03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2673 í B-deild Alþingistíðinda. (2815)

383. mál, símamál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs þó að ég viti að enginn hv. þm. taki hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson alvarlega eða orð hans gild. En ég tel mjög ómaklegt að veitast svo að hv. þm. Friðrik Sophussyni. Ég minni á að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson á fyrst og fremst aðgang að þeim þm. í fjvn. sem hann með atkvæði sínu hefur stutt til setu í fjvn. Og ég skil ekkert í framkomu hv. þm. Alþb. í fjvn. að láta ekki þm. Reykv., Ólaf Ragnar Grímsson, fylgjast með svona mikilvægu hagsmunamáli Reykvíkinga. Hann ætti heldur að finna orðum sínum og ásökunum stað heldur en að veitast að hv. þm. Friðrik Sophussyni, sem nú er kominn í salinn og er maður til að bera hönd fyrir höfuð sér, sem raunar er ekki ástæða til að þessu gefna tilefni.

En ég vil aðeins að lokum, vegna þess að umr. hefur verið drepið á dreif, ítreka það, að nauðsynlegt sé að taka þetta mál til meðferðar á efnislegum grundvelli og kanna það ofan í kjölinn. Því hef ég beint þeim tilmælum til nefnda þingsins, sem aðstöðu hafa til að fjalla um þetta mál, að fylgjast með því, um leið og ég beini þeim tilmælum til hæstv. ráðh., að hann láti okkur þm. Reykv. sérstaklega fylgjast með gangi mála áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar. Mun ég fylgja þeim tilmælum eftir við hæstv. ráðh.