17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2908 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

206. mál, almennar skoðanakannanir

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég held að það sé ekkert nema gott um það að segja að almennar reglur séu settar um skoðanakannanir, eins og hér er um rætt. Hins vegar þykir mér skjóta skemmtilega skökku við þegar hv. þm. Framsfl. koma hér og þakka Dagblaðinu það frumkvæði sem það hefur haft í þessum efnum. Það hefur tekið forustu í þessum málum með mjög ánægjulegum árangri, að manni skilst. Af því tilefni langar mig til að rifja hér upp fáein orð sem hv. þm. Páll Pétursson, 1. þm. Norðurl. v., viðhafði hér í apríl í hittiðfyrra í umr. um þessa till. Þá sagði hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Sú þróun hefur orðið hér á landi, að nokkrir aðilar eru farnir að fást við að framkvæma það sem þeir kalla opinberar skoðanakannanir. Þessar kannanir hafa til þessa flestar verið framkvæmdar á mjög frumstæðan hátt og niðurstöður þeirra eru auðvitað fjarri því að vera marktækar. Þess vegna er augljós nauðsyn þess, að settar verði ákveðnar reglur, rammalöggjöf, um það, hver skilyrði verði að uppfylla til þess að geta kallað athuganir af þessu tagi almennar skoðanakannanir. Þetta er því nauðsynlegra sem sumar þessar kannanir hafa verið framkvæmdar af pólitískum áróðursmálgögnum, dagblöðum, sem hafa opinberlega gengið erinda stjórnmálaflokka. Auðvitað mætti lita á athuganir þeirra sem saklaust gaman og aðferð fjáraflamanna til þess að selja blöð sín á strætum og gatnamótum, enda tilgangurinn augljóslega sá að auka sölu þar sem reynt er að dreifa frásögnum af könnunum þessum á marga daga. En því ber ekki að leyna, að niðurstöður, sem fengnar eru með óvísindalegum eða jafnvel mjög vafasömum hætti, geta haft stórkostlegt áróðursgildi eftir að niðurstöður hafa verið birtar. Nægir þar að benda á það, að skoðanakannanir Dagblaðsins meðan það studdi Alþfl. stuðluðu miklu fremur en dómgreind almennings að sigri þess flokks í síðustu kosningum. Hins vegar eftir að Dagblaðið hætti stuðningi við Alþfl. og tók aftur að styðja Sjálfstfl. kom í ljós í skoðanakönnun blaðsins að geysilegur kosningasigur

Sjálfstfl. væri á næsta leiti, þó að vitræn rök styðji ekki þá ályktun.“

Og síðan segir hér, með leyfi forseta:„Sem dæmi um það, hvernig menn leyfa sér að haga sér, má nefna síðustu skoðanakönnun Dagblaðsins. Þar eru allar þær meginreglur, sem áður er getið, þverbrotnar.“ (Forseti hringir). Já, herra forseti, ég er rétt að ljúka máli mínu. — „Mig minnir að 38% hafi ekki tekið afstöðu. Val þátttakenda kann að hafa verið út í bláinn, í skásta falli eftir símaskrá. Og svo leyfa þessir herrar sér að belgja sig út á prenti um að þeir hafi gert marktæka skoðanakönnun.“

Ég vil bæta því við, að í þessum umr. sagðist hv. 1. þm. Vesturl. taka undir hvert orð af því sem flm. hefði sagt. Nú væri fróðlegt að fá að vita hvað valdi þessum skyndilegu skoðanaskiptum hjá hv. þm. Framsfl.