19.02.1981
Neðri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka frekari þátt í þessum umr., þar sem mér þykir að þetta mál sé nú farið að fá svo ótrúlega fyrirferð í þingsölum að ég veit ekki til hvers ætti eiginlega að jafna, en vegna fsp., sem hér hefur komið fram, sé ég mig til neyddan að bæta nokkrum orðum við.

Auk þess sem segja má að þó að ég sé ekki frekar en margir aðrir allt of hrifinn af aðdraganda og undirbúningi þessa máls og telji að kaupverð skipsins sé allt of hátt, þá get ég ekki látið hjá líða að mótmæla ýmsum ýkjum og ósannindum sem borin eru á borð í þessu máli og eru sannarlega ekki til þess fallin að gera málið einfaldara í augum almennings.

Ég hefði sannarlega talið æskilegt að endurskoða þessi togarakaup þannig að kaupverðið hefði verið viðráðanlegra fyrir þá sem kaupa skipið. En ég er einn þeirra mörgu sem telja að nú, eftir að samningar hafa fyrir alllöngu verið gerðir um þessi skipakaup, sé ekki forsvaranlegt, hvorki fyrir ríkissjóð né Framkvæmdastofnunina, að fara að fleygja 300–400 millj. út um glugga með því að rifta samningum. (Gripið fram í: Hvenær voru samningarnir undirritaðir?) Mér er ekki kunnugt um það nákvæmlega, enda átti ég þar enga hlutdeild að, en ég giska á að það hafi verið einhvern tíma á haustdögum. (Gripið fram í: Heldur ráðh. að það sé búið að undirrita þessa samninga?) Ég held að það sé ekki aðeins búið að undirrita samninginn, heldur er mér kunnugt um að Framkvæmdastofnun hefur lagt fram ábyrgð á 10% af kaupverðinu. Hún er því þegar með þeim hætti bundin við greiðslu upp á liðlega 300 millj. kr. ef rifta ætti samningnum. Þegar af þessari ástæðu tel ég að það geti ekki komið til greina að hætta við kaupin.

Ég vil sérstaklega mótmæla þeim ummælum, sem uppi hafa verið höfð hér í þinginu og þá ekki síður í fjölmiðlum, að það eigi að leggja fram úr ríkissjóði 80% af kaupverði. Svo er að skilja á því, að ég hafi ekki undan að moka fé úr ríkissjóði í þessi togarakaup. Auðvitað er þetta eins og hver önnur endaleysa. Hérna er einungis um það að ræða að ríkissjóður ábyrgist erlend lán sem tekin eru í þessu skyni. Síðan tekur ríkissjóður auðvitað veð í skipinu og gerir jafnframt samning um að hann fái greiðslur af aflaverðmæti upp í vexti og afborganir sem greiða þarf af þessum lánum. (Gripið fram í: Hve hátt hlutfall?) Ég get upplýst það hér, að við höfum gert kröfu um 20% af aflaverðmæti í sambandi við þetta skip. Jafnóðum og afli er seldur af þessu skipi fær ríkissjóður 1/5 hluta upp í vexti og afborganir sem ríkisábyrgðasjóður hugsanlega kynni að þurfa að reiða fram.

Ég vil líka mótmæla því alveg sérstaklega, sem fram hefur komið hér af einhverjum misskilningi, að ákvörðun Framkvæmdastofnunar í þessu máli muni lenda á skipasmíðaiðnaðinum í landinu. Þetta er misskilningur. Ég vil hafa það alveg á hreinu að þessum misskilningi sé eytt vegna þess að ég heyri að þó að ég hafi verið að reyna að leiðrétta þetta, t.d. í umr. í gær, halda fjölmiðlarnir útvarp og sjónvarp áfram að tyggja þetta eins og einhverja gefna staðreynd. Þetta er hreinn misskilningur frá upphafi til enda.

Þegar um það var rætt á haustmánuðum, hvað ríkissjóður þyrfti að veita Byggðasjóði mikla viðbótarfyrirgreiðslu umfram það sem þegar hafði þá verið ákveðið með tillögum í fjárlögum og þar sem getið er um bein framlög úr ríkissjóði og lánsfjármögnun Byggðasjóðs, þá kom fram að skuldbindingar Byggðasjóðs vegna skipakaupa gætu numið allt að 3000 millj. gkr. á næsta ári. Með hliðsjón af þessu var ákveðið að útvega Byggðasjóði 1500 millj. gkr. til viðbótar í lán og að ríkissjóður mætti ábyrgjast þessi endurlán allt að 1500 millj. gkr. Eins og ég gerði grein fyrir hér í gær, var það skoðun mín og er skoðun mín enn, að kaupin á togaranum til Þórshafnar hafi verið innifalin í þessari upphæð alveg ótvírætt. — Ég get hér upplýst hvaða skip var verið að ræða um í sambandi við innlenda skipasmíði: Það var verið að tala um skipið Jón Magnússon frá Patreksfirði og áætlað að Byggðasjóður þyrfti að lána í það 110 millj. Það var um að ræða skipið Skagstrending og lán Byggðasjóðs upp á 560 millj. Það var um að ræða skipið „Flakkarann“ svonefnda, sem er eign Slippstöðvarinnar, og lán Byggðasjóðs í því sambandi upp á 280 millj. Og það var um að ræða skipið Hólmadrang og lán Byggðasjóðs að upphæð 840 millj. Samtals voru þetta 1790 millj. Til viðbótar þessu gat svo komið til greina að á Byggðasjóð féllu skuldbindingar vegna Fáfnis hf. á Þingeyri, sem ætlar að láta byggja skip í Slippstöðinni á Akureyri. Lán Byggðasjóðs yrðu þá allt að 600 millj. kr. ef til þess kæmi, en mér vitanlega höfðu þá ekki verið teknar neinar ákvarðanir um að þetta skip yrði smíðað og mér skilst að endanlegir samningar um það hafi enn ekki verið gerðir, a.m.k. mun Fiskveiðasjóður ekki vera búinn að afgreiða það mál.

