12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2875 í B-deild Alþingistíðinda. (3001)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég skal reyna að verða við þeim tilmælum að vera ekki mjög langorður. Tilefni þess, að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár, er að beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh., hvað líði skýrslu þeirri er níu þingmenn óskuðu eftir frá hans hendi um málefni Ríkisútvarpsins hinn 27. jan. s.l. Nú er sem næst hálfur annar mánuður liðinn síðan og ekkert hefur enn gerst, engin skýrsla séð dagsins ljós. Því er það spurning mín: Hvað tefur þessa skýrslugerð? Ég mun rökstyðja það nokkrum orðum, herra forseti, hvers vegna það er mjög brýnt að þessi skýrsla um málefni Ríkisútvarpsins verði lögð fyrir Alþingi hið allra fyrsta.

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins, mestu menningarstofnunar þjóðarinnar. Rekstrarhalli Ríkisútvarpsins s. l. tvö ár nemur 16 millj. kr., m. a. vegna þess að stofnunin hefur verið svipt tolltekjum af innflutningi sjónvarpstækja og ekkert fengið í staðinn, líka og ekki síður vegna þess, að Ríkisútvarpinu hefur verið synjað um eðlilegar hækkanir afnotagjalda.

Þegar útvarp hófst hér á landi fyrir 50 árum var útvarpað í þrjár klst. á dag og þá var afnotagjaldið svipað og áskriftarverð dagblaðs. Í dag er útvarpað 17 klst. á dag og sjónvarpað 24–25 klst. á viku, en afnotagjald útvarpsins rétt lafir í því að vera það sem menn borga fyrir áskrift að einu dagblaði. Hér hallast auðvitað hrikalega á, og þetta þrjóskast stjórnvöld af einhverjum ástæðum við að leiðrétta, en þetta verður að leiðrétta.

Í dagblaðinu Vísi í gær var viðtal við hæstv. menntmrh. um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Þar segir m. a., með leyfi forseta: „Við ætlum að fara að byggja og koma þaki yfir útvarpið. Við gerum ekki allt í einu, að stórefla dagskrána og byggja stórhýsi yfir stofnunina,“ sagði Ingvar Gíslason menntmrh. í samtali við Vísi í gær.

Þessi ummæli hæstv. ráðh. koma mér afskaplega mikið á óvart. Ég spurði ritstjóra Vísis að því núna eftir hádegið, hvort menntmrh. hefði óskað eftir leiðréttingu á þessum ummælum, því að mér flaug í hug að e. t. v. væru þau ekki rétt eftir höfð. Svo var ekki, ráðh. hafði ekki óskað eftir neinni leiðréttingu þessara ummæla.

Staðreyndin er sú, að húsbygging Ríkisútvarpsins kemur þessu máli ekkert við. Af afnotagjaldi fara samkv. ákvörðum Alþingis 10% í framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins sem verja skal til öflunar húsnæðis og tækjabúnaðar, það er allt annar handleggur. Og það er ekki heldur verið að tala um að stórefla dagskrána. Það er verið að tala um að skerða dagskrána annars vegar eða halda henni í því horfi sem hún hefur verið. Það eru engar áætlanir uppi í útvarpsráði eða annars staðar í Ríkisútvarpinu um stóreflingu dagskrárinnar meðan stofnunin er í fjárhagslegum viðjum af hálfu stjórnvalda. Það stendur ekki til og hefur ekki staðið til að nota dagskrárfé Ríkisútvarpsins til að kaupa steypu né heldur á að nota þá peninga, sem til eru í framkvæmdasjóði, til að gera dagskrár. Þetta eru aðskilin mál, og þau ummæli menntmrh., sem ég hef hér vitnað til og ætla að rétt séu höfð eftir, lýsa vægast sagt lítilli þekkingu á starfsemi þessarar stofnunar.

