03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2654 í B-deild Alþingistíðinda. (2793)

400. mál, lánskjör Fiskveiðasjóðs

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Lánveitingum Fiskveiðasjóðs vegna fiskiskipa má skipta í þrjá hluta: lán vegna nýsmíði innanlands, lán vegna skipakaupa erlendis og lán vegna tækjakaupa og endurbóta á fiskiskipum. Gilda mismunandi lánareglur í hverju tilviki, bæði hvað varðar lánstíma og hámarkslán. Hámarkslán vegna innlendrar nýsmíði hefur verið 75% allan síðasta áratug og hámarkslánstími 18 ár síðan 1975. Hámarkslán vegna skipakaupa erlendis hefur verið 50% síðan 1977, og á síðasta ári var sett í reglur sjóðsins að skip svipaðrar stærðar skuli þá selt úr landi. Lánstími er sá sami og í innanlandssmíði að frádregnu verði eldra skips, ef það er keypt notað.

Núgildandi aðalregla vegna tækjakaupa og endurbóta er 50% hámarkslán, en þó með vissum undantekningum. Lánstíminn er yfirleitt á bilinu 5–7 ár.

Lán Fiskveiðasjóðs s. l. áratugi hafa annaðhvort eða bæði verið gengistryggð og vísitölutryggð og þá með breytilegum vöxtum. Þetta lánakerfi er við það miðað, að sjóðurinn sé skaðlaus af áhrifum gengis- og verðlagsbreytinga. Með þetta í huga er hægt að lýsa þeim breytingum sem hafa orðið á lánskjörum Fiskveiðasjóðs síðustu árin með einföldu dæmi.

Þar sem mismunur á lánskjörum Fiskveiðasjóðs frá ári til árs kemur nægilega vel fram þótt erlendri fjármögnun sé sleppt mun ég taka dæmi bát minni en 75 brúttólestir sem er smíðaður innanlands. Þetta dæmi er tekið til að forðast þá óþörfu flækju sem verður þegar erlend fjármögnun kemur til, sem er eðlilega með þeim kjörum sem erlenda fjármögnunin fæst á. En ég vil þó geta þess, að Fiskveiðasjóður hefur sett það skilyrði fyrir lánveitingum úr sjóðnum vegna skipakaupa erlendis svo og vegna endurbóta erlendis, að slíkar framkvæmdir séu til að byrja með fjármagnaðar með erlendu langtímaláni, 7–8 ára láni í kauptilviki og 5–7 ára láni í endurbótatilviki. Sjóðurinn veitir bakábyrgð á erlenda láninu, en bein fjármögnun Fiskveiðasjóðs vegna slíkra kaupa eða endurbóta felst aðeins í lengingu lánsins þegar það á við, og á sú fjármögnun sér stað með gildandi lánskjörum á hverjum tíma.

Frá 1979 hefur þessi fyrirgreiðsla einnig verið látin ná til lánveitinga vegna nýsmíði stærri skipa innanlands og vegna meiri háttar endurbóta innanlands. En breytingar á lánskjörum Fiskveiðasjóðs síðustu ár koma best fram með því að taka dæmi, eins og ég sagði áðan, innlenda smíði báts minni en 75 brúttólestir. Ef hann er stærri koma til bein lán í þýskum mörkum vegna véla- og tækjakaupa.

1) Árið 1977 lánaði Fiskveiðasjóður 75% kaupverðsins. 10% þess var byggingarvísitölutryggt lán með 5.5% vöxtum. 67.5% kaupverðsins var lán með gengisákvæðum og voru vextir þess 8% á árinu 1977.

2) Árið 1978 er veitt út á sams konar bát lán, og þá eru 27% af lofaðri fjárhæð vísitölulán með 5.5% vöxtum, þ. e. þá voru tæp 55% kaupverðsins lán með gengisákvæðum og voru vextir þess 11%. (Gripið fram í: 55%). Já, 55% kaupverðsins voru lán með gengisákvæðum og voru vextir þess 11%.

