05.03.1981
Sameinað þing: 57. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2720 í B-deild Alþingistíðinda. (2854)

100. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Þeir. hv. stjórnarþm. sem hér hafa tekið til máls, hafa verið heldur daprir í bragði, að mér hefur fundist, og þótt syrta í álinn fyrir landbúnaði og er ekki að furða. Ég held að þeir hafi alveg rétt fyrir sér í því, að vandamál landbúnaðarins séu nú meiri en oftast áður á seinni tímum og að úrræði séu engin haldgóð enn þá a. m. k. sem gripið hefur verið til. Mig furðar raunar ekkert á því, að hv. þm. Stefán Valgeirsson skuli hafa sagt hér áðan orðrétt, að hann vonaðist til að sú stefna, sem væri verið að reyna að marka milli þriggja aðila ríkisstj., mundi að einhverju leyti bera þess merki, að stjórnarflokkarnir hafi til að bera kjark til einhvers konar úrbóta. Og hv. þm., sem síðast talaði, sagði að ekki hefðu menn komið auga á annað en kvótakerfi, fóðurbætisskatt og annað slíkt sem tilraun til úrbóta í hinum gífurlegu vandamálum sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir, sem eru e. t. v. meiri en oftast áður og ég vil segja: ekki vegna stjórnleysis, heldur ofstjórnar. Er það þó raunar kannske eitt og hið sama, því að óstjórn leiðir oftast af ofstjórninni í mannlegu lífi eins og atkunna er, og mætti kannske tala um tvíburasysturnar ofstjórn og óstjórn. Það er náskylt í stjórnarfari ríkjanna. Því meir ofstjórn, því meiri óstjórn, því meiri upplausn og því meiri vandræði í þjóðfélögum.

En svo vill nú til, að það hafa komið fram hugmyndir, sem þm. hljóta að hafa heyrt, um aðrar aðgerðir í landbúnaðarmálum heldur en þær sem nú kveður mest að, þ. e. kvótakerfi. Og þar er um tvennt að ræða sem kannske er mikilvægast í landbúnaðarmálum í dag. Annars vegar er það, að bændur fái sína fjármuni í hendur, en þeim sé ekki haldið fyrir þeim í óðaverðbólgu sem er nú 50% og stefnir kannske mun hærra og áreiðanlega miklu hærra ef þessi langversta ríkisstj., sem setið hefur á Íslandi frá því að lýðveldið var stofnað, heldur lengi áfram enn þá. Hitt er að reyna að stjórna þessari offramleiðslu eða hafa áhrif á hana með allt öðrum hætti en kvótakerfi, þ. e. að beina fjármunum bænda til þeirra sjálfra og að afurðaverð, þegar þeir leggja inn sínar afurðir, verðir að einhverju leyti lægra sem nemur því sem þeir þegar hafa fengið greitt. Þetta hefur verið skýrt margsinnis hér í þingi og m, a. í bréfi frá Stéttarsambandi bænda, dags. 6. mars 1979, sem stílað er til mín. Þar eru mörg dæmi nefnd um þetta. Mikil vinna var í þetta lögð af hálfu Stéttarsambandsins og sérstaklega Árna Jónassonar, og þetta vita bændur auðvitað. En það hefur verið einhver dulinn máttur sem bannar þeim að ganga á eftir eigin fjármunum. Við vitum svo sem allir hvaða máttur það er. Það er ekki bara máttur vanans, það eru líka önnur máttarvöld sem halda fyrir þeim fjármununum þannig að bændur fá ekki sína peninga í hendur. Halda menn ekki að öðruvísi væri umhorfs í landbúnaði ef bændur hefðu fengið sitt fé alltaf á réttum gjalddögum og getað notað það í stað þess að láta það étast upp í óðaverðbólgu í höndum manna sem enga heimild hafa til að fara með þetta fé? Og þegar afurðalánavextir t. d. eru nú, að mér skilst, 28% og aðrir vextir eru 50%, ætli það sé þá ekki þægilegt að geta haft þetta fé undir höndum og valsað með það og heimtað svo hæstu vexti af bændum ef þeir eru taldir skulda? Og þegar um er að ræða milljónatugi, peninga sem engir vextir eru af, þar sem er uppbótafé og niðurgreiðslur, þá er líka þægilegt að geta haft það undir höndum svolítinn tíma, hvað þá þegar það er kannske mánuðum saman eða misserum.