Til viðbótar við þessa upphæð, sem ég nú hef nefnt og nemur um 2400 millj. ef allt er talið, voru nokkur önnur lán af hálfu Byggðasjóðs þannig að samanlagt var talið að upphæðin gæti farið eitthvað upp fyrir 3000 millj. kr. Þá var að sjálfsögðu reiknað með, a.m.k. eins og þetta birtist mér, að skipið, sem ætti að fara til Þórshafnar, væri inni í þessari upphæð.

Þegar síðan er ákveðið að 1500 millj. séu veittar til viðbótar til Byggðasjóðs er ekki um það að ræða að menn séu að koma á silfurfati með 1500 millj. til skipasmíðaiðnaðarins í landinu. Hann hefði fengið sitt hvernig sem allt hefði oltið. Það hefði þá bara kostað það, að lánveitingar Byggðasjóðs til annarra mála hefðu orðið minni. Viðbótarframlag til skipasmíðaiðnaðarins sem slíks skiptir þar af leiðandi ekki máli í þessu sambandi. Hann var búinn að fá loforð meira eða minna fyrir þessari fyrirgreiðslu úr Byggðasjóði og hefði fengið þessar upphæðir hvort sem þessi fyrirgreiðsla ríkissjóðs hefði komið til eða ekki. En það er ljóst, að ef Byggðasjóður hefði þurft að standa við að reiða fram öll þessi lán til skipasmíðaiðnaðarins hefði ráðstöfunarfé sjóðsins til annarra mála orðið minna að sama skapi. Það vorum við með í huga þegar við ákváðum að 1500 millj. kr. yrðu útvegaðar til að láta í Byggðasjóð. Það er því ljóst af orðum mínum, að sú ákvörðun, sem tekin var um 1500 millj. eða sú ákvörðun, sem varðar það skip sem á að fara til Þórshafnar, snertir ekki skipasmíðaiðnaðinn í landinu á einn eða neinn hátt.

Það er aftur á móti alveg rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að orðalagið í frv. til lánsfjárlaga er ekki alls kostar heppilegt. Það er kannske fullónákvæmt og þarfnast nánari skoðunar. Mér var strax ljóst þegar ég sá frv. að þarna höfðu orðið mistök. En ég vil samt benda á það, að í raun og veru er hægt að túlka þetta ákvæði á þann veg, að sú 600 millj. kr. viðgerð á skipinu, sem á að fara fram í Slippstöðinni á Akureyri, rúmi þá fyrirgreiðslu sem þarna er verið að ræða um. (Gripið fram í: En aðrar skipaviðgerðir í landinu?) Ja, þetta hefur engin áhrif á þær því að orðalagið í lánsfjárlögunum fullnægir algjörlega því, að þetta lán sé veitt til annarra skipasmíðaverkefna. Ég tel rétt að athuga nánar í nefnd hvaða orðalag menn vilja helst hafa á þessu ákvæði, og ég tel að kannske mætti orða það á nákvæmari hátt, en þó hygg ég að ef menn vildu halda því alveg óbreyttu mundi það samt sem áður duga, eins og það er orðað, til að ná yfir fyrirgreiðslu til þessa skips vegna þess að stendur til að fram fari stórfelld viðgerð á skipinu í Slippstöðinni á Akureyri og það væri þá hægt að lána fyrst og fremst til þeirrar framkvæmdar.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson bar fram þá fsp. í gær, hvort rétt væri að ákveðið hefði verið að hækka ábyrgðarhlutdeild ríkissjóðs úr 80% í 90% með bréfi sem hefði verið sent í gær. Ég vil láta það koma hér fram, að í gær var sent bréf frá fjmrn. þar sem gerð var grein fyrir því, að þegar hefði verið ákveðið að nota heimild í lögum um 80% ábyrgð vegna kaupa á skuttogurum, en jafnframt væri fyrirhugað, sbr. ákvæði í lánsfjárlögum, að taka ábyrgð á 10% til viðbótar. Samanlagt eru því áformin í sambandi við þetta skip um 90% ábyrgð ríkissjóðs. En auðvitað er þetta háð samþykki Alþingis. Það er alveg ljóst af bréfinu sem sent var í gær, að enn eru þetta einungis áform. Ef Alþingi er ekki reiðubúið að samþykkja, að ákvæðið um 1500 millj. nái til þessa skips og fyrirgreiðslu til þess segir sig auðvitað sjálft að þá fellur það áform um sjálft sig, nær ekki fram að ganga. En þannig var þetta hugsað á sínum tíma og þannig hafði ég alltaf skilið það og þess vegna hefur verið við það miðað.

Ég held að þessi útskýring mín geri fulla grein fyrir fsp. hv. þm. Það eru 80 prósentin, sem eru nú í lögum, sem áfram verður gert ráð fyrir að eigi við í þessu sambandi, og ef lánsfjárlagafrv. verður að lögum og það verður orðað á þann veg að það rúmi ótvírætt fyrirgreiðslu í þessu sambandi verður hún notuð í þessu skyni. Bréf um það hefur verið sent. Í þessu bréfi kemur jafnframt fram, að rn. hefur ákveðið að krefjast 20% hlutdeildar í aflaverðmæti næstu tvö árin og sé sá hlutur ætlaður til að greiða vexti og afborganir af láninu.