25.02.1981
Neðri deild: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2571 í B-deild Alþingistíðinda. (2751)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Á dagskrá er frv. til l. um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, en frv. þetta er, eins og kunnugt er, staðfesting á brbl. sama efnis er út voru gefin 31. des. 1980. Þingmönnun er í fersku minni sú umr. sem fram fór hér á þingi fyrir jólaleyfi þm., þar sem rætt var um hvort ríkisstj. hygðist fresta Alþingi í þeim tilgangi að setja brbl. er hefðu inni að halda alhliða efnahagsráðstafanir. Við sjálfstæðismenn mótmæltum slíku verklagi, eins og kunnugt er, og töldum að hér væri ekki rétt að farið og Alþingi óvirðing sýnd. Það hefur komið á daginn að við höfðum rétt að mæla, og bera brbl. og það frv. þeim til staðfestingar, sem nú er til umr., Vitni um það.

Í 1. gr. þessa frv. er kveðið á um verðstöðvun, en í þessari grein er ekkert það sem ekki var fyrir í lögum áður. Ríkisstj. hefur með þessari grein engar frekari heimildir eða meira vald til þess að kveða á um verð vöru og þjónustu en hún hafði áður en þessi brbl. voru sett. Eina nýmælið í þessari grein frá því, sem gilti fyrir setningu brbl., er að kveðið er á um að verðstöðvun skuli lokið 1. maí n. k., án þess að frá því sé í raun skýrt, hver ætlun ríkisstj. sé að þá taki við. Það er því ljóst að ekki þurfti að setja nein brbl. til þess að koma efni 1. gr. að.

Í 2. gr. er um að ræða framlengingu aðlögunartíma vaxta og verðbólgu samkv. 33. gr. laga nr. 13 frá 1979, um stjórn efnahagsmála, þ. e. svokallaðra Ólafslaga. Framlengingin tekur til tveggja missera, þ. e. yfirstandandi árs.

Það er einkennandi fyrir ríkisstj., að hún setur þessi lög eða kveður á um framlengingu aðlögunartímans á síðasta degi ársins þegar allt er komið í óefni. Í raun og veru hefur ríkisstj. það að kennimerki sínu að gera aldrei neitt nema á síðustu stundu, ef hún þá hefur sig til þess.

Okkur er minnisstætt hér á þingi um þetta leyti í fyrra, að athygli ríkisstj, var vakin á því, að hún fylgdi ekki ákvæðum 33. gr. Ólafslaga varðandi aðlögun vaxta og verðbólgu. Þá var gefin út mjög hátíðleg fréttatilkynning frá ríkisstj. og Seðlabankanum, að engar breytingar skyldu gerðar á vöxtum, enda væru mál þessi til umfjöllunar hjá ríkisstj. og Seðlabanka og m. a. kæmi til greina að framlengja aðlögunartímann samkvæmt 33. gr.

Enn endurtekur sagan sig í maímánuði á síðasta ári, nema með þeirri undantekningu að þá voru vextir hækkaðir í landinu um 2–4, ef ekki 4.5%, mismunandi eftir ýmsum útlánagreinum. Þessi hækkun vaxta átti sér staða þvert ofan í málefnasamning ríkisstj. þar sem þvert á móti var komist svo að orði: „Verðbótaþáttur vaxta hækki ekki 1. mars og fari síðan hækkandi með hjöðnun verðbólgu.“ Vextir voru óbreyttir 1. mars, en fóru síðan hækkandi, enda fór verðbólgan vaxandi.

Það er rétt að rekja það enn fremur, að í ágústmánuði s. l. var enn birt fréttatilkynning frá Seðlabanka og ríkisstj., að nú skyldi áfram tekið til við umræður um aðlögun vaxta og verðbólgu og framtengingu aðlögunartímans. En ekkert skeði. Og sömuleiðis var þetta endurtekið líklega í fjórða sinn í nóv. s. l. Bæði í nóv. og des. vöktum við í stjórnarandstöðunni athygli ríkisstj. á því, að nauðsynlegt væri að setja lög um framlengingu þessa aðlögunartíma samkv. 33. gr. Ólafslaga. En ríkisstj. daufheyrðist við þeim ábendingum og hafði sig ekki í aðgerðir fyrr en síðasta dag ársins. Þetta ákvæði er í raun og veru einasta ákvæðið í brbl., sem segja má að nauðsyn bæri til að setja, og er eina ákvæðið í brbl., sem þannig fullnægir skilyrðum stjórnarskrárinnar til þess að gefa megi brbl. út, þ. e. þegar brýna nauðsyn ber til.

