24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3047 í B-deild Alþingistíðinda. (3171)

199. mál, samráð stjórnvalda við samtök launafólks og atvinnurekenda

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það kom mjög skýrt og greinilega fram í svari hæstv. forsrh. við fsp. hv. þm. Halldórs Blöndals, að lítill gaumur hefur verið gefinn að því ákvæði Ólafslaga að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins, fulltrúa launþega í Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og fulltrúa Vinnuveitendasambands Íslands eða Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Ólafslög voru samþykkt 13. apríl 1979. Það kom fram í svari hæstv. forsrh., að þrátt fyrir ákvæði Ólafslaga, sem leggur lagaskyldu á stjórnvöld um slík samráð, og þrátt fyrir yfirlýsingu núv. ríkisstj. við myndun hennar um að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins, þá hafði ekkert samráð verið haft fyrr en 30. okt. 1980. Frá 13. apríl 1979 til 30. okt 1980 höfðu sem sagt lagaákvæðin verið hundsuð. En þá eru það ummæli hæstv. forsrh. að gagnlegur og ánægjulegur fundur hafi verið haldinn. Það er víst sá fundur þar sem boðið var upp á kaffi og smákökur og heyrðust ekki önnur tíðindi af þeim fundi heldur en kaffið og kökurnar hefðu verið bærilegar veitingar og vel þegnar út af fyrir sig, en minna fór fyrir fréttum af hinu andlega fóðri.

Síðan er það svo 31. des. sem brbl. eru sett sem í raun og veru hafa ekkert efnisatriði inni að halda annað en 7% skerðingu verðbóta launa í kjölfar 8 plús 16% skerðingar verðbóta launa frá því í des. 1978 og frá og með Ólafslögum í apríl 1979 til síðustu áramóta. Það er haft fyrir satt a. m. k. hef ég lesið ummæli fulltrúa Alþýðusambands Íslands, fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fulltrúa Vinnuveitendasambands Íslands um það, að ekki hafi neitt samráð verið haft við þessa aðila.fyrr en á gamlársdag þegar ríkisstj. var búin að ganga frá brbl. Það breytir svo ákaflega litlu að ríkisstj. ætli nú, tveim árum eftir samþykkt Ólafslaga, samþykkt lagaákvæðis sem leggur þá skyldu á herðar stjórnvalda að hafa slíkt samráð, að stjórnvöld ætli nú að bæta ráð sitt. Það er þó góðra gjalda vert, ef satt reynist, en útlit er þó fyrir að ekki verði um meiri efndir að ræða í framtíðinni en s. l. tvö ár, enda sagði hæstv. forsrh. að eftir tvö ár væri ekki búið að festa samráðsformið. Það er samráðsformið sem á að gera að aðalatriði, í stað þess að það er efni málsins sem skiptir máli, en ekki formshliðin.