En ástæðan til þess að ég kveð mér hér hljóðs, er fyrst og fremst sú, að hinn 25. nóv. s. l. urðu umr. hér í Alþingi um þessi mikilvægustu hagsmunamál íslensks landbúnaðar. Á því er enginn vafi, að það eru mikilvægustu hagsmunamálin. Og þá lá frammi fsp. annars vegar til hæstv. landbrh., sem hér er mættur, og hins vegar hæstv. viðskrh., sem hér mætti líka a. m. k. í byrjun fundarins, og ég vil óska þess við hæstv. forseta, að hann biðji hæstv. viðskrh. að vera viðstaddan þessa umr. Mér finnst ekki of mikið að þeir þrír hæstv. ráðh., sem af einhverjum sökum komust ekki til Kaupmannahafnar og eru þess vegna hér á landi þessa viku, — það er ekki til of mikils mælst að þeir sitji þá stuttu þingfundi sem hér eru. Og ef svo skyldi nú vera, að einhver ráðh. í ríkisstj. færi með málefni fjmrh., sem ég hygg að hljóti að vera, að ráðh. Alþb. hafi beðið einhvern þessara þriggja, sem heima sitja, að gegna sínum málaflokkum, þá vildi ég líka óska þess við hæstv. forseta, að sá, sem gegnir störfum hæstv. fjmrh., mæti hér nú, ef það er ekki hæstv. landbrh. sem það gerir. Ég ætla þá að doka við augnablik meðan ég fæ upplýsingar um þetta. (Forseti: Hæstv. viðskrh. mun vera farinn úr húsinu og mér er ekki kunnugt um hver gegnir störfum fjmrh. nú í fjarveru fjmrh.) Mér skilst, að hæstv. landbrh. gegni störfum hæstv. forsrh., hann getur þá vafalaust upplýst hver fari með fjármálin. (Gripið fram í.) Þetta held ég að hljóti að vera einsdæmi, að ráðherrar hlaupi af landi burt í heila viku og enginn fari með málefni sem undir þá heyra. Ég botna ekki í þessu satt að segja. En þetta er svo sem í stíl við annað hjá þessari endemis hæstv. ríkisstj., ef það er enginn sem fer með málaflokkana þó að þeir séu í burtu í viku eða kannske hálfan mánuð eða lengur — ég veit ekki hvað lengi það er. En nú skilst mér að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., muni vera í húsinu og mig langar að biðja hv. þm. ef hann kynni að geta upplýst okkur um þetta. (Gripið fram í: Kannske hann sé forsrh.) Kannske hann gegni þessum ráðherraembættum öllum saman. En á meðan þessu fer fram ætla ég að leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh. sem lýsti því yfir hér í umr. 25. nóv., að hann mundi fúslega vilja láta athuga með hvaða hætti yrði unnt að koma fjármunum bænda beint til þeirra. Við ræddum þá sérstaklega um ályktun Búnaðarþings 1979, þar sem segir — með leyfi hæstv. forseta — um þessar tillögur, um beinar greiðslur útflutningsbóta og niðurgreiðslna til bænda:

„Búnaðarþing telur að enn liggi ekki fyrir nægar upplýsingar til þess að unnt sé að taka efnislega aðstöðu til þeirra hugmynda sem í till. fetast, en óskar eftir því við stjórn Stéttarsambands bænda, að hún láti fara fram frekari könnun á málinu.“

Þetta er á Búnaðarþingi fyrir tveim árum, og ég held að ég muni það rétt, að hæstv. landbrh. hafi tekið því ljúfmannlega að halda þessari könnun áfram og veita sina tilstuðlan til þess. Nú er liðið eitthvað á fjórða mánuð síðan þær umr. fóru fram, og ég efast ekki um að eitthvað hafi þessum könnunum miðað áfram. En það er mjög mikilvægt að fá úr því skorið, vegna þess að mjög auðvelt væri að losna algerlega við kvótakerfið ef þessar tillögur væru framkvæmdar, t. d. með þeim hætti að hluti af niðurgreiðslufé og útflutningsbótafé yrði notaður til að senda bændum heim mánaðarlega greiðslur, — við skulum segja að eingöngu þeir, sem eru með meðalbú og þaðan af minni, fengju þessar greiðslur, en síðan yrði stöðvað t. d. við 400 eða 500 ærgildi. Við getum hugsað okkur að taka fyrsta dæmið í þessum hugmyndum og hugleiðingum Árna Jónassonar og Stéttarsambandsins sem ég vitnaði til áðan, þar sem talað er um að greiða 25% af grundvallarverðinu beint til bænda. Síðan yrði innleggsverð eingöngu 75% af grundvallarverðinu vegna þess að menn hefðu þegar fengið 25% greidd. Þetta er ósköp einfalt í framkvæmd. Það þarf ekkert kvótakerfi. Og ef einhverjir geta framleitt fyrir þessi 75%, framleitt meira en 400% ærgildi, framleitt 450, 500 eða hvað menn vilja miða við, fái þeir aðeins greitt upp að þeirri upphæð. En ef þeir geta síðan framleitt fyrir 75% er öllum það heimilt, þar þarf ekkert eftirlit. Það þarf ekki að segja mönnum að þeir megi eiga þennan gripinn, en ekki hinn. Það þarf ekki að vera inni í högum hvers einasta manns, og það þarf ekki að hafa það lénsskipulag í landbúnaði sem nú er verið að koma á. Menn geta verið frjálsir verka sinna.

