03.11.1980
Neðri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef beðið leyfis að taka til máls utan dagskrár í hv. d. vegna máls sem ég tel íhugunarvert fyrir hv. Alþ. og ekki er allt of oft rætt hér um í þingsölum, en það er er hvorki meira né minna en skipting þjóðarauðsins.

Þegar þinghald hófst í haust höfðu verkalýðsfélögin átt í margra mánaða löngu samningaþófi við atvinnurekendur sem lauk ekki fyrr en rétt nýlega. Öllum er ljóst að landsmenn hafa enga ástæðu til að fagna þeim launahækkunum sem náðust, þó að fengist hafi verulegar félagslegar umbætur. Enn þá eru laun þúsunda landsmanna langt undir því sem telja verður nægilegt til sæmilegs lífsviðurværis. En eins og oft áður hafa landsmenn sýnt skilning á efnahagsörðugleikum þjóðarinnar og gengið til samninga þrátt fyrir lítilfjörlega lausn eigin efnahagsörðugleika.

Þing hafði ekki setið lengi nú í haust þegar hv. þm. barst bréf frá kaupmannasamtökum landsins og fylgdi því gerðarleg þvottaklemma. Það tók treggáfaða hv. þm., a.m.k. suma hverja og þar með ræðumann, nokkra stund að átta sig á táknmáli þessarar sendingar. En einn hinna betur gefnu upplýsti að sendingin væri áminning til hv. þm. um að verslunin væri í klemmu vegna of lágrar álagningar á neysluvörur landsmanna.

Ræðumanni, sem einnig á sæti í borgarstjórn Reykjavíkur, kom þessi tilkynning nokkuð á óvart. Hann hafði hingað til haldið að flest annað í þessu þjóðfélagi væri í klemmu. Á byggingarsvæði, sem verið hefur í skipulagningu við Kringlumýrarbraut, er hús verslunarinnar eina byggingin sem risin er, bygging með yfir tug hæða. Ekki var að sjá að fjárskortur tefði fyrir þessari byggingu á nokkurn háu. Borgarsjóður var þess ekki umkominn að lyfta úr jörð borgarleikhúsi eða borgarbókasafni, sem þarna er gert ráð fyrir, þó að mun fleiri eigendur standi að þeim. Samtök verslunarmanna munaði hins vegar ekki um að byggja stórhýsi þetta á skömmum tíma. Klemman virtist vera um borgarsjóð, en ekki um samtök verslunarmanna.

Nú hafa stórtíðindi verið tilkynnt. Vandi borgarsjóðs vegna borgarleikhúss sýnist að verulegu leyti leystur, og enn koma verslunarmenn við sögu. Hinn 8. nóv. 1972 lést í Reykjavík Sigurliði Kristjánsson kaupmaður og 3. júní 1978 kona hans Helga Jónsdóttir. Sigurliði var kunnur kaupmaður hér í borg alla starfsævi sína og er ekki vitað til að hann hafi stundað önnur störf. Verslanir sínar rak hann með öðrum manni, hinar þekktu verslanir Silla og Valda. Við lát þeirra hjóna var ekki um skylduerfingja að ræða og hafa því hjónin ráðstafað eigum sínum til ýmissa menningarstofnana.

Fyrir áhuga þeirra hjóna á íslenskri menningu ber vissulega að þakka og munu margir landsmenn eiga eftir að njóta góðs af auði þeirra. Það, sem vekur hins vegar athygli launþega þessa lands, er umfang þessa auðs. Ágóði annars af eigendum þessara verslana, sem þau hjón gefa nú til menningarmála og annarrar starfsemi, er hvorki meira né minna en eignir að brunabótamati 3 milljarðar 560 millj. kr. Þarna var augljóslega ekki um verslun í klemmu að ræða. Það verður að teljast sæmilegur arður tveim manneskjum til handa, þó að vel hafi verið unnið langa starfsævi. Þessi arður er álagning verslunarinnar sem neytendur hafa greitt.

Ég hygg að það sé reynsla margra launþega í þessu landi, að erfitt sé að safna í sjóð til elliáranna, þó að vel hafi verið unnið jafnlanga starfsævi. Hið háa Alþingi og launþegasamtökin hafa reynt að mæta algjöru peningaleysi hinna öldruðu með stofnun lífeyrissjóða og lífeyri almannatrygginga, ella byggi þetta fólk við algjöran skort. Launin hrukku varla til þegar samneyslan hafði verið greidd, og hún er stór útgjaldaliður íslenskra launþega, enda verður ekki hjá því komist að leggja verulegan skatt á hvern einasta mann, þó að atvinnurekendur eigi ævinlega erfitt með að greiða hærri laun.

Það verður ekki hjá því komist að benda á, að á árunum sem Sigurliði Kristjánsson safnaði auði sínum áttu atvinnurekendur, ekki síst kaupmenn, í greiðsluörðugleikum, eins og það er kallað, og þess vegna var allajafna þröngt um launahækkun til launþega. Vel má vera að verslanir Sigurliða hafi verið betur reknar en allar aðrar, en ekki rekur mig minni til að sú ábending hafi nokkru sinni frá honum komið né að hann hafnaði hækkun álagningar. Og víst er að verslunarmenn voru ekki ofaldir af launum sínum þá fremur en þeir eru nú.

