10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2811 í B-deild Alþingistíðinda. (2928)

202. mál, þingmannanefnd er vinni að auknu samstarfi Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hef að vísu ekki þýðingarmiklum atriðum við að bæta framsöguræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar, 1. flm. þessarar þáltill., en vil þó ekki láta hjá líða að kveða svo að orði að ljóst verði að það er ekki aðeins til málamynda sem ég er þessari till. fylgjandi.

Engar tvær þjóðir eiga svo ríka hagsmuni sameiginlega með okkur sem Færeyingar og Grænlendingar. Engar tvær þjóðir búa við lík lífsskilyrði þeim sem við búum við sem þessar tvær þjóðir. Og ég er efalaus um það, að velferð okkar, efnahagsleg og menningarleg, er að verulegu leyti undir því komin að þróttmikið þjóðlíf geti þróast í þessum tveimur grannlöndum okkar. Ég hef áður minnt á þáltill. sem samþykkt var hér á þinginu árið 1972, einmitt meðan á hinu öðru landhelgisstríði stóð, um nauðsyn þess að taka upp virkt samstarf við Færeyinga og Grænlendinga — þá voru að vísu Norðmenn taldir með í þeirri tillögu — um nýtingu fiskislóðarinnar og um fiskverslun. Síðan hefur allmikið vatn til sjávar runnið. Eftir sitjum við með það enn frá þeirri tíð, að hvorug þessara þjóða, grannþjóða okkar sem hér um ræðir, hefur hlotið eða tekið sér fullkomið sjálfstæði. Þar af leiðandi er það skynsamleg aðferð, þar sem ekki verður unnið eftir ríkisstjórnarkiðum formsins vegna, að það verði þingmenn þessara landa sem taki upp, ef svo má segja, eðlilegt pólitískt samstarf til undirbúningsmálum sem lúta að hagsmunum allra þessara þriggja þjóða. Nú fyrir skemmstu heyrðum við frá því sagt hér á þingi, að íslenskir embættismenn stæðu í samningum við Efnahagsbandalag Evrópu um rétt til þess að fiska innan efnahagslögsögu Grænlendinga. Jafnvel hlýddum við á fréttir af því, að af hálfu Íslendinga eða íslenskra embættismanna hefði það verið boðið, að í staðinn fyrir það, að Efnahagsbandalagið féllist á að við fengjum að fiska í grænlenskri efnahagslögsögu við Austur-Grænland, þá fengju skip Efnahagsbandalagsins sérstaka aðstöðu til viðgerða og annarrar þjónustu umfram það sem vanalegt er í íslenskum höfnum.

Ég vil, samtímis því sem ég brýni fyrir hv. þm. nauðsyn þess að þáltill., sem við höfum hér fyrir framan okkur, verði samþykkt sem skjótast og myndarlegast, vara eindregið við því, að af hálfu íslenskra yfirvalda verði neitt það aðhafst í tengslum við þá deilu sem nú er risin og harðna mun á milli Grænlendinga annars vegar og Efnahagsbandalagsþjóðanna hins vegar, sem Grænlendingar gætu túlkað á þá lund að við virtum ekki og viðurkenndum ekki skýlausan rétt þeirra til þessara svæða við Grænlandsströnd og úrtakslausan rétt þeirra og einkarétt til þess að fjalla um auðæfi á fiskislóð við Grænland.

Ég vil biðja hv. þm. um að leiða hugann til baka til þess tíma, þegar við áttum í býsna hörðum slag við ríki Efnahagsbandalagsins og Breta á sinni tíð um íslensku fiskveiðilögsöguna, og hugleiða með hvaða hætti Íslendingar hefðu brugðist við því ef grannar okkar, svo sem Norðmenn eða Færeyingar, hefðu farið að makka við Efnahagsbandalagsríkin, í skjóli samningsins sem áður hafði verið gerður við Breta og Þjóðverja, um rétt til þess að veiða innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Ég minni þá jafnframt á hversu innilega það gladdi okkur þegar Færeyingar — ekki færeyska landsstjórnin heldur færeysk alþýða — tóku upp á eigin spýtur þá ákvörðun að synja Bretum og Þjóðverjum um rétt til þess að leita af Íslandsmiðum hafnar í Færeyjum til viðgerðar. Við þurfum ekki að efast um það, að hversu svo sem lykta kann þjóðaratkvæðagreiðslu, sem fyrirhuguð er í Grænlandi eftir rösklega hálft annað ár um aðild að Efnahagsbandalaginu, þá mundu Grænlendingar efalaust verða minnugir þess, með hvaða hætti við styðjum við bakið á þeim núna, og ekki síst eftir úrskurð hins þjóðréttarfróða danska þingmanns sem kvað upp úr um það nú fyrir þremur dögum, að ekki yrðu tekin gild loforð eða fyrirheit danskra yfirvalda um það, að Grænlendingar ættu þess kost að losna úr Efnahagsbandalaginu þótt þeir sjálfir vildu, þar sem slíkt mundi brjóta í bága við alþjóðarétt.

Grannar okkar þarna norðvestur frá hafa sannarlega vaknað til vitundar um eigið gildi sem þjóðar. Um það ber vott Ínúíta-ráðstefnan mikla sem haldin var á Grænlandi s. l. sumar. Og við Íslendingar njótum þeirrar sérstöðu, a. m. k. enn sem komið er, að enda þótt Grænlendingar hafi allt að því tekið kalda afstöðu til hvíta kynstofnsins á þessari ráðstefnu sinni í Grænlandi á liðnu sumri, þá virðast þeir ekki líta á Íslendinga sem hvíta manninn í þeirri deilu, heldur næstu granna sem þeir vænta góðs af. Ég er efalaus um að það er mikið í húfi fyrir okkur að reynast nú Grænlendingum drengir góðir, og að við tökum frumkvæði í því að koma á eðlilegu samstarfi á milli stjórnmálamanna á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.