16.02.1981
Neðri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (2498)

209. mál, tollskrá

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um tollskrá o.fl., með síðari breytingum, en þessar breytingar á tollskrárlögum varða einkum og sér í lagi öryrkja.

Nokkru fyrir hátíðir í des. bar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fram fsp. þess efnis, hvort ekki yrði senn lagt fyrir alþingi frv. um breytingar á því ákvæði laga um tollskrá sem varðar eftirgjöf gjalda af bifreiðum fyrir öryrkja. Ég svarað þá, að frv. þetta væri í undirbúningi og það, sem einkum kæmi til greina í sambandi við nýtt frv. eða lagabreytingar, væri að hækka fjárhæðina sem tolleftirgjöfin er bundin við, tengja hana við vísitölu þannig að fjárhæðin hækkaði frá ári til árs í hlutfalli við verðbreytingar, stytta tímann milli endurveitinga, þannig að öryrkjar geti oftar skipt um bíla, eftir því sem þeir ganga úr sér, og fjölga bifreiðum sem heimilt er að lækka tolla á. Það frv., sem hér hefur verið lagt fram, felur í sér öll þau atriði sem ég nefndi í svari mínu á þinginu fyrir jól.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að fjölga bifreiðunum úr 400 í 500 á ári. Þetta tengist því ákvæði, sem kemur fram í 5. málsgr. frv., að lágmarkstími sá, sem líða verður frá fyrri eftirgjöf þar til öryrki getur sótt um eftirgjöf að nýju, er styttur úr fimm árum í fjögur ár. Okkur þykir eðlilegt að bílafjöldinn sé þá aukinn samsvarandi, þannig að sú lagfæring á lögunum, sem felst í styttingu tímans, lýsi sér ekki í því, færri njóti þá þessara hlunninda.

Samkvæmt núgildandi reglum geta þeir, sem þurfa á sérstökumundum bifreiða að halda- bifreiðum sem gerðar hafa verið breytingar á, — og hafa því fengið hærri eftirgjöf en aðrir, en það eru um 25 aðilar sem þess hafa notið á hverju ári, sótt um eftirgjöf að fjórum árum liðnum. Hér er gerð tillaga um samsvarandi breytingu hvað þá hópa snertir þannig að eftirgjöf gagnvart þeim er miðuð við þriggja ára tímabil.

Í þriðja lagi er upphæð tolleftirgjafar hækkuð. Í núgildandi ákvæðum er miðað við 7500 nýkr., en hæst getur eftirgjöfin orðið 15 000 nýkr. Hér er lagt til að þessar hámarksupphæðir séu hækkaðar um 60%. Þær voru seinast leiðréttar fyrir einu ári. Miðað við þá verðbólguþróun, sem síðan hefur orðið, þykir eðlilegt að hækka þessar tölur um 60% þannig að föst tollaeftirgjöf geti numið allt að 12 000 nýkr., auk lækkunar innflutningsgjalds um allt að sömu fjárhæð, og getur því lægri eftirgjöf alls numið 24 000 nýkr.

Eins og ég gat um áðan hefur verið heimilt samkvæmt nýgildandi lögum að veita 25 aðilum af 400, sem eru taldir mestir öryrkjar, allt að helmingi hærri tolleftirgjöf eða samtals 30 000 nýkr. samkv. núgildandi ákvæðum. Vegna margs konar aukabúnaðar, sem sérstaklega kann að þurfa að panta með bifreiðum þessara aðila, hefur þessi regla verið í gildi og er talið rétt að halda henni óbreyttri þannig að um tvöfalt hærri eftirgjöf verði að ræða. Því er í þessu frv, gert ráð fyrir fastri tolleftirgjöf allt að 24 000 nýkr., auk lækkunar innflutningsgjalds um allt að sömu fjárhæð, og því getur hærri eftirgjöf numið alls 48 000 nýkr.

Í þessu sambandi er rétt að vekja á því athygli, að söluskattur er ekki greiddur af þeim hluta aðflutningsgjalda sem felldur er niður. Reynsla undanfarinna ára hefur leitt í ljós að 25 bifreiðar árlega fyrir þá, sem mestir eru öryrkjar, er nægilegur fjöldi að mati úthlutunarnefndar bifreiða til öryrkja. Er því gert ráð fyrir óbreyttum fjölda bifreiða. Í núgildandi lögum er svofellt ákvæði:

„Aðilar, sem njóta tollívilnunar samkv. 41 tölul. 3. gr. geta eigi jafnframt fengið eftirgjöf samkv. þessum tölulið.“

Þar er vísað í tölulið í tollskrárlögum þar sem bifreiðastjórar eiga í hlut sem stunda akstur leigubifreiða til fólksflutninga, akstur sendiferðabifreiða eða kennslu í bifreiðaakstri. Samkvæmt tilvitnuðum 41. tölul. 3. gr. tollskrárlaga er heimilt að lækka toll bifreiða til nefndra aðila úr 90% í 40% sé um aðalstarf að ræða, en úr 90% í 65% sé um aukastarf að ræða.

Eins og fram kom í tilvitnuðum tölulið hafa bifreiðastjórar, sem njóta þessarar tollívilnunar, ekki fengið til viðbótar þá tollívilnun sem kynni að falla þeim í skaut et þeir væru öryrkjar. Þetta hefur valdið allmikilli óánægju, og hafa þeir bifreiðastjórar, sem öryrkjar eru, talið að með þessu næðu þeir ekki fullu jafnrétti við aðra. Hins vegar hefur þótt mjög hæpið að gefa þeim tvöfalda eftirgjöf samkvæmt báðum þessum óskyldu ákvæðum og hefur því verið farin sú málamiðlunarleið að miða við að þeir geti notið hálfrar ívilnunar samkvæmt þessum lagaákvæðum.

Í 2. gr. frv. er vikið að alls óskyldu máli, sem er rýrnun, skemmdir á innfluttum vörum sem lengi þurfa að bíða á hafnarbakka án þess að fá tollafgreiðslu. Á þetta ekki hvað síst við um bifreiðar. Þær geta legið undir miklum ryðskemmdum ef ekki er heimild til að verja þær skemmdum. Í reynd hefur þetta verið framkvæmt þannig hjá Eimskipafélaginu, að heimild hefur verið til að færa bifreiðar til ryðvarnar innan ports Eimskipafélags Íslands án þess að þær væru tollafgreiddar, en með þessu hefur Eimskipafélagið og sú ryðvarnarstöð, sem þar er, notið sérstakra forréttinda umfram aðra ryðvarnarskála, sem ekki hafa notið þess að geta ryðvarið ótollafgreiddar bifreiðar. Ég hef talið sjálfsagt og eðlilegt að allir sætu við sama borð í þessum efnum og að einum aðila væri ekki gert hærra undir höfði en öðrum, en það virðist þá ekki nein önnur leið til þess að lög heimili að svo sé gert. Hér er sem sagt gerð tillaga um að fjmrn. hafi heimild til að leyfa tímabundna afhendingu á vörum til þess að á þeim geti farið fram nægileg aðvinnsla til að forða þeim frá rýrnun eða öðrum skemmdum. Eins og menn sjá er þetta mjög fræðilegur texti, en í reynd mun þetta fyrst og fremst eiga við um bifreiðar sem færu út úr tollgeymslu til ryðvarnar og kæmu svo þangað aftur að ryðvörninni lokinni. — Þetta ákvæði er að öðru leyti nánar skýrt í grg. og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um það.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til hv. fjh.- og viðskn. Ef enginn gerir athugasemd við það legg ég það til.