18.02.1981
Neðri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2381 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

Umræður utan dagskrár

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég mun stytta mál mitt.

Það er margt sem ég hef við þetta mál að athuga, ekki bara samþykktina frá því í gær, heldur málið frá byrjun. Í fyrsta lagi er hér notað almannafé til að rýra lífskjör íslenskra sjómanna í heild og alls almennings í landinu. Í öðru lagi er þetta fyrirtæki bjarnargreiði við íbúa Þórshafnar og Raufarhafnar. Hæstv. sjútvrh. talaði um væntanlega rekstrarerfiðleika. Það hefur verið reiknað út að vanta muni á ári á næstu árum um 700 millj. gkr. til þess að endar nái saman, til þess að hægt sé að standa undir skuldbindingum. Ef það er meiningin að norðanmenn eigi að standa undir þessu sjálfir er þeim vissulega gerður bjarnargreiði, en það var að heyra á hæstv. sjútvrh. Auðvitað lendir þetta á skattborgurum þessa lands. Þangað eru peningarnir sóttir. Það virðist svo, að lengi megi sækja fjármagn í vasa þeirra — oft af vafasömu tilefni.

Í þriðja lagi er með lítt heftum innflutningi fiskiskipa, eins og nú hagar til, verið að leggja íslenskan skipasmíðaiðnað í rúst. Það tekur þó steininn úr þegar þeir peningar, sem á að nota til þessa, eru teknir af því mjög svo takmarkaða fé sem ætlað er beint eða óbeint til stuðnings íslensks skipasmíðaiðnaðar.

Ég er sammála því, sem fram kom í viðtali hæstv. iðnrh. við Morgunblaðið í gær, að þetta er yfirgengileg vitleysa. Það, sem á að gera í þessum málum í mjög grófum dráttum, er það, að í fyrsta lagi á að banna innflutning fiskiskipa um ákveðið árabil, í öðru lagi á öll nauðsynleg endurnýjun að fara fram hjá íslenskum skipasmíðastöðvum og í þriðja lagi á að finna leiðir til miðlunar á fiski milli verstöðva. Vandamál Þórshafnar og Raufarhafnar eru skortur á fiski hluta úr ári. Það er verið að leysa þann vanda með þessum rándýra hætti á kostnað íslenskra sjómanna og íslensks almennings. Auðvitað var hægt að leysa þetta á miklu ódýrari hátt, eins og áður hefur komið fram, t.d. með því að kaupa fiskibáta.

Við eigum að hafa þetta mál sem víti til varnaðar. Þetta er yfirgengileg vitleysa.