19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2390 í B-deild Alþingistíðinda. (2569)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Er ekki hæstv. forsrh. einhvers staðar á næstu grösum? Hann var hér við umr. í gær. (Forseti: Það verða gerðar ráðstafanir til þess að ná í hann.)

Herra forseti. Það virðist ekki bóla á hæstv. forsrh., en kannske ég geri nokkur atriði að umræðuefni sem komu fram í umr. í gær. Ég ætlaði að víkja nokkrum spurningum til hæstv. forsrh., en ég get alveg eins gert það á eftir.

Það kom hér fram í umr. í gær, að ýmsir þm. viku að mínu máli og hv. þm. Guðmundur Bjarnason talaði um að hann hefði að sjálfsögðu haft samráð við heimamenn út af þessu máli. Hann virtist með þessu vera að gera einhvers konar aths. við það sem ég upplýsti hér í gær, að formlegt samráð við þm. hefði ekki verið haft fyrr en 28. jan. á fundi í Framkvæmdastofnun út af þessum skipakaupum, þó að bréf okkar til ríkisstj. hafi verið skrifað 12. maí 1980. Það, sem ég átti við með þessu, var að sjálfsögðu — og það stendur óhaggað, enda staðfesti hv. þm. Stefán Jónsson það — að formlegt samband við okkur var ekki haft af neinum aðila, hvorki ríkisstj., stjórn Framkvæmdastofnunar né af hálfu 1. eða 2. þm. kjördæmisins, um þetta mál á þessum tíma. Að sjálfsögðu voru einstakir þm. í sambandi við ýmsa aðila út af málinu til þess að reyna að afla sér einhverra upplýsinga. Eins og hér kom fram, barst m.a. ósk um sérstakan fund um þetta mál þegar í fyrrasumar, en af honum varð ekki, þannig að ég vil að það komi hér fram, að bæði ég og aðrir þm. vorum að reyna að afla okkur upplýsinga um málið. Það, sem ég átti við, var einfaldlega þetta, að formlega var málið ekki tekið fyrir af hálfu þm. Norðurl. e. fyrr en 28. jan. s.l. og engin ósk kom fram frá neinum aðila, sem fjallaði um þetta mál, um að þm. hefðu ein eða önnur afskipti af málinu eftir að þeir skrifuðu þetta bréf, sem nánast var bréf um að komið yrði til aðstoðar þessu fólki með aðgerðum, og það hefur margoft komið hér fram hvernig þetta var orðað. Beinlínis var talað um skip í þessu sambandi, ákveðið skip - eða ef það væri ekki keypt, þá yrðu veitt leyfi fyrir innflutningi á skipi sem þá var verið að tala um að kostaði einhvers staðar á milli eins og hálfs milljarðs kr.

Hv. þm. Stefán Guðmundsson taldi að ég hefði komist þannig að orði, að ég hefði viljað láta hlutast til um val á skipum. Ég vil taka skýrt fram að það voru ekki mín orð. Ég benti hins vegar á og bendi enn á það, að ef stjórnvöld taka ákvörðun um að standa svo óvenjulega að skipakaupum sem hér um teflir, að greiða reikninginn 100% það sem skipið kostar, þá þarf að sjálfsögðu að standa að þeim málum á allt annan hátt en ef einkaaðilum er leyft að flytja inn skip eða smíða skip og fá út á það t.d. 80% fyrirgreiðslu. Þá liggur það í hlutarins eðli, að það er þessum aðilum hagkvæmt að standa sem allra best að slíkum skipakaupum eða smíðum. Ég er ekki á einn eða annan hátt að vantreysta þeim mönnum, sem að þessu stóðu, en af hálfu stjórnvalda er það náttúrlega hreinn barnaskapur, þegar ákveðið er að greiða fyrir slíku máli með 100% lánum, að hafa þá ekki sérstaka hönd í bagga með slíku, hver sem í hlut á. Það var aðeins þetta, sem ég átti við með mínum orðum.