Ef þessi upphæð, þessi mismunur, 25%, nægði ekki til þess, að svo drægi úr framleiðslunni að hún yrði rúmlega fyrir innanlandsmarkað, þá mætti hækka þessa beinu greiðslu til bændanna um 5%. Ef þetta verkaði of mikið til að draga úr framleiðslu á stærstu búunum mætti lækka hana niður í 20% o. s. frv. Allt er þetta ofureinfalt í sniðum gagnstætt því ömurlega kerfi sem nú er verið að hrúga upp, enda sagði hæstv. landbrh. réttilega að framkvæmdin væri ærið flókin og þetta væru flækjur í framkvæmd. Ég öfunda hann satt að segja ekkert af því að bera ábyrgð á framkvæmd þessa kerfis, enda er mér næst að halda að honum sé þetta kerfi að ýmsu leyti ógeðfellt. Ég vona að svo sé um fleiri ráðamenn og þeir beiti áhrifum sínum til þess, að ekki verði allt of langt siglt út á þennan ógæfusjó, út í þetta brimrót sem gæti vissulega valdið landbúnaðinum þeim búsifjum sem hér heyrðist t. d. á hv. þm. Stefáni Valgeirssyni að hann sæi á næsta leiti. Og það er engin furða þó að þeir, sem telja sig sérstaka málsvara landbúnaðarins, beri nú ugg í brjósti, því að ég hygg, eins og ég sagði áðan, að sjaldan eða aldrei á seinni áratugum hafi vandamál landbúnaðarins verið eins gífurleg og það einmitt vegna þess að bændur fá ekki náð rétti sínum, fá ekki fjármuni sína í hendur og þeim er ekki heimilað að strjúka um frjálst höfuð, heldur er verið að hrúga upp þessu kerfi sem hæstv. ráðh. sagði að væri flókið í framkvæmd og flækjur o. s. frv.

En nú langar mig að spyrja hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, formann þingflokks Alþb., hvort hann geti upplýst það, hver muni fara með ráðherraembætti Alþb. nú í fjarveru þeirra úti í kóngsins Kaupmannahöfn, hvort enginn fari með þau eða hvort hann viti til þess, að einhver hinna ráðh. fari með þessi embætti eins og venja er til þegar ráðh. eru fjarverandi. — Hann svarar ekki. Þá mun það vera rétt sem hæstv. landbrh. sagði hér áðan, að Alþb. á engan mann í stjórn, og ég vona að það verði aldrei aftur maður úr Alþb. í stjórn á Íslandi.

Þar sem hæstv. viðskrh. lætur nú ekki svo lítið að vera hér mættur þó að hann sé einn þeirra þriggja sem urðu strandaglópar, þá verð ég víst að láta hér staðar numið og fæ ekki svar við þeim fsp. sem ég ætlaði að beina til hans. Nú mundi kannske hæstv. forseti koma þeim á framfæri, en þær eru um það, hvað hafi gerst síðan ráðh. upplýsti 25. nóv. að hann mundi halda áfram athugun á því, með hvaða hætti hann gæti framfylgt vilja Alþingis í skýlausri ályktun Alþingis frá 22. maí 1979. Það er nú að verða tvö ár síðan. Ályktunin hljóðar þannig með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að settar verði reglur um rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins sem tryggi að bændur fái í hendur þá fjármuni, sem þeim eru ætlaðir, um leið og lánin eru veitt.“

Þetta eru skýlaus fyrirmæli til viðskrh. um að sjá til þess, að bændur fái fjármunina í hendur. Hinn 25. nóv. hafði því ekki verið komið í kring, en ráðh. lofaði þá að gangast fyrir því, að svo mundi verða á næstunni. Síðan er liðið nokkuð á fjórða mánuð, og ég leyfi mér að óska þess við hæstv. forseta, að hann komi þessari fsp. á framfæri við hæstv. viðskrh. Hefur hann eitthvað gert í málinu? Er hugmyndin að framfylgja vilja Alþingis? Fá bændur sína peninga í hendur eða fá þeir þá ekki? Ef ég ekki fæ svar við þessu, í næstu viku t. d., frá ráðh. persónulega skulum við segja, þá mun ég óska eftir því að fá að ræða málið utan dagskrár.