18.03.1981
Sameinað þing: 63. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2972 í B-deild Alþingistíðinda. (3110)

140. mál, árangur nemenda í grunnskólum og framhaldsskólum

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Út af ummælum síðasta hv. ræðumanns í sambandi við endurskoðun grunnskólalaganna þykir mér alveg nauðsynlegt að greina frá því, að endurskoðunarnefnd grunnskólalaga var sett á laggirnar fyrir rúmlega ári, þó líklega nær tveimur árum, og þessi nefnd lauk störfum nú á þessum vetri. Hún lauk störfum í janúarmánuði. Nefndarálit þessarar nefndar er býsna langt og yfirgripsmikið. Það hefur verið fjölritað í nokkur hundruð eintökum og nú fyrir nokkru hef ég gert gangskör að því, að það verði sent fjölda manns í landinu og stofnunum, ekki síst skólamönnum og stjórnmálamönnum, og þá fyrst og fremst hef ég lagt svo fyrir að þingflokkarnir fengju þetta álit, því að jafnvel þó að þessi þriggja manna endurskoðunarnefnd hafi lokið störfum tel ég ákaflega mikilvægt að almenn umræða fari fram um þetta nefndarálit meðal skólamanna og meðal stjórnmálamanna.

Ég vona satt að segja að þessi skýrsla, sem er býsna löng, berist áhugamönnum um þessi efni sem allra fyrst. Og það skal ekki standa á okkur í menntmrn. að afhenda þeim, sem áhuga hafa á að sjá skýrsluna, að afhenda hana til lestrar. En sem sagt, hún er til í þó nokkuð stóru upplagi og það er þegar búið að senda nokkuð mikið út af því og verður reynt að sjálfsögðu að losa sig við sem allra mest af því þannig að menn fái þetta til athugunar.

Ég er alveg sammála hv. þm. Steinþóri Gestssyni um það, sem ég hef áður oft sagt, að grunnskólalögin eru enginn sá heilagur pappír að ekki sé ástæða til að endurskoða þau, enda var til þess ætlast þegar lögin voru samþykkt hér fyrir átta eða níu árum, og þó tæplega það, að svo yrði gert. Það hefur sem sagt verið unnið að þessu á þann hátt sem lögin sjálf gera ráð fyrir, að sérstök endurskoðunarnefnd færi yfir lögin og gerði till. til ráðh. og Alþingis um þær breytingar sem æskilegar þættu.

Hitt er annað mál, að þetta er, eins og ég segi, mjög yfirgripsmikið álit og erfitt að gera nákvæma grein fyrir því í stuttu máli og nánast ekki hægt. En þó má segja það almennt um þetta álit, að það er ekki hægt að merkja af því að um sé að ræða tillögur um neinar grundvallarbreytingar á löggjöfinni. Hins vegar eru þar ótalmargar breytingar á orðalagi og ýmiss konar uppsetningu á lögunum. E. t. v. má líka finna þar ýmsar grundvallarefnisbreytingar ef vel er leitað, en þó hygg ég að svo sé reyndar ekki að neinu ráði.

En ég vil minna á þetta að gefnu tilefni frá hv. þm., og ég tel mjög æskilegt að flokkarnir taki þetta álit sem allra fyrst til athugunar þannig að hægt verði eftir allvíðtækar umræður meðal skólamanna og stjórnmálamanna að ákveða hverjar breytingar skuli gera eða hvaða breytingar sé líklegt að Alþingi muni samþykkja á núgildandi grunnskólalögum. Venjan er sú, þegar um er að ræða víðtæka skólalöggjöf, að það tekur býsna langan tíma að koma fram breytingum á henni. Og yfirleitt held ég að reynslan sé sú, að það sé óskynsamlegt að ætla sér að knýja fram breytingar á skólalöggjöf án þess að víðtækar umræður hafi farið fram áður um það á meðal skólamanna og alþm. og annarra í landinu. Þannig held ég að rétt sé að vinna að þessu máli nú, eftir að þetta álit liggur loks fyrir, álit endurskoðunarnefndarinnar. Og eins og ég segi, ég vænti þess að þingflokkarnir taki þetta mál upp strax þegar þeir hafa tækifæri til og þetta álit berst þeim í hendur.