04.03.1981
Efri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2678 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

224. mál, heimild fyrir ríkisstjórnina að veita sjálfskuldarábyrgð til kaupa á skuttogurum

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa mjög mörg orð í framsögu fyrir þessu frv. Frv. er um afnám laga nr. 28 frá 12. maí 1972, um heimild fyrir ríkisstj. að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á skuttogurum.

Eins og deildinni er kunnugt er almenna reglan sú, að ríkisábyrgðir af þessu tagi eru veittar með sérstökum samþykktum Alþingis. En á árinu 1972 þótti rétt að greiða fyrir kaupum á skuttogurum erlendis frá og örva til slíkra kaupa. Þess vegna voru sett sérstök lög um heimild fyrir ríkisstj. til að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á skuttogurum. Samkvæmt þeim lögum er ríkisstj. heimilt gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar, að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á skuttogurum allt að 80% af kaupverði slíkra skipa.

Nú eru aðstæður gerbreyttar frá því að lögin um sérstaka heimild fyrir ríkisstj. til ríkisábyrgðar voru sett. Tilgangur þeirra þá var að örva togarakaup, en nú er, eins og deildinni er kunnugt, frekast ástæða til þess að hafa hemil á stærð skipastólsins. Þess vegna þykir nú rétt að afnema þessi lög, þannig að í þeim tilvikum, þar sem nú þætti koma til greina að veita ríkisábyrgð vegna togarakaupa, kæmi það til afgreiðslu Alþingis.

Ég held að það hafi stundum borið á góma á undanförnum árum, að ástæðulaust væri að vera með slíka fría ábyrgðarheimild í höndum ríkisstj. en það hefur greinilega ekki orðið af því að breyta því.

Kannske á ríkisstj. sjálf erfitt með að fara fram á það, að af henni séu teknar heimildir af þessu tagi, og því eðlilegast að frv. um þetta efni komi fram frá þm. í deildinni. Ég hef þess vegna ásamt Eiði Guðnasyni og Karli Steinar Guðnasyni flutt frv. um þetta efni. Hér er sem sagt um það að ræða að með afnámi þessara laga fari það fyrir Alþingi hverju sinni ef menn vilja veita ábyrgðarheimildir af þessu tagi, og verður það að teljast eðlilegur framgangsmáli, enda líka þá fyrir því séð að ríkisstj. falli ekki í freistni að óþörfu eins og dæmin sanna.