03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (2816)

383. mál, símamál

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég var búinn að tala mig dauðan í þessu máli og bjóst ekki við að þurfa að koma hér aftur í ræðustól, en mér er sagt að hv. þm. Seltirninga, Ólafur Ragnar Grímsson, hafi kvatt sér hljóðs og rætt dálítið um málefni Reykvíkinga. Ég fagna því, að hann er kominn í hóp þeirra manna sem hafa áhuga á velferð okkar Reykvíkinga. Hann vék, að mér skildist, að setu minni í fjvn. og ég vil taka í því sambandi eftirfarandi fram. (ÓRG: Það var að gefnu tilefni.) Ég ætla bara að rekja söguna þannig að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson átti sig á því, hvernig þetta mál varð til, og afskipti fjvn.

8. febr. 1979 hittust Póst- og símamálastjóri og þáv. hæstv. samgrh., sem er flokksbróðir Ólafs Ragnars Grímssonar og heitir Ragnar Arnalds, og ákváðu að taka tilboði um að kaupa tæki til þess að mæla innanbæjarsamtöl í Reykjavík. Það er ekki fyrr en ári síðar, það er ekki fyrr en 1980, ári síðar og rúmlega það, sem fjvn. fær einhverja vitneskju um þetta mál, í því formi að það kemur fjárhagsáætlun fyrir árið 1980. Eins og hv. þm. veit jafnvel og ég fóru fram kosningar á landinu haustið 1979 sem frestuðu afgreiðslu fjárlaga, þannig að fjárhagsáætlun Pósts og síma var til umræðu á vordögum 1980. Þá fyrst komu til afskipti fjvn. og þau voru m. a. í þeim dúr, að fjvn. féllst ekki á beiðni ráðh., sem þá var orðinn fjmrh., að fella niður aðflutningsgjöld af þessum dýru tækjum til þess að mæla skref á Reykvíkinga.

18. maí þetta vor, 1980, kom bréf frá póst- og símamálastjórninni þar sem hún sagðist mundu fresta þessari skrefatalningu um eitt ár og fresta kaupum á þessu tæki til næsta árs. Þá gerði ég aths. í fjvn. og sagði að ég gæti ekki staðið að kaupum á slíkum tækjum. Þetta eru mín afskipti í nefndinni og þau eru, held ég, alveg skýr.

Það kemur náttúrlega engum við þótt Ólafur Ragnar Grímsson belgi sig hér út í ræðustól og tali um þetta mál af engu viti og beri hér sakir á menn. Það kemur í ljós, að hagsmuna Reykjavíkur hefur verið gætt eins og hægt var í fjvn. Annars staðar var ekki hægt að gera það, því að hér er um að ræða stjórnvaldsákvörðun, ákvörðun sem ráðh. hefur í sinni hendi að taka. Og það var Ragnar Arnalds, flokksbróðir Ólafs Ragnars, sem tók þessa ákvörðun. Og það er fyrir harðfylgi Reykjavíkurþm. sem það hefur komið á daginn, að hægt er að jafna símtöl um allt land á sama tíma, þ. e. að mæla skrefin á innanbæjarsímtölum ekki aðeins í Reykjavík, heldur alls staðar annars staðar í innanbæjarkerfum.