04.11.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

9. mál, iðnaður á Vesturlandi

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Hér er fjallað um till. til þál. um eflingu iðnaðar á Vesturlandi. Flm. eru allir þm. Vesturl. Hv. 1. þm. þess kjördæmis hefur gert ítarlega grein fyrir till. svo að ekki er þörf á því að bæta þar við mörgum orðum. Þó ætla ég að leyfa mér að láta nokkur orð falla af þessu tilefni.

Hann gat þess, hv. 1. þm. Vesturl., að þessi till. hefði verið flutt á síðasta þingi, þ.e. á 102. löggjafarþingi. Þá var fyrri flm. hennar hv. 3. þm. Vesturl. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Iðnaður er vaxandi atvinnugrein. Það er viðfangsefni dagsins í dag og á morgun. Þó er það svo, þegar rætt er um málefni framtíðarinnar, að þá ber gjarnan að hafa í huga þetta stef skáldsins:

Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja,

án fræðslu þess liðna sést ei hvað er nýtt.

Ég ætla að geta þess í þessu sambandi, að á 99. löggjafarþingi var flutt till. til þál. um þróun iðnaðar á Vesturlandi. Flm. þeirrar till. var hv. þáv. þm. Vesturl., Ingiberg J. Hannesson, ásamt mér. Sú till. var svipaðs efnis og sú sem hér er til umr., eða á þá leið, að Alþingi ályktaði að skora á ríkisstj. að hraða gerð áætlana um iðnþróun á Vesturlandi til þess að treysta atvinnugrundvöll í kjördæminu, einkum þar sem atvinnuástand er ekki öruggt og þar sem iðnaður gæti fyllt upp í og skapað öryggi í atvinnu við hlið hinna hefðbundnu atvinnugreina, sjávarútvegi og fiskvinnslu, landbúnaði, verslun og hinum ýmsu þjónustugreinum. Till. þessari fylgdi alllöng og ítarleg grg. Ég minnist aðeins á þessa till. til að sýna að það efni, sem hér um ræðir, er vitanlega á vörum margra og ákaflega mikilvægt og eðlilegt að till., sem horfa til bættra hátta á því sviði, séu fleiri en ein.

Þessari umræddu till., sem við fluttum á 99. löggjafarþingi, var vísað til atvmn. og atvmn. gerði að sinni till. að efninu yrði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að þau áform, sem till. fjallaði um, næðu fram að ganga.

Það er rétt hjá hv. frsm., að á undanförnum árum hefur verið unnið mikið að áætlanagerð að því er málefni Vesturlands varðar. Það hefur m. á. verið unnið að áætlunum vegna samþykkta sem gerðar hafa verið á aðalfundum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og af fleiri forráðamönnum í sveitarstjórnarmálum í Vesturlandskjördæmi. Það var því gleðiefni þegar hin svonefnda Dalabyggðaráætlun var samþykkt, eins og hv, frsm. tók fram, 29. sept. s.l. Hér er um að ræða rammasamþykkt, en rammasamþykkt sem þó er nokkurs virði, enda þótt tilskilið sé að um hver málefni sé fjallað sérstaklega þegar það ber að höndum. Þó að þannig sé tekið til orða er hér vissulega um ánægjulega samþykkt að ræða og stefnumótandi.

Eins og ég sagði áðan er iðnaðurinn og þau mál, sem hann snerta, vissulega mál sem horfa til framtíðar. Ég fagna því, að þessi till. er nú borin fram af öllum þm. Vesturl. Þeir taka þar allir höndum saman og reyna þannig að stuðla að því að svo merku og veigamiklu máli sé hrundið eitthvað áleiðis.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en leyfa mér í lokin að lesa upp lokaorðin í grg. þeirri sem fylgdi till. okkar, sem ég gat um áðan, frá 99. löggjafarþinginu. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Íslenskt þjóðfélag er í stöðugri og hraðri mótun og hefur tekið stakkaskiptum á skömmum tíma frá tiltölulega frumstæðu bændaþjóðfélagi til iðnvædds nútímaþjóðfélags, sem byggir á vaxandi tækniþekkingu og hagræðingu á ýmsum sviðum. Því er nauðsynlegt, að samfara hagnýtingu náttúruauðlinda þjóðarinnar fari skynsamleg áætlanagerð um nýtingu þeirra og uppbyggingu, sem verða mun þjóðinni til sem mestra hagsbóta þegar tímar líða.