31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3191 í B-deild Alþingistíðinda. (3317)

375. mál, lán til íbúðabygginga

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég fagna þeim yfirlýsingum sem hér hafa komið fram um að þetta mál verði brátt í höfn. Ekki mun af veita. Ég verð satt að segja að undrast hvað dregist hefur hjá bönkunum að koma þessu í verk. Þarna hafa sjálfsagt ýmis fagleg atriði komið inn í og kannske togstreita hjá bönkunum einnig varðandi málið, en alla vega er ljóst að nefndin, sem ríkisstj. setti í þetta, vann fljótt og vel. Síðan hefur dregist allnokkuð að útkljá málið.

Ég kom aðallega hér upp til að óska eftir því, að þegar frá þessum málum verður gengið verði gætt að ákveðinni mismunun sem mér sýnist að kunni að verða þarna á í sambandi við framkvæmdina, — mismunun sem getur orðið býsna alvarleg milli einstakra íbúðabyggjenda, — ef þetta á að taka einvörðungu til þeirra skulda sem eru bankaskuldir, — skulda sem eingöngu eru í bönkum eða sparisjóðum — en verslunarskuldir og ýmsar aðrar lausaskuldir, sem eru býsna þungar á metunum hjá mörgum einstaklingum, eiga algerlega utan við þetta að liggja. Ég er ekki viss um að það sé rétt skilið hjá mér, að svona sé í pottinn búið, en ef svo er mundi ég eindregið óska eftir því, að úr slíkri mismunun yrði bætt. Þarna er um alvarleg mál að ræða fyrir mjög marga sem hafa ekki átt greiðan aðgang að bankastofnunum til þess að fá þar lán og liggja með sínar lausaskuldir hjá verslunum og ýmsum öðrum.