Í 3. gr. er talað um stofnun verðtryggðra sparifjárreikninga í bönkum og sparisjóðum, þar sem binda má fé til sex mánaða. Þetta lagaákvæði var algjörlega óþarft, enda minnist ég þess ekki, að sett hafi verið nein sérstök lög þegar stofnað var til verðtryggðra sparireikninga á miðju síðasta ári, þar sem fé var bundið til 12 mánaða. Stofnun þeirra reikninga var í samræmi við og samkvæmt heimild í Ólafslögum, verðtryggingarákvæðum þeirra laga. 3. gr. var því efnislega ekkert nýmæli sem gaf tilefni til útgáfu brbl.

Í 4. gr. er kveðið á um útreikning nýrrar kaupgjaldsvísistölu, og má segja að þar sé um verklagsreglu að ræða, sem hefur ekki heldur í för með sér þörf fyrir útgáfu brbl., vegna þess að ríkisstj. gat auðvitað látið reikna vísitölu framfærslukostnaðar miðað við verðlag í janúarbyrjun 1981 og fengið síðan heimild Alþingis til þess að miða við þann útreikningsdag.

Í 5. gr. er ákvæði um það, að kaup skuli lækka um 7% 1. mars, verðbætur skuli vera 7% lægri en hefði orðið samkvæmt ákvæðum Ólafslaga. Það liggur í augum uppi að tími var nægur til að leggja frv. til laga þessa efnis fyrir Alþingi þegar Alþingi kom saman, jafnvel þótt óbreyttur samkomudagur Alþingis hefði verið 26. jan. s. l. Það munar ekki miklu að þetta frv. verði afgreitt fyrir mánaðamót, og verður e. t. v. afgreitt fyrir mánaðamót hvort eð er, þótt meðferð í þingnefndum hafi tekið töluverðan tíma, eins og eðlilegt má teljast að vissu leyti. En að hinu leytinu er sú skýring, að gögn, sem hefðu átt að vera til hjá ríkisstj., voru það ekki og þurftu því ýmsar stofnanir nokkurn tíma til að safna þeim saman samkv. beiðni nefndarmanna.

Það er því ljóst, að 4. og 5. gr. gáfu ekki tilefni til útgáfu brbl. Það hefði verið hægt að leggja frv. til l. fram með eðlilegum hætti þegar Alþingi kom saman og samt sem áður ná þeim tilgangi sem ríkisstj. sýnist miða við.

Þá er 7. gr. frv., um heimild til að fresta framkvæmdum þrátt fyrir ákvæði fjárlaga og sömuleiðis að endurskoða lánsfjáráætlun, með eindæmum afkáraleg, þar sem fjárlög höfðu verið samþykkt tíu dögum áður eða svo og lánsfjáráætlun hafði ekki einu sinni verið lögð fyrir Alþingi. Þess vegna var undarlegt af fara fram á heimild til þess að fresta framkvæmdum þrátt fyrir ákvæði í lánsfjáráætlun sem hafði ekki séð dagsins ljós og var því algjörlega á valdi ríkisstj. hvernig yrði þegar hún væri lögð fram. Það er því ljóst, að enga brýna nauðsyn bar til útgáfu brbl. að þessu leyti.

Ég rek þetta til þess að sýna það, að ríkisstj. hefur brotið í bága við það skilyrði stjórnarskrárinnar að brýna nauðsyn beri til þess að brbl. verði gefin út. Efnislega hefði ríkisstj. sömuleiðis getað náð þeim tilgangi, er hún stefndi að, með því að leggja þetta mál fyrir þing með venjulegum hætti, eins og vera ber.

Þá er rétt að víkja að efnishlið málsins og ræða á fyrst 1. gr. frv. þar sem greint er frá verðstöðvuninni. g hygg raunar að fulltrúar Sjálfstfl. í Ed. hafi gert grein fyrir skoðun okkar sjálfstæðismanna í þeim efnum og brtt., sem þeir fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. Ed., Lárus Jónsson og Eyjólfur Konráð Jónsson, hafa flutt þar, greina frá. Við viljum leggja áherslu á það, að verðstöðvun er í raun og veru óraunhæf leið eins og stendur til þess að koma í veg fyrir verðbólguþróun. Það er hugsanlegt að verðstöðvun geti gert sitt gagn um skamman tíma, en eins og kunnugt er hefur verðstöðvun verið í gildi frá haustinu 1970, og þó hafa verðhækkanir aldrei verið meiri en á þessum rúma áratug sem síðan er liðinn, verðbólgan aldrei alvarlegri, og staðnæmst löngum í 50–60% verðbólgu á milli ára, með nokkrum undantekningum þó þegar verðbólgan var um eða yfir 30% milli ára. Þessi reynsla sýnir að verðstöðvun getur ekki verið tæki í baráttu gegn verðbólgu þegar til lengdar lætur. Það verður að horfast í augu við staðreyndir efnahagslífsins og raunverulegt verð vöru og þjónustu ef menn vilja ekki stöðva atvinnufyrirtækin og innleiða atvinnuleysi.

