26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3137 í B-deild Alþingistíðinda. (3271)

250. mál, siglingalög

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ekki dettur mér í hug að skamma hæstv. dómsmrh. Ég vil þó bera af mér sakir. Ég hef aldrei verið með dylgjur um Landhelgisgæsluna. Ég er yfirleitt ekki með dylgjur um nokkurn einasta mann. Ég geri kannske heldur mikið af því að tala hreint út. Það er ekki vel liðið alls staðar, ekki einu sinni í okkar stórmerka þingflokki. Það er miklu frekar að þeir séu vel liðnir sem vilja sífellt vera að breiða yfir sig þetta bleika værðarteppi sem á að skýla öllu því sem agnúar finnast á. Það er yfirleitt ekki vinsælt að menn segi sína meiningu, — ekkert frekar í okkar flokki en annars staðar, síður en svo. Það er bara einhvern veginn þannig, að menn eru alloft að tala um hlutina öðruvísi en beint út og hreint, en það geri ég, hvort sem hæstv. dómsmrh. líkar það betur eða verr.

Ég hef ekkert verið að ráðast að þessari hæstv. ríkisstj., en ég get ómögulega fengið mig til þess að hrósa henni hér dagsdaglega. (EgJ: Það er ekki svo gott.) Nei, og það er síður en svo ástæða til að leggja sig í framkróka við að hrósa yfirleitt stjórnarástandinu í þessu landi mörg undanfarin ár með margar undanfarnar stjórnir. — Þannig er ég ekkert að eltast við þessa hæstv. ríkisstj. sem einhver óvinur hennar. Það er misskilningur. Mér þykir fremur vænt um hana. Þess vegna vil ég að hún geri ekki vitleysur. Ég er stundum að leiða einstökum ráðamönnum það fyrir sjónir, bæði í einkasamtölum og á opinberum vettvangi.

En þetta er auðvitað ekkert gamanmál sem hér er á ferðinni — alls ekki, og ég tek alveg undir það með hæstv. dómsmrh., að þeir, sem eiga að fást við lagabreytingar og lagasetningu, þurfa að sjálfsögðu að kynna sér hlutaðeigandi lög. Dettur hæstv. dómsmrh. það virkilega í hug að ég hafi ekki skoðað vel þessi lög og lesið þau „vel og vandlega“, eins og segir í kvæðinu á því svæði sem drekkja á bráðum? Ég hef kynnt mér þetta rækilega. Hann þarf ekkert að fræða mig um þetta. Ef hann hefur ekki meira í pokahorninu en það sem hann lét okkur heyra áðan, þá er hann ekki lengra kominn en ég í þessum efnum, nema síður sé. En hann er auðvitað lögfræðingur, hæstv. dómsmrh., og þekkir lögin sjálfsagt miklu betur.

Ég kem ekki hér óundirbúinn í ræðustól, hvorki í þessum efnum né öðrum, þó að ég sé ekki með heimagerða stíla, enda latur að skrifa.

Ég legg á það áherslu, að ég var ekki með dylgjur í garð Landhelgisgæslunnar, en það þarf að breyta þessu fyrirkomulagi. Það er neikvætt fyrir ýmissa hluta sakir og það má ekki eiga sér stað, að menn víki sér undan að þiggja hverja þá hjálp sem er í boði vegna einhverra peninga sjónarmiða. Peningasjónarmið eiga í rauninni alls ekki heima í þessum efnum, það þekkjum við.

Þó að einstaka mönnum þyki að við, sem höfum einstaka sinnum verið eitthvað að gutla til sjós, og jafnvel þeir sem hafa verið það lengi, þykjumst eitthvað meiri en aðrir í þeim efnum þegar við tökum til máls um sjávarútvegsmál, er það ekki ásetningur, trúi ég, þeirra manna, — ekki minn. En sannleikurinn er sá, að það eru tiltölulega fáir sem láta sig miklu varða hér í hv. Alþingi þennan undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Ef fram kemur t. d. frv. frá sumum menningarhópum í þjóðfélaginu um að styrkja og styðja þá sem vilja þýða bækur héðan og þaðan, og gott frv. ábyggilega, — það á að þýða Shakespeare t. d. og hafa hann í metravís uppi á vegg og enginn nennir auðvitað að lesa það sem von er, það er um sifjaspell og morð, valdagræðgi og dráp og á ekkert erindi hingað, við höfum nóg af því, er ekkert merkilegt, alls ekki — þá þykir það fínt, en svona frv., eins og ég var að nefna áðan mæta litlum áhuga. — Ég tók þetta dæmi af því að ég sá að stóllinn hennar Guðrúnar minnar var auður. Þetta fær mikla umræðu hér. Það fá allir lyftingu. Og blöðin, það rennur út af þeim þýðingarsjóðurinn. En þegar talað er um sjávarútvegsmál heyrist ekki hósti eða stuna frá neinum, nema það sé í þá veru að efla atvinnuna á þeim stöðum landsins þar sem erfiðleikar eru. Þá vita allir best um allt. En ég hef auðvitað ekki verið sammála sumum mönnum í þeim efnum. Ég leyfi mér stundum að hafa ýmsar skoðanir fyrir mig „privat“. (Gripið fram í: Oftast.) Alltaf.

En ég vil helst ekki heyra það frá miklum sómamanni eins og hæstv. dómsmrh. að ég sé að koma og leika mér hér og segja eitthvað annað en ég meina og dylgja um eitthvað. Það er ekki satt. Hann veit það líka sjálfur. Ég vil taka þetta mál alvarlega og ég vil láta vanda þetta verk. Það er nauðsynlegt að breyta þeim lögum sem fyrir eru. Það þarf að hafa margt í huga til þess, sjálfsábyrgðina o. s. frv. Við höfum bara ekki tíma til þess að ræða þetta lengur. Mér er hálfilla við að tala hérna alltof lengi.