðlagsþróunin á árinu 1980 að hennar dómi. Reynslan er öll önnur, eins og hv. þm. vita. Í staðinn fyrir 31% verðlagsþróun 1980 er verðlagsþróunin frá upphafi árs til loka tæp 60%. Þegar svo þessi vegáætlun er hér til umr. og gengið er út frá 42% verðlagshækkunum á árinu 1981 erum við í fjh.- og viðskn. þingsins upplýstir af forstjóra Þjóðhagsstofnunar um að verðbólguhraðinn síðustu þrjá mánuði sé um 80%. Ég fæ ekki séð, miðað við það sem hæstv. ráðh. sagði áðan um fjármögnun til vegamáta og samanburð þar á milli ára, annað en þakklæti hv. 1. þm. Vesturl., Alexanders Stefánssonar, hefði mátt bíða þar til hann væri búinn að sjá hver niðurstaðna yrði úr þessu dæmi þegar árið er liðið.

Gerðar eru ráðstafanir um s.l. áramót og hæstv. forsrh. lýsir því yfir, að með því hugsi hann sér að koma verðbólgunni niður í 40%, en það er varla liðinn sólarhringur er meðráðherrar hans koma fram á sjónarsviðið og segja: Það verður að gera eitthvað töluvert meira ef verðbólgan á að fara niður í 40%. Hún kemst aldrei nema niður undir 50% með þessum ráðstöfunum. — Samt sem áður láta þeir sig hafa það að tala hér, þegar komið er fram í miðjan febrúar, fyrir vegáætlun þar sem gert er ráð fyrir 42% verðlagsþróun á árinu 1981.

Það er alveg ljóst mál, að þó að aðeins 50% hækkun á verðlagi á þessu ári yrði eru menn með þessari þáltill. og því fjármagni, sem hún ætlar í vegi og vegagerð á þessu ári, komnir niður fyrir þá upphæð, sem var varið til þessara mála á s.l. ári, og nálgast þá lágu tölu sem var 1979.

Ég held að hv. 1. þm. Vesturl. verði að taka á honum stóra sínum í fjvn. ef hann á að hafa ástæðu til þakklætis þegar árið er liðið, eins og frá honum kom áðan, sem ég veit að hann að sjálfsögðu vildi. Afgreiðsla þessarar till. frá fjvn. yrði þá að vera með töluvert miklum breytingum til hækkunar á því fjármagni sem til vegagerðar yrði varið árið 1981.