18.02.1981
Efri deild: 53. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (2543)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það hafa orðið hér allmiklar umræður utan dagskrár um kaup á togara til Þórshafnar. Hv. 2. þm. Reykn. hóf þessar umræður, og það var ekki óeðlilegt að það væri gert og málið væri hér tekið fyrir utan dagskrár.

Hins vegar er þetta mál þannig vaxið, að því verða ekki gerð nein fullnaðarskil í umræðum utan dagskrár. Það gera allt sér ljóst. Og m.a. kom það fram í ræðu hæstv. forsrh., að hann sagðist ekki ætla að fara hér út í nema einstaka þætti þessa máls, en margt væri auk þess óljóst og þyrfti rannsóknar við.

Með tilliti til þessa höfum við nokkrir þm. talið eðlilegt að taka þannig á málinu, að óskað yrði sérstakrar skýrslu frá forsrh. um það samkv. ákvæðum 31. gr. þingskapa. Þar er gert ráð fyrir slíkri meðferð þegar sérstaklega stendur á, og vissulega stendur sérstaklega á í þessu máli. Ég ætla ekki að fara að ræða málið hér efnislega, en vildi sérstaklega vekja athygli á þessu og beiðni um skýrslu frá forsrh. um kaup á togara fyrir Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga á Þórshöfn sem lögð hefur verið fram og útbýtt á þskj. 434. Þessi beiðni er flutt af 1. þm. Reykn., Matthíasi Á. Mathiesen, ásamt níu öðrum þm. Þar er tekið fram, að með tilvísan til 31. gr. laga um þingsköp Alþingis sé þess óskað, að forsrh. flytji Alþingi skýrslu vegna kaupa á togara fyrir Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga á Þórshöfn.

Þessari beiðni fylgir stutt grg., þar sem tekið er fram að það sé ljóst öllum þeim, sem fylgst hafa með kaupum á togara fyrir útgerðarfélag Norður-Þingeyinga, að skiptar skoðanir séu á forsendum, upphafi og meðferð þess máls. Fram hafi komið að ráherrar segja sitt hver um samþykktir ríkisstj. og ekki sé með öllu sami skilningur á samskiptum ríkisstj. og stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Með tilliti til þessa er þess óskað, að forsrh. gefi Alþingi skýrslu um þetta mál hið fyrsta, þar sem birtar verði samþykktir ríkisstj., stjórnar Framkvæmdastofnunar, bréfi sem rituð hafa verið af þessum aðilum, svo og gerð grein fyrir munnlegum skilaboðum sem farið hafa á milli þessara aðila.

Þetta er það sem liggur á bak við beiðni okkar þm. um skýrslu frá forsrh. um togarakaupin til Þórshafnar.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, ég hef ekki ætlað mér í þessum umræðum, eins og ég hef þegar tekið fram, að ræða málið efnislega.