09.03.1981
Neðri deild: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2762 í B-deild Alþingistíðinda. (2879)

11. mál, fiskvinnsluskóli

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hv. sjútvn. fyrir afgreiðsluna á þessu máli. Eins og fram kom í máli frsm. áðan var þessu máli, um Fisvinnsluskólann, sem út af fyrir sig heyrir undir menntmrn. og ætti að öllu eðlilegu eftir okkar venjum að vísa til menntmn., vísað til sjútvn. Voru sérstakar ástæður fyrir því, að sú leið var valin að vísa málinu til sjútvn. Það var eins konar samkomulagsatriði, að þau mál, sem saman hanga, eins og hv. frsm. nefndi hér áðan, þetta og það mál sem er næst á dagskrá í dag, væru tekin fyrir í sömu þingnefnd. Finnst mér ósköp eðlilegt eins og á stendur að þessu máli væri vísað til sjútvn., úr því að samkomulag var um það, og ekkert við það að athuga. Ég vil þakka nefndinni fyrir það, hvernig hún hefur staðið að þessu máli.

Hv. frsm. gerði grein fyrir þeim brtt. sem koma frá sjútvn. Brtt. eru af því tagi að ég sé enga ástæðu til að hafa neitt á móti þeim, það er engu verulegu hnikað til í sambandi við efni frv. nema þá hvað varðar skipan skólanefndar. Ég tel till. nefndarinnar vera af því tagi að engin ástæða sé til að fetta fingur út í þær og mun ekki gera það, heldur vænti þess, að þetta mál nái fram að ganga í því horfi sem sjútvn. leggur til.