19.02.1981
Efri deild: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2415 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

Umræður utan dagskrár

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst segja það, að þar er mjög eðlilegt og raunar sjálfsagt að þessi fsp. komi fram. Enn fremur vil ég fagna þeim upplýsingum sem fram komu í svari hæstv. forsrh. um það, að ríkisstj. hefði tekið þessi mál til athugunar. Ég vonast til þess og treysti því, að unnið verði hratt í þessu máli. Ég lít svo á að fyrstu viðbrögð ríkisstj. í málinu séu rétt. Það er nauðsynlegt að fyrst fari könnun á því, hversu mikið, hversu víðfeðmt tjón hefur orðið í óveðrinu á dögunum.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu að breyta lögum um Viðlagatryggingu með tiltölulega skjótum hætti. Nú sagði ég áðan að ég vonaði að sú könnun, sem fram þarf að fara, og mat á því tjóni, sem orðið hefur, gangi hratt. Eigi að síður hlýtur það að taka einhvern tíma. Eins og kunnugt er eru hv. alþm. snarir til verka. Því lít ég svo á að ekkert sé því til fyrirstöðu að breyta lögum um Viðlagatryggingu með skjótum hætti. Nú leikur mér svolítil forvitni á að vita hversu mikið fjármagn er til umráða á vegum Viðlagatryggingar. Ég hef ekki heyrt þær tölur, en mér þætti fróðlegt ef einhver gæti upplýst það hér.

Að því er varðar þá brtt., sem hér hefur verið lögð fram við frv. til lánsfjárlaga, er út af fyrir sig ekkert nema gott um hana að segja. En ég hefði heldur kosið og mér finnst rökréttara að sú könnun, sem ég talaði um áðan og forsrh. kynnti að yrði framkvæmd, færi fyrst fram, að tjónið yrði kannað í grófum dráttum fyrst. Mér fyndist það eðlilegra. En það er mála sannast auðvitað, að Bjargráðasjóður er fjárvana. Til hans þarf að afla fjár. það vita allir menn.

Ég tel ástæðulaust að bæta hér mörgum orðum við. Ég vil þakka fyrir það, að þessi umræða fór fram, og ég geri ráð fyrir því, að menn standi heils hugar að öllu raunhæfu sem fram kemur í því skyni að aðstoða almenning vegna óveðursins sem gekk yfir á dögunum.