Það er þess vegna í samræmi við þessa skoðun okkar sjálfstæðismanna að brtt. þeirra hv. þm. Lárusar Jónssonar og Eyjólfs Konráðs Jónssonar fjallar um það, að frá og með 1. maí n. k. skuli taka gildi 8. og 12. gr. laga nr. 56 frá 1978, en það eru þau lög sem samþykkt voru vorið 1978, eftir að þáv. stjórnarflokkar, Sjálfstfl. og Framsfl., höfðu varið mjög töngum tíma til undirbúnings þeirra. Þau fela það í sér, að þar sem samkeppni er nægileg skuli verðlag gefið frjálst. Við erum þeirrar skoðunar, að samkeppni um hylli neytenda sé ein til þess fallin að lækka verð vöru og þjónustu og bæta um leið þjónustu við neytendur almennt.

Ég vil þá víkja að vaxtamálum og verðtryggingarmálum sem um er rætt í 2. og 3. gr. Þar er annars vegar um framlengingu aðlögunartíma samkv. Ólafslögum að ræða. Sú framlenging hefur það í för með sér að öllu óbreyttu, að í stað þess að vextir hefðu þurft að hækka um 10% um síðustu áramót ættu vextir að fara smáhækkandi á yfirstandandi ári um þau 10%, miðað við þá verðbólguspá sem Þjóðhagsstofnun hefur gefið út. Út af fyrir sig var það ekki óeðlilegt úr því sem komið var. Hins vegar segir efni 3. gr. — þar sem rætt er um stofnun verðtryggðra sparifjárreikninga þar sem binda má fé til sex mánaða — að þessi hækkun fjármagnskostnaðar og vaxta muni væntanlega eiga sér stað örar ef einhver veruleg aukning verður í innlánum á slíkum verðtryggðum sparifjárreikningum, meðan verðbólguþróunin er sú sem spáð er bæði af hálfu Þjóðhagsstofnunar og raunar fleiri aðila í þjóðfélaginu, eins og hagdeilda Verslunarráðs Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands.

Þannig er í raun nokkur mótsögn varðandi efni 2. gr. annars vegar og 3. gr. hins vegar. Hvort tveggja mun hafa í för með sér hækkun vaxta og/eða fjármagnskostnaðar, og eftir því sem árangur verður meiri af stofnun verðtryggðra sparifjárreikninga til sex mánaða verður þessi vaxtahækkun og hækkun fjármagnskostnaðar örari.

Heyrst hefur að hækka eigi vexti um næstu mánaðamót um 1–2% á einstaka útlánum. Það er að vísu í samræmi við efnahagsáætlun ríkisstj. sem út var gefin samhliða brbl. á gamlársdag, þar sem komist var svo að orði, að „stefnt skuli að lækkun vaxta“. En ég vek athygli á því, að þar er ekki stigið nema að hálfu leyti eða tæplega það til baka það skref sem stigið var til hækkunar vaxta um mitt síðasta ár, þvert ofan í málefnasamning ríkisstj. í upphafi ferils hennar. Og þar sem samhliða er boðað að hækka skuli þjónustugjöld banka og lánastofnana, þá er hér um algera sýndarmennsku og sjónarspil að ræða. Lántakendur og viðskiptamenn banka eiga a. m. k. að greiða jafnmikið eða meira en áður til bankastofnananna og lánastofnananna samkv. því sem boðað hefur verið.

Í raun og veru stendur ekkert annað eftir af brbl. ríkisstj., sem efnisþýðingu hefur, en ákvörðun um að verðbætur á laun verði 7% lægri en orðið hefði samkv. Ólafslögum 1. mars n. k. Og þar komum við auðvitað að mjög athyglisverðu atriði, að í brbl. var ekki að einu eða neinu leyti getið um það, að greiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega skyldu vera undanþegnar, né heldur rætt um að tekjutrygging og heimilisbætur skyldu vera undanþegnar þessari skerðingu. En það kemur fram í álitsgerð hagstofustjóra, sem fylgir nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. í Ed., að hann telur það vera venju að bætur þessar fylgi launaákvörðunum, þegar um það sé að ræða að skerða verðbætur, taki það og til slíkra bóta nema skýrt sé tekið fram að svo verði ekki.

