10.03.1981
Sameinað þing: 58. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2794 í B-deild Alþingistíðinda. (2906)

379. mál, skilyrði fyrir ríkisábyrgð vegna lántöku Flugleiða

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er aðeins vegna ummæla hæstv. samgrh. og hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar um herkví hárra fargjalda. Þetta eru barnalegar skoðanir sem þeir báðir halda fram, vegna þess að þær byggjast á skorti á upplýsingum og skorti á þekkingu á því máli sem um er verið að ræða. Í fyrsta lagi: Erlend flugfélög hafa margfalt stærri markað en þau íslensku. Íslensku flugfélögin eru á öllum sínum flugleiðum erlendis bundin af IATA-fargjöldum. Og það er frægt dæmi um alla Mið-Evrópu, að leiguflugfélög, sem þar starfa, geta boðið mun lægri fargjöld á vissum árstímum til tiltekinna staða. Ég held að menn ættu að líta aðeins betur á þetta áður en þeir telja í raun og veru að það sé verið vísvitandi að halda uppi háum fargjöldum. Það tel ég að sé rangt, það sé ekki gert. En staðreyndin er hins vegar sú, að sá markaður, sem íslensku flugfélögin hafa, er svo lítill, hann er svo sáralítill, að það er ekki nokkur vegur fyrir þau að bjóða lág fargjöld í sama mæli og önnur risaflugfélög geta boðið leiguflugferðir víða um heim. Þetta eru bara staðreyndir. Menn verða að hugsa um þetta þegar þeir tala um þessi mál.