18.03.1981
Sameinað þing: 63. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2962 í B-deild Alþingistíðinda. (3103)

256. mál, vegarstæði milli Vopnafjarðar og Fljótsdalshéraðs

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls um þessa till., en hv. þm. Stefán Jónsson fór að hafa eitthvað eftir mér úr sæti sínu. Ég man nú ekki betur en hv. þm. færi með okkur til Vopnafjarðar — er það ekki rétt munað? — þegar hafísnefndin forðum daga flaug þangað. (Gripið fram í.) Var ekki þm. með? Þá kom í ljós hvað þessir menn vildu, bæði á Vopnafirði og Bakkafirði og annars staðar þar sem nefndin fór. Þá kom það í ljós, að þeir vildu láta byggja upp veginn norður. Þeir töldu ekki aðra leið mögulega eins og á stóð. Ég man eftir því, að það var rætt um leiðina suður milli Vopnafjarðar og Héraðs, og ég man ekki betur en það væri sérstaklega tekið fram að ekki væri hugsanlegt nema með göngum að gera þá leið þannig að hún væri nokkuð til að byggja á, t. d. í vetrarveðráttu. Og það var meira að segja rætt um það, að ef væri búið að byggja upp veginn yfir Möðrudalsöræfi væri þó frekar að fara þá leið heldur en beint suður. En þeir lögðu aðaláhersluna á að byggja upp veginn norður.

Það kom fram hjá hv. þm. Helga Seljan að hann var óánægður með þessi skipti. Ég vil upplýsa það, að þessi skipti komu frá Vegagerðinni, það var hún sem lagði þetta til. Aðalhindrunin á leiðinni var Sléttan og ég hygg að það hafi verið ástæðan fyrir því, að hún lagði þessi skipti til. Og enn er það þannig að það er aðalhindrunin á þessari leið, og því miður lítur ekki út fyrir að þessu verði lokið á næsta sumri. Ef ég man rétt mun vanta til þess að ganga frá þessum svokallaða hafísvegi, þ. e. veginum frá Vopnafirði til Kópaskers, rúma 2 milljarða gkr., gott ef það eru ekki 2.3. En þá er miðað við að búið sé að ganga frá veginum nokkuð vel.

Ég ætla ekki að ræða þetta frekar. Ég vildi bara benda á þetta. Og ég vil líka benda á það, að hugmyndin um hafísveginn kom upp út af þessu ferðalagi fyrst og fremst. Heimamenn lögðu áherslu á það, að ef hafnirnar lokuðust væri eina leiðin landleiðin og það væri eina leiðin að byggja upp veg í norður.