Þess vegna var flutt brtt. af hálfu sjálfstæðismanna, 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed., að skerðing verðbóta hinn 1. mars 1981 nái ekki til bóta Tryggingastofnunar ríkisins og skuli þær hækka í samræmi við breytingar á vísitölu samkv. Ólafslögum.

Þessar brtt. voru kynntar í fjh.- og viðskn. Ed. fyrir 10 dögum eða hálfum mánuði án þess að neinna viðbragða yrði vart af hálfu málsvara stjórnarsinna. Það er ekki fyrr en í gær, þegar 2. umr. fer fram í Ed. um frv. þetta, að stjórnarsinnar hafa tekið sig á og áttað sig á því gerræði sem þarna væri um að ræða ef ákvæði brbl. væru óbreytt að þessu leyti. Og þá kemur fram tilkynning af hálfu ráðh. um að ætlunin sé að tekjutrygging og heimilisuppbót skuli hækka um 5.95% eins og önnur laun, en enn fremur um 8%, þ. e. til þess að vega upp á móti 7% skerðingunni sem áður hafði verið á komin.

En ég vek athygli á því, að ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum almennt, sem ekki njóta tekjutryggingar, er ætlað að þola þá skerðingu verðbóta sem launþegar almennt verða að gera nú um n. k. mánaðamót.

Það er þess vegna fullkomið tilefni til þess að flytja hér í Nd. þá brtt. sem þm. Lárus Jónsson og Eyjólfur Konráð Jónsson fluttu í Ed.

Ég kemst ekki hjá því að víkja nokkuð að skerðingu verðbóta samkv. þessari grein og þá einkum og sér í lagi að því, að Alþb. hefur varið þátttöku sína í ríkisstj. — frá 1978 og til þessa dags með nokkru hléi — með því, að það væri að verja launþega í landinu fyrir kaupskerðingu, þátttaka þess í ríkisstj. réttlætist af því, að það væri með þeim hætti að koma í veg fyrir kaupskerðingu og skerðingu kaupmáttar. Ég hef áður vakið athygli á því hér á Alþingi, að frá því að Alþb. tók þátt í ríkisstj., frá 1. sept. 1978 og til þessa dags, hafa fulltrúar Alþb. staðið að hverri kaupskerðingunni á fætur annarri. Í des. 1978 tóku þeir þátt í því að skerða verðbætur launa um 8%. Í apríl 1979 tóku fulltrúar Alþb. þátt í því að setja ákvæði Ólafslaga, en samkv. því, sem formaður Alþb., hæstv. félmrh., hefur sagt opinberlega, hafa áhrif Ólafslaga á verðbætur á laun orðið til þess að þær hafa verið skertar um 16.6% til þessa dag. Þetta eru lög sem Alþb.-menn bera ábyrgð á. Nú bæta þeir gráu ofan á svart og ganga enn lengra á bak orða sinna með því að skerða verðbætur á laun um 7%. Samtals er þetta skerðing um 32–34%, auðvitað meiri skerðing í raun, vegna þess að þetta bætist hvað ofan á annað. En á þessu tímabili hafa grunnkaupshækkanir verið fyrst 3% á árinu 1979 og síðan um 10% á s. l. ári.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, sem sat ábúðarmikill 10 mánuði síðasta árs við að semja um grunnkaupshækkanir og tókst að ná fram um 10% grunnkaupshækkun, er hins vegar á síðasta degi ársins að draga þessa grunnkaupshækkun til baka í einu vetfangi. Þessi hv. þm., sem barði sér á brjóst og kallaði 1978: „Samningana í gildi“ og „kosningar eru kjarabarátta“ — hann hefur sýnt umbjóðendum sínum hvaða gildi það hefur að kjósa hann og hans líka á þing. Árangurinn er sem sagt um 30–35% skerðing verðbóta á laun meðan launþegar fá 10–13% grunnkaupshækkun. — Árangurinn er sem sagt skerðing kaupmáttar. Og þetta lætur þessi hv. þm. eins og aðrir hv. þm. Alþb. sér vel líka. (Gripið fram í.) Ég hef ekki minnst á skattahækkanirnar sem hafa komið til viðbótar kaupskerðingu og hv. þm. flúði, en hann hefur hins vegar mjög ánægður tekið þátt í öllum kaupskerðingum. Hann hafði þó einhverja sómatilfinningu þegar átti að hækka skattana, en það hefur hann ekki þegar um skerðingu verðbóta er að ræða.

