24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3050 í B-deild Alþingistíðinda. (3174)

195. mál, jöfnun raforkukostnaðar

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti.Ég þakka hæstv. iðnrh. svör hans. Það er rétt sem kom fram í máli hans, að um meðferð þessarar jöfnunar má alltaf deila. En þessi leið var nú valin og ég held að landsbyggðarfólk telji almennt að hún sé nokkuð viðunandi.

Það verður hins vegar seint um of minnt á þá mismunun þjóðfélagsþegnanna sem kom fram í máli hæstv. ráðh., þó að vissulega beri að meta og þakka það sem áunnist hefur, því að mismunurinn er þó orðinn stórum minni en hann var t. d. fyrir rúmum tveimur árum. Ég vil aðeins ítreka það, að vitanlega gildir það varðandi orkuverð í landinu almennt, að það þarf að halda veginn fram til fulls jafnræðis í þeim efnum. Það skal ekki frekar rætt í fsp.-tíma því að inn í það mál allt saman fléttast orkusalan eða orkugjöf okkar til stóriðju, og það er meira mál en svo að út í það eigi að fara hér.