25.03.1981
Efri deild: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3079 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl. (Guðmundur Karlsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Stefáns Guðmundssonar klofnaði sjútvn. við afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. nefndarinnar vill samþykkja frv., en við undirritaðir, Kjartan Jóhannsson, Egill Jónsson og ég, erum andvígir þeirri breytingu sem lögð er til.

Sá rökstuðningur, sem uppi er hafður í frv. fyrir breytingu þessari, varðar eingöngu markaðsaðstæður eins og þær eru um þessar mundir. Reynslan sýnir hins vegar að markaðsaðstæður geta fljótlega breyst í skreiðarsölu. Eltingarleikurinn við markaðsaðstæður mundi í fyrsta lagi skapa eilíft hringl og óvissu. Í öðru lagi er mismunun í útflutningsgjaldi á grundvelli markaðsverðs á hverjum tíma stórvarasöm, því að hvatning til að gera góða sölusamninga hverfur ef ábatinn er jafnan tekinn til baka með hækkun á útflutningsgjaldi. Þess má geta, að aðalfundur skreiðarframleiðenda mótmælti þeim breytingum sem nú á að gera á útflutningsgjaldi.

Við nm., sem erum í minni hl., teljum að það grundvallarsjónarmið eigi að vera og að það sé meginregla, að útflutningsgjald af sjávarafurðum sé hið sama. Við getum viðurkennt það, að útflutningsgjaldið er notað til mjög nauðsynlegra útgjalda sjávarútvegsins, en aftur á móti hlýtur það alltaf að verða umræðuefni og spurning sem velta má fyrir sér, hvort eða hve lengi við getum leyft okkur að halda útflutningsgjaldi í þeirri mynd sem nú er. Ég held að þetta útflutningsgjald á sjávarafurðum hjá okkur Íslendingum sé orðið alveg sérstakt fyrirbrigði. Ég held að það þekkist ekki hjá nokkurri annarri fiskveiðiþjóð að helsta útflutningsgreinin beri slík gjöld sem þessi.

En ég vil benda á það, að það erum ekki bara við nm. sem erum á því að hér sé ekki rétt að staðið, heldur slær dagblaðið Tíminn því upp í gær að stjórnvöld séu að eyðileggja skreiðarviðskiptin við Nígeríu. Það eru ekki mín orð, þetta eru stór orð, en þarna er viðtal við forstjóra Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Hann segir að skreiðarmarkaður sé þarna mjög í hættu og skreiðarsala vegna þeirrar mismununar sem skreiðin verður nú að lúta. Ég tel að þetta sé óeðlilegt, og við sem í minni hl. nefndarinnar erum, að elta svona markaðsaðstæður á hverjum tíma, þarna þurfi að gilda ein regla yfir allan útflutning.