Það er því alveg ljóst að það stendur ekki á Alþb., þegar á að skerða verðbætur á laun, og yfirlýsingar Alþb.-ráðherra eru einskis virði í þeim efnum. Það má skjóta því hér inn, að það eru einstaka menn sem segja að það sé ágætt að láta Alþb. éta ofan í sig eitt og annað. Það hefur verið talað um slíkt ofaníát í sambandi við varnarmálin, eins og kunnugt er, en þeir eru matlystugir Alþb.-mennirnir í fleiri efnum, og í kaupgjaldsmálum sýna verkin merki.

Það er auðvitað rétt og verður ekki fram hjá því gengið, að kaupgjald í landinu hefur áhrif á verðlag og verðbólguþróun, og þegar um það er að ræða að berjast gegn verðbólgunni hlýtur kaupgjald að koma til álita og hvernig við skuli bregðast breytingum þess. En hitt er með öllu gagnslaust, að snúa sér eingöngu að kaupgjaldinu og ekki að öðrum þáttum efnahagslífsins. Hér verður að vera um samræmdar ráðstafanir að ræða. En í þessum lögum er það eina, sem upp úr stendur, lækkun verðbóta á laun um 7% 1. mars n. k.

En hér komum við líka að ákaflega skoplegum þætti þessara brbl. Það er sá þáttur og sú áhersla sem Alþb.menn leggja nú að það að afnema skuli viðmiðun verðbóta við viðskiptakjör. Eftir að hafa tíundað að m. a. vegna skerðingu verðbóta vegna versnandi viðskiptakjara séu verðbætur á laun um 16–17% minni frá því að Ólafslög tóku gildi, þá skeður það núna þegar viðskiptakjör fara heldur batnandi — það mælist að því er mig minnir um 0.9% hækkun launa 1. mars vegna batnandi viðskiptakjara — þá er viðmiðunin við viðskiptakjör afnumin, Ef þessi þróun heldur áfram, sem við allir þm. vonum og allir landsmenn vona, að viðskiptakjör fari batnandi, þá njóta launþegar ekki góðs af batnandi viðskiptakjörum, þó að þeir hafi þurft að þola skerðingu verðbóta þegar viðskiptakjör versnuðu. Svo vísdómsleg er forsjá þeirra Alþb.-manna fyrir launþegum í landinu. Og hún er enn þá merkilegri fyrir þá sök, að vera kann að 1. júní og 1. sept. n. k. muni þeir, sem hafa hærra kaup en 725 þús. gkr. á mánuði, fá hækkað kaup á þann hluta kaupsins sem fram yfir þá tölu er, meðan hinir lægra launuðu fá enga slíka hækkun.

Það er alveg furðulegt að hv. þm. Alþb. skuli hafa geð í sér til þess að standa að slíkri lagasetningu. En reynslan sýnir, eins og ég hef getið um, að það er ekkert bannorð í þeirra huga að skerða laun, ef þeir eru þar með að tryggja setu í ráðherrastólum til þess að nálgast sem mest það stjórnarfyrirkomulag sem þeir dá mjög í austantjaldsríkjum. En ég held að Íslendingar frábiðji sér slíkt.

Það er ekki þörf á því að fara fleiri orðum um það ákvæði brbl. sem 7. gr. hefur inni að halda.

Við sjálfstæðismenn erum þeirrar skoðunar, að það sé skylda ríkisstj. að leggja fram á Alþingi till. sínar um frestun framkvæmda eða lækkun fjárveitingar til framkvæmda samkv. fjárlögum eða lánsfjáráætlun, sé það nauðsynlegt, og við viljum ekki binda þessa lækkun útgjalda einungis við framkvæmdir, heldur miklu fremur leggja áherslu á að rekstrarkostnaður lækki.

Það er svo nauðsynlegt, þótt þessi brbl. kveði ekki á um gengisskráningu, að fjalla nokkuð um þann þátt mála, einnig í tilefni af ummælum hæstv. forsrh.