Það hefur mjög mikið verið um það rætt að undanförnu, að nú sé fram undan að skerða dagskrá Ríkisútvarpsins. Það er mat yfirstjórnar útvarpsins, að til þess að ná jafnvægi í rekstri miðað við tekjulíkur þurfi að draga saman kostnað við dagskrárgerð í sjónvarpi um 9% og í hljóðvarpi um 14%. Rætt hefur verið um að fella niður sjónvarp í einn dag eða klípa af á ýmsum stöðum, stytta daglegan útsendingartíma, lengja svokallaða sumardagskrá, sem er einfaldari í sniðum og viðaminni en vetrardagskráin, og lengja svokallaða sumarlokun sjónvarpsins, sem ætti að vera búið að afleggja fyrir langa löngu. Þetta eru auðvitað alger neyðarúrræði, og það er hart ef ríkisstj. ætlar sér að halda upp á 50 ára afmæli útvarps í landinu með því að láta skerða dagskrána og þar með þá þjónustu sem þessi stofnun veitir landsmönnum öllum.

Ég spyr því, hvort það sé vilji ríkisstj. og ætlun að nú verði dagskrá útvarps og sjónvarps stytt verulega frá því sem verið hefur, á þessu afmælisári útvarpsins. Og það skyldu menn hafa í huga, að sú stytting dagskrárinnar kemur harðast niður á þeim sem síst skyldi.

Ég vil að lokum, herra forseti, greina frá samþykkt sem þingflokkur Alþfl. gerði í gær og er svohljóðandi.: „Þingflokkur Alþfl. er alfarið andvígur því, að dagskrá sjónvarps og útvarps verði skert eins og nú hefur verið boðað að í vændum sé. Það er skoðun þingflokksins, að sú skerðing bitni mest á þeim sem síst skyldi, öldruðu fólki og þeim sem af ýmsum ástæðum eiga ekki heimangengt eða búa við einangrun.

Þingflokkur Alþfl. minnir á að Ríkisútvarpið er ekki aðeins ein mesta menningarstofnun þjóðarinnar, heldur og öryggistæki í þágu allra landsmanna, og því skipti höfuðmáli að starfsemi þess verði ekki skert með neinum hætti, heldur beri að efla vöxt þess og viðgang í hvívetna.

Á þessu þingi hafa verið fluttar þrjár till. um að styrkja fjárhag Ríkisútvarpsins með því að það fái að nýju tolltekjur af innfluttum sjónvarpstækjum. Þessum tolltekjum var Ríkisútvarpið svipt án þess að nokkuð kæmi í staðinn. M. a. þess vegna á stofnunin nú við erfiðan fjárhag að stríða. Tvær af þessum till. hafa verið felldar, en sú þriðja er enn í umfjöllun menntam. Ed.

Þingflokkur Alþfl. telur einsýnt að ríkisstj. verði tafarlaust að gera ráðstafanir til að rétta fjárhag Ríkisútvarpsins. Það er hægt að gera með margvíslegum hætti öðrum en að skerða þá þjónustu sem stofnunin veitir landsmönnum.

Þingflokkur Alþfl. ítrekar andstöðu sína við öll áform um að stytta dagskrá útvarps og sjónvarps.“

Ég ítreka svo, herra forseti, spurningu mína til hæstv. menntmrh.: Hvað líður skýrslu þeirri sem níu þm. óskuðu eftir fyrir einum og hálfum mánuði, hinn 27. janúar s. l.? Það þýðir víst lítið að beina öðrum spurningum hér til ráðh. hæstv. ríkisstj. því að enginn þeirra er hér í salnum nema hæstv. menntmrh. En það hefði verið rík ástæða til þess að fá svör um það frá hæstv. forsrh., hvort það er stefna núverandi ríkisstj. að skerða dagskrá útvarps og sjónvarps og þrengja að allri starfsemi þessarar mestu menningarstofnunar sem er sameign þjóðarinnar.