24.02.1981
Efri deild: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2548 í B-deild Alþingistíðinda. (2719)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Frsm. 1. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég skal verða við þeim tilmælum forseta að hafa þetta ekki langt.

Ég er búinn að margsegja það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, og það er einmitt það sem kemur fram í bréfi hagstofustjóra, sem ég vona að hv. þm. vefengi ekki frekar en ég, að hér er um að ræða algerlega óvenjulega aðferð við þær aðstæður að verið er að skerða með lögum verðbætur á laun. Þá hefur aðferðin verið sú að taka ákvörðun um það í sömu lögum hvernig með skuli fara bætur almannatrygginga. Það er allt annað mál þegar almennt hefur t.d. verið tekin ákvörðun um að hækka bætur þeirra sem hafa tekjutryggingu um einhverja aðra prósentu en verðbætur á laun, eins og t.d. gert var í fyrra og oft hefur verið gert. En þegar verið er að setja lög um skerðingu verðbóta á laun hefur venjan verið að taka í sömu lögum ákvörðun um bætur almannatrygginga. Þetta kemur skýrt fram í bréfi hagstofustjóra.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Hæstv. fjmrh. sagði sjálfur áðan að það væri ekki von að þm. gætu gert sér grein fyrir því, hvað í því fælist sem hann væri að koma með beint ofan úr fjmrn. í tengslum við lög og frv. sem eru búin að liggja fyrir þinginu allan þennan tíma. Ég held því að hæstv. ráðh. hafi sjálfur dæmt þessa vinnuaðferð sína og hann þurfi ekki á formanni þingflokks Alþb. að halda til að skýra það á einn eða annan hátt.

Það væri maklegt að flytja hér hina skriflegu brtt. aftur og taka þá upp þessa tölu, sem hæstv. ráðh. nefndi, til þess að þá væri niðurneglt að þessir aðilar fengju bætur eftir því sem hér hefur komið fram, en ég ætla ekki að draga til baka ummæli mín frá því áðan. Ég lít svo til, að það megi skoða þetta mál í Nd. Þar vilja sjálfsagt einhverjir aðilar tryggja að í lögunum sjálfum, eins og venja hefur verið, verði ákvæði um með hvaða hætti almannatryggingabætur skuti greiða 1. mars. Það er þverbrot á öllum venjum að svo sé ekki.

Ég vil að lokum við þessar einkennilegu umr. hér í hinni háu Ed. fagna því, að ríkisstj. hrekst úr einu víginu af öðru í afgreiðslu sinni á þessu máli. Hún varð hrædd þegar hún sá þessar brtt. stjórnarandstöðunnar um að það skyldi ekki með þessu lagi fara aftan að bótaþegum almannatrygginga í landinu. Þó hefur hún ekki séð sóma sinn í því að milda á einhvern hátt skerðingu annarra bótaþega en sem taka tekjutryggingu og heimilisuppbót. Hún hefur ekki gert þetta almennt. Þetta þarf að skoða nánar og verður sjálfsagt gert. En ég vil fagna því, að hæstv. ríkisstj. hefur þó gert a.m.k. að einhverju leyti hreint fyrir sínum dyrum vegna þeirrar gagnrýni sem hún hefur fengið á afgreiðslu þessara laga. Það er ekki lítil gagnrýni sem hefur komið fram í fjárhags- og viðskiptanefndum þingsins, og oft og tíðum hafa menn skemmt sér konunglega yfir þeim klaufaskap sem ríkisstj. hefur sýnt með útgáfu þessara brbl.