Hv. þm. Eiður Guðnason komst einhvern veginn þannig að orði, að ég vildi sem minnst um þetta mál tala og kyngja þessum mistökum þegjandi, eins og ég held að hann hafi orðrétt komist að orði. Þetta er víðs fjarri sanni. Ég komst þannig að orði í upphafi ræðu minnar í gær að það væri kannske að bera í bakkafullan lækinn að fara að setja á langar tölur um þetta mál á Alþingi nú orðið, þar sem búið væri að ræða það mjög mikið í fjölmiðlum og annars staðar í þjóðlífinu undanfarið, en tók þó skýrt fram og vil endurtaka það hér, að ég er einn þeirra manna sem vilja að þetta mál verði á allan hátt upplýst, og ég tek mjög undir að lögð verði fram sú skýrsla sem nokkrir þm. hafa beðið um í þessu máli.

Hæstv. forsrh. hafði um þetta mál í gær, þau orð, sem hafa orðið fleyg í fjölmiðlum og um allt land, að það væri „alvarleg mistök“. Nú er það upplýst af bréfi sem hæstv. fjmrh. skrifaði 6. okt. s.l., að samningur um kaup á þessu ákveðna skipi liggur þá fyrir, því að í þessu bréfi segir, eins og ég vitnaði til í gær:

„Hér með er staðfest að ráðuneytið mun nýta heimild í lögum nr. 28/1972 til að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á skuttogara, er Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga hf. hefur samið um kaup á í Noregi.“ Það er því alveg ljóst að hæstv. ráðh. veit hvað hann er að skrifa upp á þegar hann skrifar þetta bréf- og hæstv. ríkisstj. Hafi orðið alvarleg mistök í þessu máli hljóta þau að hafa orðið síðar og þá er spurningin í hverju þau eiga að vera fólgin. Ég verð að segja alveg eins og er, að þessi uppáskrift hæstv. ráðh. og uppáskrift stjórnar Framkvæmdastofnunar eru þess eðlis, að ég teldi að þessar stofnanir, stjórnvöld og Framkvæmdastofnun, væru að hlaupast frá skriflegum yfirlýsingum um ákveðin atriði, sem er alveg ljóst hver eru, ef til baka yrði snúið í þessu máli. Ég lýsi enn og aftur áhyggjum mínum af því, að það geti orðið bjarnargreiði fyrir þessi byggðarlög að fara út í svona gífurlega fjárfestingu. En ábyrgðin hlýtur að vera stjórnvalda, eftir að þau hafa tekið svo afdráttarlausa afstöðu til málsins á þessu stigi. Það hefur komið fram að skipið hækkaði allmikið í verði eftir að um það var samið, en það hefur verið sundurliðað í hverju þær verðhækkanir eru fólgnar.

En það, sem ég ætlaði að spyrja hæstv. forsrh. um að lokum, eru atburðir síðustu daga. Mér er tjáð — ég verð að segja að ég hef bara lausafregnir fyrir því — en mér er tjáð að hæstv. fjmrh. hafi skrifað ríkisábyrgðasjóði og talið sig mundu fara fram á 90% ábyrgð vegna þessara skipakaupa. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort þetta mál hafi verið rætt í ríkisstj., hvort ríkisstj. standi á bak við þessa málaleitan hæstv. fjmrh. Nú þarf auðvitað að leita heimildar Alþingis með sérstökum lögum ef þetta á að gerast, þar sem ekki er heimild í lögum nema fyrir 80% ábyrgð ríkissjóðs í þessum efnum, í því að ábyrgjast skipakaupalán. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort þetta sé þannig, hvort ríkisstj. hafi samþykkt þetta og þá hvort hæstv. ríkisstj. hugsar sér að flytja frv. á Alþingi um þetta efni. Enn fremur hvað sé rétt í því, sem hér var mest rætt um í gær út af þessu máli, að ríkisstj. hafi ekki gefið stjórn Framkvæmdastofnunar ákveðin fyrirmæli eða tilmæli um að samþykkja þá niðurstöðu sem stjórnin samþykkti í gær.

Ég held að það sé rétt á þessu stigi málsins, úr því að þetta mál er orðið svo mikið til umræðu, að það komi alveg skýrt og ákveðið fram hver stefna hæstv. ríkisstj. í málinu er, hvað hún hugsar sér að gera.

Að lokum vil ég segja það, að ég tel að þetta mál sé allt með ólíkindum og því miður geti þetta orðið bjarnargreiði við þessi byggðarlög. En ég sé ekki annað en það verði samt sem áður að gera kröfu til stjórnvalda um að þau standi við gefnar yfirlýsingar í þessu máli.