Geta má sér til um hreinan gróða kaupmannsins af verslunum sínum, því að vitanlega greiddi hann sinn hlut í samneyslu Reykvíkinga og landsmanna allra lögum samkvæmt. Og jafnframt hafði þá fyrirtækið greitt sinn hluta. En það er utan við það sem hér er bent á. Hér liggur fyrir að við andlát sitt áttu þau hjón milljarðaeignir, svo að þau gátu arfleitt samfélagið að 3 milljörðum 560 millj. kr., hvort eða hvert sem annað kann að hafa farið. Hér er um að ræða upphæð sem nær tveggja ára framlag allra Reykvíkinga til Sjúkrasamlags Reykjavíkur, sjóðs sem tryggir reykvískum borgurum naumlegt lífsviðurværi í sjúkdómum. Þessi upphæð er hundruðum milljóna hærri en sú upphæð sem fer í að reka rúmlega 40 dagvistarstofnanir í Reykjavík á ári. — Ég skal rétt ljúka máli mínu, forseti. Mér er ljóst að ég er heldur langorð.

Hér liggur ljóst fyrir, að óhugsandi er að hin látnu hjón hafi greitt til samneyslu landsmanna í nokkru hlutfalli við greiðslugetu sína. Fjarri er mér að væna látna einstaklinga um lögbrot af nokkru tagi, enda liggur ekkert slíkt fyrir. En sú spurning hlýtur að vakna, hvort löggjöfin sé þá eins og hún ætti að vera. Erum við hv. þm. að vinna að jafnrétti og lýðréttindum hér í þingsölum meðan milljarðaarður af vinnu landsmanna liggur í vösum eins manns? Og þarfnaðist verslunin hærri álagningar meðan þessi auðsöfnun fór fram.?

Það má e.t.v. segja að það sé óréttlátt gagnvart hjónunum, sem arfleiddu samfélagið svo rausnarlega, að hefja máls á þessu hér á hinu háa Alþingi. En ástæðan er einfaldlega sú, að svo vill til að hjónin voru barnlaus og arfleiddu því opinberar stofnanir að eigum sínum. En hversu mörg dánarbú af slíkum stærðargráðum halda áfram að vera í höndum örfárra einstaklinga á sama tíma og fólkið í landinu, sem skapi þennan auð, getur ekki fengið sómasamleg laun greidd fyrir vinnu sína? Ég hygg að hér sé ástæða fyrir hið háa Alþingi að staldra við. Ég held að hv. Nd. Alþingis verði að hugsa um og raunar Alþingi allt, hvort við eyðum ekki tíma okkar hér til lítils ef við höfum haldið að við værum að vinna að þjóðfélagi jafnréttis og réttlætis. Menn skulu minnast þess við næstu umr. um fjárhagsörðugleika Flugleiða, þegar við hv. þm. greiðum um það atkv., hvort ríkissjóður bjargi samgöngum þjóðarinnar við umheiminn, að erfðafé eins manns er mun meira en það sem þarf til þess. Einn maður gat léttilega reitt það fé fram sem allir landsmenn ráða ekki við úr sameiginlegum sjóði.

Við hljótum að spyrja hvort fleiri fjölskyldur í landinu hafi slík fjárráð og hvers vegna þær komist upp með að halda afrakstrinum af vinnu okkar á þennan hátt. Við getum ekki treyst því, að honum verði alltaf skilað aftur á jafnmyndarlegan hátt og Sigurliði Kristjánsson og Helga Jónsdóttir gerðu.

Öllum landsmönnum er ljóst, að langt er frá því að við búum við réttlátt skattkerfi, þó að við vonum að lög þau um tekjuskatt og eignarskatt, sem samþ. voru á síðasta löggjafarþingi, hafi e.t.v. bætt þar nokkuð úr. Sú leiðrétting á eftir að koma skýrar í ljós þegar endanleg álagning liggur fyrir og úttekt hefur verið gerð.

Ég mun því beina máli mínu til hæstv. viðskrh. að þessu sinni og leita svara við eftirfarandi spurningum: Fyrsta spurning: Er gróði af verslun á borð við gróða af verslunum Silla og Valda eðlileg afkoma kaupmanna og þar með vísbending um stöðu verslunarinnar?

Önnur spurning: Telur hæstv. viðskrh. kröfur talsmanna verslunarinnar um hækkun álagningar nauðsynlegar vegna afkomu hennar?

Þriðja spurning: Hver er áætlaður hagnaður verslunarinnar árið 1980?

Og að lokum fjórða spurning: Verðlagseftirlit hefur verið gagnrýnt nokkuð á undanförnum árum, — er unnið að úrbótum á því?

Mér er ljóst, að ég gerði hæstv. viðskrh. viðvart nokkuð seint um þessar spurningar og mun fyllilega sætta mig við frekari útskýringar seinna, ef hann óskar þess, svo og þá máske skriflega.