Festing gengis í 50–60% verðbólgu er auðvitað tómt mál, og fyrirsjáanlega bíður slík stefna skipbrot. Hæstv. ráðh. sagði að ríkisstj. hefði um áramót miðað skráningu íslensku krónunnar við dollar, en horfið frá því þegar dollarinn tók að hækka. (Gripið fram í.) Við áramótin? En vegna hvers var það þá ekki gert? Af hverju fylgdi íslenska krónan dollarnum nokkrar vikur, en ekki meðalgenginu? Ég held að það sé alveg ljóst, að ríkisstj. miðaði við dollar og fyrirskipaði Seðlabankanum að skrá íslensku krónuna samkvæmt dollaragenginu. Og það var sjálfstæð ákvörðun ríkisstj., gott ef það var ekki gefin út tilkynning af hálfu ríkisstj. og Seðlabanka um að horfið væri frá viðmiðun við dollar og til meðalgengis. Ég held að það sé frekar hæstv. forsrh. en ég sem þarf að hressa upp á minni sitt. (Gripið fram í: Þetta var í áramótaskaupinu.) En það liggur í augum uppi, að jafnvel það að hverfa frá viðmiðun við dollar, sá flótti sem í raun og veru felst í því að hverfa aftur að viðmiðun við meðalgengi, — sá flótti verður aðeins upphaf að þeirri þróun sem fyrirsjáanleg er síðar á árinu, að gengi íslenskrar krónu heldur áfram að falla meðan ríkisstj. hefur ekki hug og dug í sér til þess að gera ráðstafanir gegn verðbólguþróuninni. Það er ljóst mál, að ef verðbólga er hér á Íslandi milli 50 og 60%, en ekki meira en 10% í okkar viðskiptalöndum, þá mun mismunurinn ekki verða uppi borinn með öðrum hætti en hækkun útflutningsafurða okkar umfram hækkun innflutningsvara til landsins, eða aukinni framleiðni í landinu sjálfu, nema með því að láta gengið falla og hækka verðið á erlendum gjaldeyri. Ef það er ekki gert, að brúa bil verðbólgustigsins hér á landi og erlendis með þeim hætti, þá stöðvast hjól atvinnulífsins og atvinnuleysi heldur innreið sína.

Ég held að þetta séu svo augljós sannindi að það að telja sér trú um allt annað er mikil sjálfsblekking. En auðvitað er núverandi ríkisstj. meistari í sjálfsblekkingu, og þess vegna er engin von til þess, að hún sé fær um að ráða fram úr erfiðleikunum.

Það er ljóst, að fast gengi undir þessum kringumstæðum, í 50% verðbólgu, er falskt gengi, enda standa málin svo nú, að búið er að ákveða útborgunarverð fyrir sjávarafurðir, sem að vísu nægir ekki til að standa undir rekstrarkostnaði, en er samt sem áður 5–6% yfir því sem fæst fyrir afurðir okkar erlendis. Þarna er ætlunin, eins og segir í efnahagsáætlun ríkisstj., að útvega fé til þess að borga þennan mismun. Við höfum hvað eftir annað spurst fyrir um það, hvernig eigi að útvega þetta fjármagn, en ekkert svar fengið. Það hafa verið ýmsar hugmyndir í stjórnarliðinu um þetta, m. a. að taka svo og svo mikið af gengishagnaði Seðlabankans og blekkja sjálfa sig með því, að hækkun á verði dollarans þýði aukningu á eign Seðlabankans, sem er fjarri sanni. Eins og ég hef nefnt hér áður á sá maður ekkert meira, sem á 1000 dollara um áramótin 1979–80, sem þá voru jafngildi 400 þús ísl. kr., þótt hann eigi enn 1000 dollara um síðustu áramót, sem þá voru skráðir á 625 þús. ísl. kr.

Það er og sagt í efnahagsáætlun ríkisstj., að útvega skuli iðnaðinum fjármagn til þess að búa við falskt gengi. Með hvoru tveggja þessu er farið inn á styrkja- og uppbótakerfi, millifærsluleið sem skekkir allt okkar hagkerfi, dregur úr framleiðni og afköstum framleiðslu atvinnuveganna og er síst til þess fallið að vera leið til þess að vinna bug á verðbólgunni. Hér ber og að hafa í huga að það eru ýmsir aðrir atvinnuvegir sem bíða hnekki af fölsku gengi, t. d. ýmiss konar þjónustuatvinnuvegir eins og samgöngur, ferðamál, verslun og viðskipti, og falskt gengi mun vissulega auka spákaupmennsku fyrr en síðar.

