10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2782 í B-deild Alþingistíðinda. (2896)

382. mál, norsku- og sænskukennsla í grunnskólum

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að svara þessari fsp., sem er í nokkrum liðum, á þessa leið:

Í lögum um grunnskóla, nr. 63 1974, þ. e. í 44. gr. þeirra laga, segir m. a. að kenna skuli erlend tungumál og séu forsendur fyrir vali þeirra annars vegar að varðveita tengslin við uppruna þjóðarinnar og norræna menningu og hins vegar að opna Íslendingum leið til samskipta við sem flestar þjóðir. Í þessari grein er því ekki tekin afstaða til þess, hvert Norðurlandamálanna skuli kenna í grunnskólum. En eins og flestum er kunnugt er danska eina Norðurlandamálið sem kennt er á þessu skólastigi. Norska og sænska eru ekki kenndar í neinum grunnskóla, það ég veit til. Að þessu leyti til er hér fengið beint svar við einum lið fsp. hv. þm.

Nokkuð hefur verið um það að nemendur, sem dvalið hafa um lengri eða skemmri tíma í Noregi eða Svíþjóð og náð nokkru valdi á hlutaðeigandi tungumáli, hafi sótt um að fá að taka próf í þessum málum í stað dönsku. Er ekki annað vitað en að skólar, sem í hlut eiga, hafi í öllum tilfellum orðið við slíkri beiðni. Hins vegar hafa skólarnir ekki haft aðstöðu til að halda uppi kennslu fyrir þessa nemendur. Eru ástæðurnar einkum þær, að nemendur, sem óska að nema annað Norðurlandamál en dönsku, eru mjög fáir í hverjum skóla og enn fremur er lítið um að kennarar sérhæfi sig til kennslu í norsku og sænsku.

Hins vegar er nauðsynlegt að geta þess, að þar sem námsflokkar eru starfandi, og það er á allmörgum stöðum á landinu, mun yfirleitt haldið uppi kennslu í norsku og sænsku, og hafa umræddir nemendur stundað nám þar hafi þeir getað komið því við.

Á yfirstandandi skólaári stunda samtals 58 nemendur á skólaskyldualdri, þ. e. grunnskólanemendur, nám í norsku og 94 nemendur nám í sænsku við Námsflokka Reykjavíkur. Kennslan er skipulögð þannig, að hún fer fram utan reglulegs skólatíma nemenda og er þannig aukaálag á nemandann, má segja. Áætlað er að alls stundi u. þ. b. 65 nemendur á skólaskyldualdri nám í norsku og u. þ. b. 100 nemendur á skólaskyldualdri nám í sænsku.

Nú í febrúar voru haldin svokölluð samræmd próf í 9. bekk grunnskóla, og samkvæmt upplýsingum frá prófanefnd tóku 20 nemendur, þar af 12 í Reykjavík, samræmd próf í norsku, og 21 nemandi í landinu öllu, þar af 17 í Reykjavík, samræmd próf í sænsku.

Spurningunni um kennslubækur, sem er auðvitað nokkuð mikilvæg spurning í þessu sambandi, vil ég svara með því að segja að kennslubækur í norsku og sænsku verður að fá erlendis frá, og kennarar við Námsflokka Reykjavíkur hafa yfirleitt útvegað þessar bækur. Hins vegar hefur menntmrn. veitt nokkra styrki til þessara bókakaupa, og rætt hefur verið um það, og það má segja reyndar að það sé stefna mín, að Ríkisútgáfa námsbóka styrki þessi bókakaup. En m. a. vegna þess, hve fjárhagur Ríkisútgáfunnar eða Námsgagnastofnunar er slæmur og hefur verið slæmur, þá hefur ekki verið unnt að framkvæma þessa stefnu. Hins vegar hefur rn. greitt hálf laun kennara í norsku og hálf laun kennara í sænsku við Námsflokka Reykjavíkur.

Þetta er til upplýsingar um það sem spurt er um bækurnar og hvernig reynt er að framkvæma það efni. En af þessu svari er náttúrlega ljóst, að það stendur upp á okkur að hafa sérstaklega samdar bækur fyrir íslenska nemendur. Eigi að síður held ég að þær bækur, sem við er stuðst og fengnar hafa verið erlendis frá, hafi gefið tiltölulega góða raun.

En þá kem ég að 4. lið fsp., og ég verð að viðurkenna að honum er á ýmsan hátt vandsvarað. Ég get alls ekki sagt að það sé neitt metnaðarmál hjá mér né hafi verið hjá öðrum menntamálaráðherrum að danska hafi jafnmikinn forgang fram yfir önnur Norðurlandamál og raun ber vitni í skólum landsins. Ég vil taka það fram, að ég tel að stefna beri að því að kenna sænsku og norsku á grunnskólastigi eftir því sem mögulegt er. En jafnframt vil ég hafa á þann fyrirvara, að slíkri kennslu verður ekki komið á nema með verulegum undirbúningi og á talsvert löngum tíma. Í því sambandi vil ég upplýsa að ég hef fyrir nokkrum vikum skipað sérstaka nefnd eða starfshóp til þess að gera tillögur um kennslu í norsku og sænsku fyrir nemendur í grunnskóla sem vegna fyrirfarandi dvalar í Noregi eða Svíþjóð óska eftir kennslu í öðru hvoru þessara mála í stað dönsku. Þessari nefnd er ætlað að hraða störfum og skila áliti til menntmrn. sem fyrst.

Ég tel starf þessarar nefndar mjög mikilvægt fyrir allan undirbúning frekari aðgerða þessa máls. Fram til þessa hefur lítið eða ekkert verið gert til þess að koma norsku og sænskukennslu á í grunnskólum, en ég vil gjarnan stuðla að því, að svo verði í framtíðinni, að svo miklu leyti sem það er mögulegt. Fyrst um sinn tel ég að eðlilegast sé að stefna að því að greiða götu þeirra, sem sérstaklega óska eftir því að taka próf í norsku eða sænsku, og miða þá að því að færa kennslu í þessum málum inn í sjálfa skólana og aðlaga námsskrá hlutaðeigandi nemenda slíku námi. Slíkt mundi vera stórt spor fram á við frá því sem nú er, þar sem engin sérstök námsskrá er fyrir þessa nemendur og þeir verða að stunda nám sitt utan skólanna, þ. e. í námsflokkum.

Í þessu sambandi verður að taka það fram, að kennarar í norsku og sænsku hér á landi eru mjög fáir, og það eitt er að sjálfsögðu hindrun í vegi fyrir víðtækri kennslu í þessum málum.

Ég vona, að hv. fyrirspyrjandi geti sætt sig við þessi svör, og læt máli mínu lokið.