10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2793 í B-deild Alþingistíðinda. (2904)

379. mál, skilyrði fyrir ríkisábyrgð vegna lántöku Flugleiða

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég hef átt það góða samvinnu við hæstv. samgrh. í þessu máli að mér fannst leitt að fram kom misskilningur hjá honum áðan. Þau þrjú skilyrði, sem ég nefndi að fyrirtækið hefði enn ekki uppfyllt, eða næstum því ekki, voru ekki þau sem hann nefndi í sinni ræðu. Ég vil þess vegna ítreka þau.

Það er í fyrsta lagi varðandi Arnarflug. Ég lýsi því sem minni skoðun, að það er fullkomlega óeðlilegt að Flugleiðir ætli að hengja aftan í það mál skyldukaup á stórum varahlutalager fyrirtækisins, sem jafnvel nemur hærri upphæð en verðið á hlutabréfunum sjálfum. Stjórnin er þar með að gera starfsfólki Arnarflugs mjög erfitt fyrir að eignast þennan hlut með því að hengja aftan í það skilyrði sem aldrei var nefnt í meðferð Alþingis. Í öðru lagi varðandi hlut ríkisins í stjórn fyrirtækisins sem enn hefur ekki verið uppfyllt. Í þriðja lagi, það sem er kannske verst af öllu, að með margvíslegum undanbrögðum og ákvörðunum hefur starfsfólki fyrirtækisins verið gert næstum því ómögulegt að eignast aukinn hlut í fyrirtækinu.

Það eru þessi þrjú skilyrði sem stjórn fyrirtækisins hefur annaðhvort alveg eða óbeint komið sér hjá að uppfylla. Alþingi stendur þess vegna frammi fyrir því að horfast í augu við það, hvað á að láta stóran hluta af ríkisábyrgðinni, meðan þessi þrjú grundvallarskilyrði, sem Alþingi var sammála um að væru þau mikilvægustu af þeim sem nefnd voru, hafa ekki verið uppfyllt.

Það hefur komið hér fram, að 1/4 af ríkisábyrgðinni er eftir. Eru menn reiðubúnir að láta meira af henni meðan þetta er óuppfyllt? Eða er kannske ekki nauðsynlegt að fyrirtækið uppfylli a. m. k. eitt af þessum þremur áður en meira er látið af hendi?

Hitt er svo rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að við búum enn við það hér, almenningur á Íslandi, sem ráðherra nefndi herkví hárra fluggjalda. Það er í reynd lagt ferðahaft á almenning á Íslandi með því að fyrirtækið beitir sér gegn lágum fargjöldum og reynir að hindra það að atmenningur í landinu geti ferðast til útlanda á sömu kjörum og almenningur annars staðar. Þess vegna er það nauðsynjamál, að Alþingi Íslendinga og aðrir haldi áfram að sinna þeirri skyldi sinni að tryggja að hér séu í landinu flugsamgöngur sem bjóði íslenskum almenningi jafnmikið öryggi og jafnódýr fargjöld og nágrannaþjóðir okkar búa við.