Það er því alveg ljóst, að þegar saman fer í efnahagsráðstöfunum ríkisstj. að verðstöðvun gildir án þess að samkeppni sé örvuð, að gengið er sett fast og komið á föstu gengi og hávaxtastefnan er höfð í hávegum, þá hlýtur svo að fara, að ríkisstj. verði að gefa eftir í öllum þessum þáttum. Eða — ef hún heldur fast við stefnu sína — munu hjól atvinnulífsins stöðvast og atvinnuleysi halda innreið sína.

Það eru þess vegna alger öfugmæli þegar í forsendum efnahagsáætlunar ríkisstj. er sagt að ráðstafanirnar séu gerðar í fyrsta lagi til þess að tryggja atvinnu landsmanna, í öðru lagi til þess að vinna gegn verðbólgunni og í þriðja lagi til þess að tryggja kaupmátt launa.

Ég hef þegar fjallað um að stefna ríkisstj. mun ekki tryggja atvinnu í landinu heldur miklu frekar, ef fast verður við hana haldið, leiða til atvinnuleysis.

Hvað verðbólguþróun snertir er í forsendum efnahagsáætlunarinnar talað um að verðbólga eigi að nást niður í 40%, en allar spár Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila sýna fram á að verðbólgustigið verður milli 50 og 60% á þessu ári eftir þær efnahagsaðgerðir sem boðaðar hafa verið og nú eru m. a. til umræðu.

Það er athyglisvert að rifja upp hvaða samræmi hefur verið í fyrirheitum vinstri stjórna frá 1978 til þessa dags hvað snertir verðbólgu og hjöðnun hennar.

Þegar Ólafslög voru sett í apríl 1979 var gert ráð fyrir að þau hefðu þau áhrif að verðbólgan yrði ekki meiri en 35% á því ári, en verðbólgan varð 60%.

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum fyrir rúmu ári undirbjó hún fjárlög og fékk þau samþykkt á þeim grundvelli að verðbólgan yrði 31% á síðasta ári, frá upphafi til loka ársins. Hæstv. forsrh. hélt því fram í apríl að hún yrði ekki nema 40%, í ágúst að hún yrði undir 50%, en hún varð 60% frá byrjun árs til loka árs.

Nú er sem sagt ætlunin að koma verðbólgunni í 41%. Allar spár segja að verðbólguvöxturinn verði a. m. k. milli 50 og 60%. En ef sama samræmi verður milli fyrirheita og framkvæmda og áður hvað snertir löggjöf vinstri stjórna um efnahagsmál, þá er allt eins líklegt að verðbólgan verði töluvert yfir því marki. Rétt er að rifja upp í því sambandi að samkvæmt stjórnarsáttmálanum var markmiðið að verðbólgan væri 10–15% um næstu áramót. Þannig eru þessar efnahagsráðstafanir víðs fjarri að ná því markmiði.

Hvað kaupmáttinn snertir liggja fyrir skýrslur um það, að kaupmáttur hafi rýrnað um 4–5% á síðasta ári miðað við árið 1979, og á þessu ári mun ekki ósennilegt að kaupmáttarrýrnunin verði álíka mikil.

Það er svo athyglisvert, að stjórnarliðar eru ekki sammála um framhald málsins. Ráðherrar Framsfl. segja að ekki sé nóg að gert og frekari ráðstafanir verði að gera. Ráðherrar Alþb. segja hins vegar að það velti á Framsfl. og fulltrúum hans í ríkisstj., hvort árangur verði af þessum efnahagsaðgerðum eða ekki. Þeir hafa sagt það hér opinberlega, að það séu ráðherrar Framsfl. sem fari með verðlagsmál og það sé undir þeim komið hve fast og vel sé á þeim málum haldið, verðstöðvun og framkvæmd verðstöðvunar. Þeir hafa sagt að það séu ráðherrar Framsfl. sem fari með vaxtamálin og það sé undir Framsfl. komið hvort vextir lækki. Og þeir hafa sagt að það séu ráðherrar Framsfl. sem fari með sjávarútvegsmálin og því sé undir Framsfl. komið hvort sjávarútvegurinn verði rekinn með sæmilegum hætti.

Ég hygg að þessi orðaskipti milli framsóknarmanna og Alþb.- manna sýni hve óvænlega horfi að þessi ríkisstj. sé fær um að ráða við þann vanda sem við er að glíma, enda sýnir þróun mála allt frá því að hún var mynduð að í upphafi var ekkert samkomulag um ráðstafanir til úrlausnar þeim vandamálum sem þá voru fyrirsjáanleg og voru raunverulegt viðfangsefni stjórnarmyndunarinnar. Og því samkomulagi, sem í orði kveðnu tókst með harmkvælum síðasta dag ársins, er þann veg farið, að það nær ekki tilgangi sínum eins og honum hefur verið lýst. Við sjáum, ef best lætur, þriðja árið í röð með 60% verðbólgu.

