19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2980 í B-deild Alþingistíðinda. (3124)

5. mál, barnalög

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. þessarar deildar hefur á allmörgum fundum fjallað um frv. til barnalaga. Hv. Nd. hefur þegar afgreitt þetta mál og þar voru gerðar á því nokkrar breytingar. Í allshn. var enginn ágreiningur um þau atriði. En eftir mjög vandlega — að ég vil segja — og ítarlega umfjöllun þessa máls varð það niðurstaða okkar í allsn. Ed., að flytja nokkrar brtt. við frv. eins og það lá fyrir þegar það kom til okkar. Þessar brtt. okkar eru á sérstöku þskj. og mun ég nú gera nánar grein fyrir þeim. Þær eru ekki stórvægilegar. Flest af þessu mætti e. t. v. kalla lagfæringar.

Er þá fyrst til að taka að allshn. leggur til að 1. gr. laganna orðist svo sem hér segir:

„Lög þessi taka til allra barna, en um kjörbörn eru einnig sérlög. Einstök ákvæði laganna ná til stjúpbarna og fósturbarna samkv. því sem í þeim segir.

Réttarstaða barna er í hvívetna hin sama nema lög mæli á annan veg.

Í lögum þessum er mælt fyrir um framfærslu barna að einkarétti, en ekki gagnvart hinu opinbera nema sérstaklega sé getið.“ Það eru gerðar brtt. þarna við tvær fyrri mgr.

Það mun ekki vera unnt fram hjá því að komast að greina í þessum lögum milli skilgetinna barna og óskilgetinna. Þó að slík skilgreining ætti kannske ekki að vera til er hún engu að síður talin nauðsynleg af ýmsum ástæðum. Hins vegar þótti nm. eðlilegt að í upphafsgrein laganna yrði þessi skipting ekki viðhöfð, heldur einfaldlega sagt að lögin tækju til allra barna. Þetta er 1. brtt. allshn.

2. brtt. er nánast formsatriði. Þau mistök hafa orðið í prentun brtt. allshn. Nd., að 8. gr. laganna er prentuð þar sem ein mgr., en ekki þrjár eins og áður var. Nú er það þannig síðar í þessum lögum, að þar er vitnað í tiltekna mgr. 8. gr. Nefndin gerir það því að till. sinni að uppsetning hennar verði svo sem áður var, henni verði skipt í þrjár mgr.

3. brtt. er við 9. gr. frv., sem hljóðar svo eins og það liggur fyrir nú:

„Nú er lýstur barnsfaðir geðveikur eða sálrænum högum hans að öðru leyti þannig háttað, að varhugavert er að taka mark á yfirlýsingum hans, og skal dómur þá ganga á mál.“

Okkar niðurstaða varð sú að orða þetta sem hér segir: „Nú er þann veg háttað sálrænum högum lýsts barnsföður, að varhugavert er að taka mark á yfirlýsingu hans, og skal dómur þá ganga á mál.“

Okkur þótti eðlilegra að þarna væri hreinlega fellt niður orðið „geðveikur“, en með því orðalagi, sem nefndin leggur til, er engin efnisbreyting á greininni.

Í fjórða lagi gerir nefndin till. um breytingu á 3. mgr. 15. gr., en hún hljóðar svo eins og frv. liggur nú fyrir:

„Nú hefur faðir barns sætt dómi fyrir skírlífisbrot gagnvart móður þess, og telja verður að barn sé getið við slíka háttsemi, og skal þá úrskurða barnsföður til að kosta framfærslu barns að öllu leyti.“

Það varð okkar niðurstaða að orðið „skírlífisbrot“ væri þarna a. m. k. ekki notað í þeirri merkingu sem algengast og venjulegast er, og að höfðu samráði við hina vísustu menn var þessu breytt þannig, að nefndin leggur til að mgr. verði orðuð sem hér segir:

„Nú hefur faðir barns sætt dómi fyrir brot samkv. XXII. kafla almennra hegningarlaga gagnvart móður þess, og telja verður að barn sé getið við þessa háttsemi, og skal þá úrskurða barnsföður til að kosta framfærslu barns að öllu leyti.“

Þetta var 4. brtt. nefndarinnar.

