04.11.1980
Sameinað þing: 13. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svar hans við fsp. minni. Auðvitað höfum við ekki báðir sama traust til ríkisstj. og raunar ekki við því að búast. Hins vegar erum við sammála um mjög þýðingarmikil atriði, eins og fram kom í svari hæstv. ráðh. Við erum sammála um að það sé mjög þýðingarmikið og raunar forsenda fyrir breytingu á verðgildi gjaldmiðilsins að sú breyting sé gerð í samhengi og sem liður í heildaraðgerðum. Við erum sammála um þetta.

Við erum líka sammála um annað. Ég gat ekki lesið annað út úr ræðu hæstv. ráðh. en að þessu skilyrði væri ekki fullnægt nú, það væri ekki fyrir hendi heilsteypt stefna til viðnáms í verðbólgumálunum og til að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum landsins. Um þetta virðist mér að við séum sammála. En hæstv. ráðh. segir: Þetta kemur, þessi stefna kemur og hún kemur um næstu áramót. — Og þá heldur hæstv. ráðh. að þá sé þessu máli borgið.

Ég segi hins vegar, að ég er ekki viss um að þessi stefna verði komin um næstu áramót. Ég er langt frá því að vera viss um það, svo ég segi ekki meira, og ef svo ólíklega vildi til að einhver stefna væri komin um áramót, sem væri hægt að taka til athugunar í þessu sambandi, væri það of seint, vegna þess að það, sem er höfuðatriði við breytingu á verðgildi gjaldmiðilsins, er að skapa það traust og þá tiltrú til þessara aðgerða að fólkið í landinu sé sér þess meðvitandi að nú sé verið að gera ráðstafanir sem um munar. Ég veit ekki til þess, að nokkurs staðar á byggðu bóli hafi verið ákveðin slík ráðstöfun sem hér er gert ráð fyrir með breytingu á verðgildi gjaldmiðilsins út í loftið svo að segja án tillits til ástandsins, en segja: Það breytist þegar löggjöfin tekur gildi.

Í fyrsta lagi er aðgerðum sem þessum ekki varpað fram nánast af einhverri tilviljun. Það er ekki vitað á síðustu áratugum um nema tvö lönd í Evrópu sem hafa gert þetta. Halda menn að þetta sé hægt að gera með ávísun um að síðar verði fullnægt þeim skilyrðum sem nauðsynlegt er að fullnægja til þess að það sé nokkurt vit í þessum ráðstöfunum og til þess að afstýra því, að þessar ráðstafanir hafi gagnstæð áhrif við það sem þeim er að sjálfsögðu ætlað? Í staðinn fyrir að auka traust almennings á gjaldmiðlinum verður þetta til þess að grafa enn frekar undan því trausti sem enn er til. Við vitum ekkert hverjar þessar ráðstafanir verða. En ég segi, að það er lágmarkskrafa sem Alþ. getur gert í jafnalvarlegu máli sem þessu, að það fái að vita og heyra, hverjar þessar ráðstafanir eru, áður en Alþ. fer í jólaleyfi. Þess vegna verður ekki vikist undan þeim óskum sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hefur borið fram í þessum umr.

Ég sagði áðan: Það er ekki alltaf grundvöllur fyrir því að gera breytingar á verðgildi gjaldmiðilsins. Ég leyfi mér að lokum, hæstv. forseti, að vitna í ummæli Seðlabanka Íslands frá 1972 varðandi afstöðu til gjaldmiðilsbreytingar sem þá var verið að ræða um. Seðlabankinn sagði í umsögn um þetta mál til Alþ. á þessa teið, með leyfi hæstv. forseta:

„Sannleikurinn er sá, að ókleift virðist vera að sjá fyrir sálræn áhrif gjaldmiðilsbreytingar. Ef almenningur er vantrúaður á framtíðarverðgildi peninganna og getu stjórnvalda til þess að halda verðbólgu í skefjum, gæti eins vel svo farið, að gjaldmiðilsbreytingin yrði til þess að auka á vantrú manna og tortryggni. Sé slík breyting hins vegar hluti af mjög róttækri stefnubreytingu, eins og átti sér stað í Frakklandi, þegar de Gaulle kom til valda, kann hún að vera mikilvægur liður í því að sannfæra menn um, að nýtt tímabil sé hafið. Slíkar aðstæður eru hins vegar óvenjulegar og varla við þær að miða hér á landi.“

Seðlabankinn mælti á móti þessari aðgerð 1972. Takið eftir: Þá var verðbólgan milli 15 og 20%. Núna er verðbólgan milli 50 og 60%. Hvaða vit haldið þið að sé í þessari ráðstöfun ef ekki er úr bætt, þar sem við höfum ekki frekar heildarstefnu í efnahagsmálum en að við höfum de Gaulle hér á meðal okkar?