17.03.1981
Sameinað þing: 62. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (3084)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans. Hann sker sig nokkuð úr í ríkisstj. fyrir þá sök að honum er gjarnt að segja það sem honum býr í brjósti.

Það er eftirtektarvert, ef maður hugleiðir þær umr., sem nú hafa farið fram, og viðbrögð Alþb.-manna fyrst eftir myndun þessarar ríkisstj., að bera þetta saman og veita því athygli að hvarvetna kemur fram staðfesting á því, að Alþb. telur sig hafa stöðvunarvald í framkvæmdum sem snerta öryggishagsmuni Íslendinga. Þann dag, sem ríkisstj. tók við, skrifaði ritstjóri Þjóðviljans leiðara þar sem hann talaði um að undir forustu Alþb. mundi takast að vinna sósíalískum sjónarmiðum vaxandi fylgi. Skömmu síðar kom í Þjóðviljanum ábending um að það mætti orða það svo, að flokkurinn mætti ekki gefa „Alþingi götunnar“ frí þótt hann tæki þátt í meirihlutasamstarfi á Alþingi við Austurvöll. Hvað var það sem skriffinnum Þjóðviljans var mest í mun þegar ríkisstj. settist í stólana? Það var í fyrsta lagi þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn skyldi heldur vanmeta sundrunguna meðal íhaldsaflanna. Þegar Reykjavík féll í kosningunum 1978 vegna kosningasigurs Alþb. spáði Þjóðviljinn því, að það mundi reynast Sjálfstfl. dýrt spaug að missa lykilaðstöðu sína í íslenska valdakerfinu. (ÓRG: Það hefur reynst rétt.) Á sama tíma var því spáð, að hin nýja valdaaðstaða sósíalista og vinstri sinna í sveitarstjórnum um land allt og í landsstjórninni þýddi vatnaskil í íslenskum stjórnmálum. Þjóðviljinn hefur reynst sannspár í þessu efni vegna þess að með því að missa meirihlutaaðstöðu í Reykjavík urðu allir innri veikleikar Sjálfstfl. berir landsmönnum og þeim sjálfum.“

Í framhaldi af þessu talaði ritstjóri Þjóðviljans um að Alþb. mætti ekki halda of fast utan um sinn pólitíska jómfrúrdóm. Ég veit að formann þingflokks Alþb. rekur minni til þess, að Alþb. var trútt því markmiði sínu að halda ekki of fast um jómfrúdóminn.

En hvað var það svo sem Alþb. taldi sig ná á þessum degi með þessari stjórnarsamvinnu? Við skulum líka líta á það, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir síðustu kosningar höfðu allir flokkar nema Alþb. uppi ákveðnar tillögur um stóriðju í samvinnu við erlenda auðhringa. Jafnframt voru komin á flugstig áform um að þiggja ölmusu af Bandaríkjastjórn í íslenska framkvæmd á Keflavíkurflugvelli. Gagnvart hvoru tveggja hefur Alþb. nú stöðvunarvald með þátttöku í ríkisstj.“ — Ég ætla að endurtaka þessa síðustu setningu, sem er feitletruð í Þjóðviljanum: „Gagnvart hvoru tveggja hefur Alþb. nú stöðvunarvald með þátttöku í ríkisstj.

Ef við rifjum upp atburðarásina gagnvart því fyrrnefnda rekur menn minni til þess, að í svokölluðum efnahagsmarkmiðum ríkisstj. um áramótin var áréttað að um orkufrekan iðnað yrði ekki að ræða hér á landi með þeim hætti sem hann hefur verið byggður upp. Það er þess vegna alveg ljóst, að þar hefur Alþb. náð sínu markmiði fram, stöðvað frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar og þar með komið í veg fyrir að við getum virkjað fallvötnin svo sem hagkvæmast er og þá um leið jarðað draum Austfirðinga um Fljótsdalsvirkjun. Hitt atriðið er líka alveg skýrt, þ. e. stöðvunarvald gegn hvers konar framkvæmdum sem veit að því að auka öryggi Íslendinga. Það er þetta tvennt, sem Þjóðviljinn taldi sig ná fram, sem ritstjóri skrifaði um samkvæmt pöntun formanns Alþb. Á grundvelli þessa kemur fram þessi mikli óskadraumur, að hin unga forusta Alþb. muni geta unnið sósíalískum sjónarmiðum brautargengi á Íslandi m. a. með því að nota sér þær veilur sem um stundarsakir hafa því miður komið upp meðal borgaralegra afla, eins og Alþb.-menn segja, meðal lýðræðisafla — sem er mitt orðalag — í landinu.