Í fimmta lagi er brtt. við 18. gr. sem hljóðar svo: „Meðlag skal greiða mánaðarlega fyrir fram nema annað sé löglega ákveðið.“

Síðan kemur 2. mgr.:

„Ekki leysir andlát barns eða ættleiðing þess undan skyldu til greiðslu meðlags fram til þess að andlát eða ættleiðingu bar að höndum.“

Nefndin leggur til að þessi síðari mgr. verði felld niður, enda um svo augljóst, sjálfsagt og í rauninni einfalt mál að ræða, að ekki ætti aðþurfa að taka það sérstaklega fram.

Í sjötta lagi gerir nefndin það að till. sinni, að fyrirsögn V. kafla breytist lítillega og orðist svo: „Barnsfararkostnaður o. fl. greiðslur er standa í tengslum við barnsburð og meðgöngu.“ Hið fyrra orðalag var: „Barnfararkostnaður o. fl. greiðslur er standa í tengslum við barnsburð og getnað.“ Eðlilegra þótti að setja þarna orðið „meðgöngu“ í staðinn fyrir orðið „getnað“.

Við 34. gr. gerir nefndin till. um að niður falli í lok 2. mgr. orðin „eftir því sem fært reynist.“ Setningin hljóðar þá svo: Ríkissjóður endurgreiðir þessar fjárhæðir, en Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir greiðslur þessar hjá föður barns.“

Við 2. mgr. 42. gr. er einnig brtt. frá nefndinni, en þessi mgr. hljóðar svo í frv.: „Ef sá sem fer með forsjá barns misbeitir forráðum sínum eða vanrækir forsjárskyldur eða hann er hneigður til drykkjuskapar eða óhæfur af öðrum ástæðum til forsjár“ o. s. frv. Í stað orðanna „eða hann er hneigður til drykkjuskapar“ gerir nefndin till. um að komi: „svo sem vegna drykkjuskapar“ — sem er skýrara og einfaldara mál.

Í níunda og síðasta lagi eru ákvæði í 47. gr. sem ég hygg að muni vera einsdæmi í íslenskum lögum. Þó að ég viti ekki alveg gjörla um það, þá segir mér svo hugur um að svo muni vera. Í 3. mgr. 47. gr. segir: „Lögreglumenn eru skyldir til að veita dómara lið til að leita uppi lýstan barnsföður og færa hann fyrir dómara til skýrslutöku, svo og að aðstoða við framkvæmd blóðtöku á aðiljum máls, ef því er að skipta, eða við aðra sérfræðilega mannerfðarannsókn.“

Þarna er samkv. orðanna hljóðan lögreglumönnum beinlínis gert skylt að aðstoða við blóðtöku, sem sagt að halda manni meðan læknir tekur honum blóð. Ég hygg, eftir því sem ég þekki íslenska lækna og til þeirra starfa og starfsvenja, að ekki mundu margir læknar lúta slíku, að taka manni blóð eða taka sýni frá manni sem er haldið nánast nauðugum.

Hliðstæð ákvæði um svipað efni eru auðvitað í umferðarlögum. Það varð niðurstaða okkar, að í stað þessa orðalags, sem flestum finnst, held ég, fremur ógeðfellt, verði þetta orðað til samræmis við ákvæði í umferðarlögunum og að þessi grein hljóði þá þannig: „Og eru viðkomendur skyldir til að hlíta blóðtöku, svo og annarri rannsókn í þágu sérfræðilegra kannana.“ Þá er þetta orðað á nákvæmlega sama veg og hliðstæð ákvæði í umferðarlögunum þar sem er um að ræða blóðtöku vegna gruns um ölvun við akstur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég hef gert grein fyrir þeim brtt. sem allshn. þessarar deildar hefur orðið sammála um að flytja við frv. til barnalaga. Þær eru, eins og ég sagði í upphafi, engar verulegar efnisbreytingar, fyrst og fremst um lagfæringar að ræða. Og nefndin er sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. með þeim breytingum sem ég hef nú gert grein fyrir.