17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2910 í B-deild Alþingistíðinda. (3031)

206. mál, almennar skoðanakannanir

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég fagna því mjög, að hv. þm. Eiður Guðnason lesi skynsamlegar ræður eftir mig hér úr ræðustólnum, og þykir mér hann verja tíma sínum vel að gera það. Ég hef enn svipaða skoðun og ég hafði þegar ég flutti þessa ræðu. Það var að vísu ekki í fyrravetur, heldur veturinn þar áður eða veturinn 1978–79.

Skoðanakannanir hafa að vísu þróast nokkuð hjá þeim sem hafa stundað þær, svo að þær eru kannske eitthvað marktækari nú en þær voru, en þær eru náttúrlega fjarri því að vera ábyggilegar, og allra síst þegar farið er að leggja út af þeim í smáatriðum eins og það hvort flokkur sé klofinn eða ekki klofinn og því um líkt.

Það er mikilsvert að vanda skoðanakannanir vegna þess að þær eru óskaplegt áróðurstæki. Þær eru óskaplega máttugt tæki til þess að mynda skoðun hjá fólki, þær eru leiðbeinandi um hvert straumurinn liggur og verða e. t. v. stundum réttar eftir á. Ég held að það sé nauðsynlegt að hafa lágmarks-„standard“ á þessu öllu saman.

Ég vitnaði til þess í ræðu minni, hver skilyrði ég teldi að þyrfti að uppfylla eða æskilegast væri að uppfyllt yrðu, en ég hef ekki tíma til að rekja þau hér núna. Eitt er það t. d., að orðalag spurninganna má ekki vera leiðandi. Það er hægt að ráða nokkru um niðurstöður skoðanakannana með því, hvernig spurningar eru orðaðar. Ég vitnaði í þessari ræðu minni til þess, hvernig fór í Bandaríkjunum. Harris-stofnunin var mjög andvíg Nixon og Nixon kom alltaf miklu verr út úr skoðanakönnunum þar en hjá Gallup. Nixon lét gá að þessu. Þá kom í ljós að spurningarnar voru öðruvísi orðaðar. Þær voru orðaðar þannig hjá Harris að þær voru leiðandi.

Það er líka nauðsynlegt að svaraprósenta sé nokkuð há og menn taki afstöðu og úrtakið sé nógu stórt og gefi rétta mynd af aldursdreifingu, kynferðisdreifingu og þvílíku og jafnframt að svarendum sé gert það ljóst, að þeir séu ekki neyddir til að svara.

Hvað varðar símakannanir hér vil ég benda á það, að menn eru miklu tregari að svara í opnum síma en í lokuðum síma. Þar af leiðandi gefa þær ekki rétta mynd að því leytinu til heldur, þessar símakannanir, sem eru óæskilegri en vandaðri kannanir bornar upp augliti til auglitis.