Hér er ljóst að brjóta verður í blað, og brtt. okkar sjálfstæðismanna í Ed. við þessi brbl. sýna hvernig við viljum varða þann veg endurreisnar sem nauðsynlegt er að fara ef við eigum að vinna bug á verðbólgunni. Við gerðum þær brtt. við brbl., að dregið skyldi úr skattheimtunni. Það er ljóst að núv. ríkisstj. hefur aukið skattbyrði landsmanna um 40–45 milljarða gkr., þar af um 24 milljarða með fjárlagafrv., sem afgreitt var fyrir jól, og ýmsum þeim skattafrv. sem samþykkt hafa verið nýverið.

Við viljum þess vegna í fyrsta lagi breyta skattvísitölunni í samræmi við tekjuhækkun milli ára, því að þegar tekjur hækka á milli ára um 53% er það auðvitað stórkostleg skattaþynging að skattvísitalan skuli ákveðin 145. Við viljum í öðru lagi afnema sérstakt tímabundið vörugjald, eins og það var ákveðið hér síðast fyrir jólin, og lækka sérstakt vörugjald af innfluttum vörum og innlendri framleiðslu niður í 18%. Og í þriðja lagi viljum við fella niður 2% söluskattsauka.

Við teljum að með þessum hætti sé dregið úr heildarskattheimtu landsmanna og einstaklingum og atvinnufyrirtækjum veitt aukið svigrúm til að byggja sig upp og auka framleiðsluna og verðmætasköpunina í landinu, sem auðvitað er eina leiðin til þess að ná verðbólgunni niður.

Það er nauðsynlegt að leggja áherslu á almenna atvinnuuppbyggingu í landinu, standa að öflugri orku- og iðnaðarstefnu, en orkuframkvæmdir og iðnaðarframkvæmdir eru drepnar í dróma af núv. hæstv. ríkisstj. og einkum og sér í lagi núv. hæstv. iðn.- og orkumrh.

Við leggjum áherslu á að endurskoðun á ríkisútgjöldum og samdráttur í skattheimtu og ríkisumsvifum er alger forsenda fyrir því, að við náum okkur út úr þeim vítahring verðbólguhringiðunnar sem við erum lentir í. Við leggjum áherslu á að örvun samkeppni og frjáls verðmyndun er til þess fallin að skapa fyrirtækjum og atvinnustarfsemi grundvöll til þess að bæta þjónustu sína og auka framleiðni.

Við leggjum áherslu á að stefna að jafnvægisvöxtum, þ. e. að framboð og eftirspurn lánsfjármagns verði til þess að lækka fjármagnskostnað í landinu og létta af atvinnurekstrinum og húsbyggjendum í landinu þeim drápsklyfjum sem hávaxtastefna núv. ríkisstj. hefur á lagt.

Herra forseti. Ég skal nú láta staðar numið, en fulltrúar okkar sjálfstæðismanna í fjh.- og viðskn. munu fjalla nánar um málið í nefnd og þ. á m. taka til meðferðar þær till. sem fram komu í Ed. í gær varðandi tekjutryggingu og heimilisuppbætur og varðandi afnám sjúkratryggingagjalds á tekjur allt að 6.5 millj. gkr. Hið fyrra hef ég þegar rætt um, en hvað hið síðara snertir er í raun og veru alls ekki komið fram að það fullnægi því að auka kaupmátt launa um 1.5%, eins og yfirlýsing ríkisstj. bendir á. Í því sambandi viljum við sjálfstæðismenn benda á það, að væntanlega hefur afnám 1.5% sjúkratryggingagjalds ekki einu sinni svo mikil áhrif að vega upp á móti þeirri skattþyngingu sem felst í því, að skattvísitalan er lægri en tekjuhækkun á milli ára. Og augljóst er að fljótlega mun þetta valda skattaþyngingu á hærra kaup en 6.5 millj. kr.

Ég skal svo aðeins að lokum leggja áherslu á það, að ef við meinum eitthvað með því sem við segjum, að verðbólgan sé vágestur sem við verðum að vísa á bug, þá verður annað og meira að koma til en ráðstafanir eins og þær, sem þetta frv. hefur inni að halda, eða þær óljósu, almennt orðuðu yfirlýsingar sem gengið hafa fram af munni hæstv. ráðh.