19.03.1981
Neðri deild: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3001 í B-deild Alþingistíðinda. (3147)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. spurði hvort mér hefði snúist hugur í þessu máli. Það er ekki, ég er enn þeirrar skoðunar að leita beri annarra leiða. Ég hef, eins og ég hef hvað eftir annað sagt, talið þetta óeðlilega leið til að bera olíukostnað útgerðarinnar. Og mikið hefur verið að því unnið að reyna að ná samstöðu um aðrar leiðir, m. a. í þeirri nefnd sem enn starfar að því að ná slíkri samstöðu, en það hefur því miður ekki tekist.

M. a. hefur verið rætt við hagsmunaaðila, hvort fara mætti að hluta þá leið sem hv. stjórnarandstaða lagði til í nál. og ég hef alls ekki afskrifað og tel vel koma til greina. En í ljós kom að ekki náðist heldur samstaða á milli hagsmunaaðila um þá leið. Það er þess vegna sem ekki er lögð til breyting nú. Ég tel ákaflega nauðsynlegt að samstaða náist um þetta mál þannig að deilur þurfi ekki að halda áfram.

Ég gleymi ekki því liðsinni sem hv. sjálfstæðismenn — og reyndar hv. síðasti ræðumaður — hafa boðið í þessu sambandi. Ég mun sannarlega hafa samband við þá ef ég sé að eitthvað rofar til í þá átt að menn geti náð samstöðu.

Um olíuverð framundan þori ég lítið að spá, ég verð að viðurkenna það. Ég kynnti mér þessi mál fyrr á árinu og fékk þá svipaðar upplýsingar og fulltrúi LÍÚ fékk. Mér var sagt að ekki væri að vænta mikillar olíuverðshækkunar. Þetta var í byrjun febrúar. Síðan gerðist það þremur vikum seinna að sótt er um nánast þrefalt meiri hækkun en þá hafði verið talað um. Ég hef einnig fengið þær fréttir frá viðskrh., sem að sjálfsögðu gerir sér far um að fylgjast með þessum málum, að fram undan kunni að vera eitthvað betra í olíumálum, en mér sýnist þó af reynslunni að heldur lítið sé á því byggjandi.

Ég ætla ekki að ræða það við hv. þm. Karvel Pálmason um hverju ég lofaði, þetta er allt skriflegt. Þannig stendur það og sjálfsagt er að hv. þm. fái það eins og það er skrifað. Ég skal láta hv. þm. fá það. Ég hef lofað að vinna að því að losna við olíugjaldið í þessu formi og að því er ég að reyna að vinna. Mönnum getur þótt það ganga seint, mér þykir það sjálfum ganga seint, en því verður haldið áfram.