10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2841 í B-deild Alþingistíðinda. (2950)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég er ekki viss um nema sumt í þeirri umræðu, sem farið hefur fram í dag, sé orsökin fyrir því, hvað allar virkjunarframkvæmdir utan Landsvirkjunarsvæðisins hafa dregist mikið á tanginn. Hér stöndum við Íslendingar með aðeins 6–10% af virkjanlegu vatnsafli okkar virkjuð. Hér horfumst við í augu við það og höfum vitað af því lengi, að til raforkuskorts mundi koma um þessar mundir. Samt sem áður hefur það gerst æ ofan í æ, þegar orkumál hafa komið á dagskrá hér á Alþingi að mestöll umræðan hefur farið fram á milli þm. einhverra tiltekinna kjördæma þar sem þeir hafa deilt sín á milli um hvort næsta virkjun eigi að vera í mínu kjördæmi eða þínu kjördæmi. Þetta er m. a. skýringin á því, hvers vegna allar framkvæmdir utan Landsvirkjunarsvæðisins hafa dregist úr hófi fram, og þetta er m. a. ástæðan fyrir því, að í virkjunar- og orkumálunum geta menn ekki séð skóginn því að þeir eru svo uppteknir af að skoða trén.

Fyrir utan mannauðinn, þ. e. þekkingu og dugnað þjóðarinnar, eiga Íslendingar í þrjár auðlindir að ganga: í gróður landsins, í fiskimiðin í sjónum og í orku djúphita og fallvatna. Sú fyrsta þessara auðlinda, gróður jarðar, hélt í okkur lífinu öld fram af öld og gerði það að verkum, að íslenska þjóðin er til. Önnur auðlindin, fiskimiðin í sjónum, gerði okkur fært að framkvæma sannkallaða iðn- og lífskjarabyltingu á hálfum mannsaldri. Þessar tvær auðlindir eru nú þegar fullnýttar og að sumra sögn jafnvel ofnýttar. Íslendingar geta ekki lengur sótt sér lífskjarabætur með því að leggja meiri þrýsting en þeir gera nú á það nýta þessar auðlindir. Af þessum ástæðum höfum við á undanförnum árum ávallt verið að dragast meira og meira aftur úr öðrum þjóðum í lífsgæðum hér í þessu landi. Fyrir aðeins einum áratug var íslenska þjóðin í þriðja sæti meðal þjóða heims yfir framleiðsluverðmæti á hvert mannsbarn. Frá því hefur okkur stórlega hrakað ár frá ári þannig að Íslendingar standa nú uppi með versnandi lífskjör og verri lífskjör en flestallar nágrannaþjóðir okkar búa við. Einasta svarið, einasta ráðið til að sækja aftur okkar sess í lífskjörum meðal þjóða heims er að nýta þessa ónýttu auðlind okkar, orku vatnsfalla og djúphita.

En það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir menn, að svo til í hvert skipti sem tilraun hefur verið gerð til þess á undanförnum árum að nýta þessar orkulindir fyrir fólkið í landinu hafa komið upp stórkostlegir erfiðleikar og stórkostlegar fjárkröfur frá nokkrum einstaklingum sem telja sig eiga þessar auðlindir íslensku þjóðarinnar. Þau mál hefur oft orðið að leysa með stórkostlegum fjárframlögum hins landlausa almennings í þessu landi. Þegar til stendur að gera eitthvað fyrir þetta land, eigi að græða upp land, eigi að yrkja afréttir og hálendi Íslands, og leitað er að einhverjum til að borga er Ísland eign þjóðarinnar allrar. Þá er komið hingað til Alþingis með reikninginn og við alþm. látnir framsenda þennan reikning til hins landlausa almennings. En þegar að því kemur að það eigi að hafa gagn af þessu landi og auðlindum þess kemur fámennur hópur landsmanna og segir: Þetta land á ég.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir menn þegar það gerist æ ofan í æ, þegar hinn landlausi almenningur ætlar að njóta góðs af auðlindum eigin lands, að því sé spillt vegna fjárkrafna nokkurra manna sem segja þegar svo standa mál: Þetta land á ég. En þegar þarf að greiða einhverja peninga fyrir að bæta þetta land segja þessir sömu menn: Þetta land er eign okkar allra. Væri þarfara umræðuefni en umræða af þeim toga sem hér fer fram, þar sem þm. einstakra kjördæma deila sín á milli, að reyna að móta einhverja heildarstefnu hvernig eigi að nýta þessar auðlindir okkar Íslendinga allra, ekki til gagns fyrir einhverja fáa útvalda, heldur fyrir þjóðina í heild.

Það er ekki nokkur vafi á því, herra forseti, að Blönduvirkjun er með hagstæðustu virkjunarkostum eins og sakir standa. Hins vegar vitum við það líka, að þeirri hagkvæmni er mjög auðvelt að breyta til hins verra ef gerðar eru slíkar fjárkröfur á hindur hins landlausa almennings að virkjunarkosturinn verði ekki lengur jafnhagkvæmur og hann er. Það er ekki nokkur vafi á því, að virkjun Blöndu nýtur mikils stuðnings meðal Vestfirðinga. Þeir mundu gjarnan vilja fá slíka virkjun í næsta nágrenni við sig. Það ber að leggja kapp á að ná sáttum í þessu máli. En sáttum verður ekki náð öðruvísi en að virkjunarkosturinn, sem Blanda býður, verði áfram jafnhagkvæmur og hann er. Ef kröfur þær, sem gerðar eru á hendur ríkisvaldinu og almenningi í þessu landi, eru þess eðlis að virkjunarkostur Blöndu verður ekki hagkvæmur er auðvitað ljóst að af þeirri virkjun verður ekki. Hér er fyrst og fremst um að ræða mál sem verður að útkljá heima í héraði. Þeir Norðlendingar, sem hafa hingað komið í dag, skulu halda heimleiðis í fullvissu þess, að ef þeir útkljá ekki þessi deilumál í sínum hóp er harla ólíklegt að af þessari virkjun geti orðið með þeim hætti sem þeir óska helst eftir.