19.02.1981
Neðri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2449 í B-deild Alþingistíðinda. (2611)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég held ég verði að byrja á því að þakka hv. þm. fyrir fyrirframþakklæti hans.

Varðandi fyrri fsp., um hvort ég vilji veita atbeina til þess að hrinda af stað öðrum áfanga Vestfjarðaáætlunar, þá mun ég að sjálfsögðu verða við ósk hv. þm. og koma þessari ósk á framfæri við Framkvæmdastofnun ríkisins, sem hefur áætlunargerðina með höndum. Það er ákaflega nærtækt hér að biðja hæstv. forseta þessarar deildar um að taka þetta til athugunar. Að sjálfsögðu verður það svo staðfest formlega.

Varðandi síðara atriðið, um orkuvandamálin á Vestfjörðum, þá er það kunnugt að í orkumálum Vestfjarða hafa stór framfaraspor verið stigin á hinum síðustu árum. Má þar sérstaklega til nefna stofnun Orkubús Vestfjarða þar sem í rauninni var stofnað til heimastjórnar þar í orkumálum í samræmi við nær einróma óskir Vestfirðinga sjálfra. Annar áfanginn var svo gerð og tenging Vesturlínu. Hins vegar hefur hún ekki komið að því gagni sem ætlað var og gert var ráð fyrir. Vegna þess orkuskorts, sem er hér á Landsvirkjunarsvæðinu, og vegna vatnsleysis í uppistöðulónum þeirra virkjana er þar nú alvarlegt ástand og er þess ekki vænta að þar rætist úr fyrr en með vorinu.

Varðandi þessi vandamál Orkubús Vestfjarða og Vestfirðinga í orkumálum er það rétt hjá hv. þm., að ríkisstj. hafa borist óskir í því sambandi. Þau mál eru til meðferðar hjá ríkisstj. Það er ekki búið að afgreiða þau, ekki komnar í því niðurstöður, og þess vegna ekki hægt að greina frá þeim hér. En ég vil fullvissa hv. þm. um að ríkisstj. mun reyna að sýna fullan skilning á þessum vandamálum.

Í sambandi við fsp hv. þm., sem standa að verulegu leyti í sambandi við það ofviðri sem gekk yfir landið á mánudag og þriðjudag, vil ég skýra frá því, að í morgun ræddi ríkisstj. allítarlega um þau mál. Hafði hæstv. félmrh. og heilbr.- og trmrh. haft um það forgöngu að undirbúa ályktanir fyrir ríkisstj. þar um, enda heyra þau mál og þær stofnanir, sem hér koma sérstaklega við sögu, fyrst og fremst undir hans rn. Eftir ítarlegar umræður í ríkisstj. var ákveðið að nú þegar skyldi fara fram könnun á því tjóni, sem varð í ofviðrinu, og skyldi sú könnun fara fram í hverju byggðarlagi og niðurstöðum komið á framfæri sem fyrst við Samband ísl. sveitarfélaga og ríkisstj. Í annan stað var ákveðið að undirbúa breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, þar sem m.a. væri gert ráð fyrir að tryggingin næði til tjóns af völdum fárviðris eftir því sem unnt er. Í þriðja lagi að endurskoðuð verði lög um Bjargráðasjóð og athugað á hvern hátt sé rétt að skipta verkefnum milli hans og Viðlagatryggingar Íslands, því að það er ljóst að ýmis verkefni eru þar á mörkum eða skarast, sem kallað er, og þarf að draga þar skýrari línur á milli. En til viðbótar kemur það, að Bjargráðasjóður, sem hefur samkv. lögum viss verkefni og skyldur sem snerta mjög það mál sem við erum að fjalla um, er fjárvana og þarf því að sjálfsögðu að afla fjár með einum eða öðrum hætti til þess að hann geti staðið undir sínum skyldum. Í fjórða lagi var svo samþykkt að við afgreiðslu lánsfjáráætlunar yrði að taka til athugunar sérstaka lánsfjárheimild til að auðvelda endurbætur mannvirkja þegar mat á tjóni liggur fyrir. — Þetta eru meginatriðin í þeirri ályktun sem ríkisstj. samþykkti í morgun.