09.03.1981
Efri deild: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2752 í B-deild Alþingistíðinda. (2869)

229. mál, greiðslutryggingarsjóður fiskafla

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Þetta frv. vekur athygli á vandamáli sem vissulega er fyrir hendi, en upp vakna nokkrar efasemdir um að stofnfé þessa sjóðs, sem gert er ráð fyrir, komi til með að duga.

Sá afli, sem er landað utan heimahafna, er fyrst og fremst loðna og síld, og það er rétt, að fiskkaupendur hafa oft komist upp með að skulda æðilengi. En mér sýnist að ýmsir hnökrar verði á að stjórna sjóðum sem þessum og ná saman stjórn eins og gert er ráð fyrir að taka þurfi ákvarðanir sem til þarf.

Aftur hlýtur að vakna sú spurning, hvort hér sé orðin ástæða til að gera kerfisbreytingu á svipaðan hátt og Norðmenn hafa gert. Þeir hafa stofnað hjá sér svokallað Ráfisklag og Sildesalgslag og þar eru skrifstofur sem starfa vítt um ströndina og ábyrgjast fiskimönnum staðgreiðslu á afla. Þar verða líka fiskkaupendur í byrjun vertíðar að leggja fram ábyrgðir og fá viðurkenningu þessara skrifstofa áður en vertíð hefst. Það má vel vera að sú staða sé komin upp hér á Íslandi að ástæða sé til að taka upp eitthvað slíkt kerfi.

Flm. gera ráð fyrir því, að þetta muni stöðva siglingar báta og skipa á erlendar hafnir. Ég held að þarna gleymi menn alveg hinum mannlega þætti þessa fyrirbæris, sem er fyrst og fremst það, að útgerðin sér sér hag í að kaupa inn ódýrari vörur til útgerðarinnar, veiðarfæri og annað. Olía er yfirleitt ódýrari í erlendum höfnum. Stærri hluti kemur af aflanum í Stofnfjársjóð þegar siglt er á erlenda höfn. Og svo skulum við ekki gleyma því, að þeir geta, karlarnir, keypt konfekt handa konunni og eitthvað smálegt handa blessuðum börnunum og síðan labbað inn á ölstofu og fengið sér einn bjór. Það er sitthvað sem hefur áhrif í þessum efnum.

Vissulega vil ég taka undir að hér sé vakin athygli á ákveðnu vandamáli, en ég efast um að þetta frv. leysi það. En það má vel vera að kominn sé tími til að gera hér á kerfisbreytingar.