18.03.1981
Sameinað þing: 63. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2962 í B-deild Alþingistíðinda. (3102)

256. mál, vegarstæði milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og merkt verður af umr. hér í þinginu ætti ekki að verða neitt því til fyrirstöðu að fá þetta þarfa mál samþykkt á þessu þingi. Væri það vissulega vel ef Alþingi tæki myndarlega á því erindi sem hér liggur fyrir. En því miður horfa málin þannig norður og austur þar, að ekki er útlit fyrir að jafnmikið verði úr framkvæmdum, t. d. með hafísvegarfé, og menn höfðu vænst.

Hafísféð hefur ekki fengist bætt sem nemur verðbólgunni frekar en annað sem er í vegáætlun. Hefur farið um þær vonir, sem við það fé voru bundnar, eins og um ýmislegt annað, að menn verða að taka á þolinmæðinni og bíða lengur en þeir höfðu vænst eftir því að fá vegi sína upp úr snjó.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það nauðsynjamál sem það er fyrir Vopnfirðinga að fá betri samgöngur. Þeir eru afskaplega einangraðir. Og eins og fram kom í ræðu flm. eru það jafnframt hagsmunir byggðanna fyrir norðan að skjót lausn verði fundin á samgöngumálum, ekki aðeins Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs, heldur líka norður um. Ég vil því vænta þess, að þessi tillöguflutningur megi ekki aðeins verða til að greiða fyrir samgöngum til Austurlands, heldur reki á eftir um það að hafísféð verði verðbætt þannig að það standi undir þeim vonum sem til þess voru gerðar.