3) Á árinu 1979 verður hins vegar veruleg kerfisbreyting samhliða því sem hlutfall vísitölulána eykst enn einu sinni. Hámarkslánið er sem áður 75% og þar af 42% í vísitölulánum með 55% vöxtum. Kerfisbreytingin kemur hins vegar fram í gengistryggðu lánunum. Þá er hætt að veita lán með gengisákvæðum, en þess í stað tekin upp lán í reikningseiningum Fiskveiðasjóðs, sem eru í raun SDR-mynt, þ. e. vegið meðaltal 16 helstu viðskiptamynta heims. Þessi reikningseiningalán eru sem önnur lán með breytilegum vöxtum og voru þeir 9% á árinu 1979.

4) Í tengslum við fiskverðsákvörðun í ársbyrjum 1980 verður enn ein breyting. Þá eru vísitölulánin felld niður og allt 75% lánið verður SDR-lán með breytilegum vöxtum, sem eru nú 11%. Þar sem meiri gengistrygging er fólgin í SDR-lánum en hinum eldri svo og að vísitölutryggðu lánin hafa reynst erfiðari en önnur lán, þá er ljóst að árið 1978 og sérstaklega árið 1979 eru lántakendum erfið. Því samþykkti stjórn Fiskveiðasjóðs að kanna skyldi hvort ekki væri hægt að létta lánabyrðina, en ákvörðun hefur ekki verið tekin þar að lútandi. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að ég hef rætt þetta mál við formann stjórnar Fiskveiðasjóðs sem hefur tjáð mér að hann muni ganga eftir því, að þær upplýsingar, sem á verður að byggja, liggi fljótlega fyrir þannig að ákvörðun megi taka.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, að Fiskveiðasjóður hefur ekki annað fé til útlána en það sem hann fær sjálfur að láni. Það fé, sem sjóðurinn fær þannig til ráðstöfunar, er honum skylt samkv. lögum að endurlána með sambærilegum kjörum og hann sætir sjálfur. Í raun endurspegla lánskjör fiskveiðasjóðs því aðeins lánskjör á almennum lánsfjármarkaði bæði hérlendis og erlendis og er varla nokkuð óeðlilegt við það. Það liggur því í augum uppi, að kjör Fiskveiðasjóðs eru breytileg frá ári til árs og því misjafnlega hagstæð. Ég hef einnig látið gera töflu sem gerir samanburð á smíði innanlands með kjörum Fiskveiðasjóðs á árunum 1977–1980, sem reyndar má segja að sé samantekin í því sem ég las áðan.

Eftir 1977 á slíkur samanburður við alla báta og skip sem smíðuð eru innanlands en árið 1977 við. 75 brúttólesta báta eða minni. Ég skal aðeins hlaupa yfir töfluna til skýringa.

Árið 1977 eru engin SDR-lán. Þá eru 90% af láninu með gengisákvæði, en vísitölubundið er 10% af því sem lánað er. Þá eru vextir á gengistryggðu lánunum 8% og af vísitölulánunum 5.5%. 1978 eru 73% af láninu með gengisákvæði, en 27% vísitölubundið, og gengishlutinn er með 11% vöxtum, á vísitölubundna hlutanum 5.5% 1979 hins vegar eru 58% lánsins SDR-lán, en 42% vísitölubundin. Vissulega er SDR-lánið gengistryggt eins og áður var, en eins og ég las áðan nokkuð önnur gengisviðmiðun. Þá eru vextir af SDR-láninu 9% og af vísitöluláninu 5.5%. En árið 1980 er allt lánið með SDR-viðmiðun og vextir af því láni 11%.

Vona ég að þetta skýri þá breytingu sem þarna hefur á orðið. Ég þarf ekki að taka það fram að af kaupverði bátsins eru veitt 75%, og því má að sjálfsögðu breyta þeim tölum sem ég las upp áðan til hlutfalls af kaupverði bátsins.