17.02.1981
Sameinað þing: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2313 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

370. mál, viðskiptahættir ríkisbanka

Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Við fyrri fsp. minni hér í dag las hæstv. viðskrh. upp svar frá Seðlabankanum og mér þótti það fátæklegt. Við síðari fsp. las hann líka upp svör frá bönkum og mér þóttu það ekki síður fátækleg svör. Hins vegar svaraði viðskrh. þessari seinni fsp. nokkuð frá eigin brjósti líka, og þar var munur á, því að reyndar talaði hann atgerlega tæpitungulaust og svaraði því vel sjálfur.

Ég tek undir með hæstv. viðskrh. um það, að mér þykja röksemdir Seðlabankans í þá átt, að banki skuli sjá til þess að hæfilegar og auðaðgengilegar tryggingar séu settar, engan veginn skýra þau viðskipti sem hér er um að ræða. Bæði er það, að viðskiptavíxlar eru venjulega tryggðir bæði með samþykkjanda og útgefanda og stundum ábekingum líka, auk þess sem einungis sumir ríkisbankarnir telja sér þessa tryggingu nauðsynlega samkv. þessu.

Í þessu svari Seðlabankans er vísað til að hér sé um samkomulag milli banka og viðskiptavinar að ræða. Þá hlýtur sú spurning að vakna, hvort þetta samkomulag sé aðallega einhliða, hvort þetta samkomulag sé ekki mest á annan veginn og þá nánast eins og bankinn vill hafa það. Ég held að menn verði að hugleiða það. Og orðatag í þessu sambandi, eins og að viðskiptavininum sé gefinn kostur á að geyma fé sitt á þennan hátt í banka, getur orkað tvímælis.

Samkv. þeim upplýsingum, sem hér komu fram, er ekki um að ræða bundinn reikning, að því er ég skil svar Seðlabankans, heldur sé þá viðskiptavini heimilt að segja reikningnum upp þegar honum þóknast. Í þeim samkomulagsdrögum eða eyðublaði að samkomutagi, sem ég hef undir höndum frá einum ríkisbankanum, segir þó að bankanum skuli heimilt að halda slíku fé sem tryggingu hvers konar skuldbindingar hverju nafni sem kunni að nefnast, hjá viðskiptavini. Og þá vaknar auðvitað sú spurning, hvort einhvers konar lán í öðru formi í viðkomandi banka geti samkv. þessu nægt til að binda slíkt fé. Ég skal ekki leggja neinn dóm á það. En aðalatriðið í þessari fsp. er að fá það fram lögformlega, hvort hér er um löglega viðskiptahætti ríkisbanka að ræða eða hvort hér er verið að fara fram hjá þeim vaxtareglum sem Seðlabankinn setur.

Æskilegt hefði verið að þetta kæmi algerlega skýrt fram hér því að sú spurning vakir í hugum margra borgara þessa lands. Svar bankamálaráðherra var á þann veg, að hér væri um að ræða fjáröflunaraðferð banka, bankar væru með þessu móti að græða peninga. Hann vitnar jafnframt til bréfs, sem rn. sendir Seðlabanka, þar sem kemur fram að rn. telur þessa viðskiptahætti óeðlilega og vafasamt að þeir séu í samræmi við reglur um þessi efni. Jafnframt hafði viðskrh. það orð, að hann teldi að þessa viðskiptahætti ætti að leggja af.

Ég vil þakka viðskrh. fyrir þessi svör og tel þau ólíkt skýrari en svör bankanna.