12.03.1981
Sameinað þing: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2882 í B-deild Alþingistíðinda. (3006)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. það svar hans, að þessi skýrsla skuli nú fljótlega væntanleg, þó ég hafi svo sem ekki sérstaka ástæðu til að þakka ýmislegt annað af því sem fram kom í ræðu hans sem mér þótti nú reyndar ekki sérlega rismikil. En það er vissulega ágætt til þess að vita, að þessi skýrsla skuli fljótlega væntanleg — og þó fyrr hefði verið, vegna þess að þau atriði, sem um er spurt, eru að vísu kannske nokkuð mörg, en ég hygg að upplýsingar um þau og fróðleikur sá, sem óskað er eftir, liggi fyrir ýmist í Ríkisútvarpinu eða hjá menntmrn., og ættu því að vera hæg heimatökin að koma þessu á blað og raunar ekki mikið verk.

Hæstv. ráðh. vék að því hér, að það hefði ekki borið mikið á áhuga mínum á málefnum þessarar stofnunar fyrr en þá kannske á þessu þingi. Ég andmæli þessu. Ég hygg að ef hæstv. menntmrh. hugsar svolítið til baka minnist hann þess, að við öll þau tækifæri, að ég hygg, sem umræður hafa orðið hér í Sþ. um málefni Ríkisútvarpsins munum við báðir hafa tekið þátt í þeim og lagt þar nokkuð til mála.

Hæstv. menntmrh. notaði hér orð áðan um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins sem ég kann ákaflega illa við. Hann talaði um fjármálaóreiðu í Ríkisútvarpinu. Þetta eru stór orð og þau orð verður hæstv. ráðh. að skýra nánar. Það er ekkert sem réttlætir það, þótt um þennan rekstrarhalla hafi verið að ræða s. l. tvö ár, að kalla það fjármálaóreiðu. Ég hygg hins vegar að sá maður, sem gegnir starfi fjármálastjóra Ríkisútvarpsins, geri það af hinni mestu prýði. Og það er engan veginn heiðarlegt eða réttmætt að tala þar um fjármálaóreiðu, þó svo að aðgerðir stjórnvalda hafi valdið því, að Ríkisútvarpið hefur verið rekið með halla.

Það er fróðlegt að heyra það, að hæstv. menntmrh. skuli telja það raunar smámál og alls engan voða á ferðum þótt í fyrsta skipti í 50 ára sögu Ríkisútvarpsins standi nú fyrir dyrum að skerða verulega þá þjónustu sem stofnunin veitir sínum hlustendum. Ef sú staðreynd á að verða minnisvarði um menntamálaráðherratíð hæstv. núv. menntmrh., verði honum þá að góðu, og þá eru lítil geð guma, að ekki sé meira sagt.

Ég nefndi hér tölur áðan um rekstrarhalla Ríkisútvarpsins undanfarin tvö ár. Hæstv. ráðh. dró þær í efa. Hv. 10. þm. Reykv., Friðrik Sophusson, hefur staðfest þessar tölur. Og ef ráðh. trúir okkur ekki, þá er afar einfalt fyrir hann að skoða reikninga Ríkisútvarpsins, eins og honum hlýtur raunar að bera skylda til sem æðsta yfirmanni þeirrar stofnunar. Þessar tölur verða ekki vefengdar.

Ég vonast síðan til þess, herra forseti, að þegar skýrsla sú, sem hér um ræðir, verður fram lögð gefist betra tækifæri til að ræða málefni þessarar mikilvægu stofnunar, og ég vona að þá hafi orðið sú hugarfarsbreyting hjá hæstv. menntmrh., að hann meti meir stöðu og starf Ríkisútvarpsins en hann auðheyrilega gerir nú.