24.02.1981
Sameinað þing: 54. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (2696)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er næsta furðulegt að hlusta á þessa tvo hv. þm., Geir Hallgrímsson og Benedikt Gröndal, tala úr þessum ræðustól í nafni þingheims og segja að þingheimur krefjist svara frá okkur. Ég held að þeir séu alls ekki fulltrúar þingheims. Ef þeir vilja vita vilja þingheims eða þingmeirihluta er í góðu lagi hjá þeim að flytja t.d. till. um að skipa rannsóknarnefnd samkv. stjórnarskránni sem hefði það verkefni að leita uppi leynisamninga í sambandi við stjórnarmyndanir fyrr og síðar. — En út yfir tekur þó þegar þessir hv. þm. fara svo þar á eftir að tala í nafni þjóðarinnar. Ég hélt að þessir hv. þm. hefðu heyrt og lært það að undanförnu, að því fer fjarri að þeir séu fulltrúar íslensku þjóðarinnar.

Ég hef svarað spurningum hv. þm. Geirs Hallgrímssonar og tel enga ástæðu til að bæta þar neinu við, enda er tilgangurinn með fsp. ekki að fá upplýsingar um eitt eða annað, heldur eingöngu að þarna sýnist vera möguleiki á að koma á einhverri sundrung innan ríkisstj. Það er tilgangurinn og enginn annar.

Ég hef lýst því yfir, að það er eitt af meginatriðum í stjórnarsamstarfinu að ná sem bestu samkomulagi og leita samkomulags þegar um mál er að ræða sem menn líta mismunandi augum á, þar sem menn greinir á, sem eðlilegt er og hlýtur að verða í sérhverri ríkisstj.