31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3210 í B-deild Alþingistíðinda. (3342)

378. mál, gjaldskrárhækkanir B-hluta fyrirtækja

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef aldrei heyrt furðulegri málflutning en hjá hæstv. fjmrh., sem stendur hér uppi með helberar lygar á Alþfl. Aldrei lagði Alþfl. það á alþýðu þessa lands, á almenning, að skerða kjörin um 7% með einu pennastriki, án þess að gera nokkurn skapaðan hlut annan til þess að rétta efnahagslegt líf landsins við að öðru leyti eða draga úr verðbólgunni.

Sá útúrsnúningur og þvættingur, sem hér er hafður í frammi, er fyrir neðan allar hellur. Sannleikurinn er sá, að Alþfl. hefur margoft lagt áherslu á að taka þurfi á efnahagsmálunum af alvöru og fullum þunga og toga í alla þræðina samtímis, en ekki kippa bara í einn spottann í einu. Þær aðgerðir, sem Alþfl. barðist hér fyrir t. ð. á árunum 1978–1979, lýstu sér allar í því að reyna að ná raunhæfum árangri og taka á öllum þáttum efnahagslífsins í senn. Það er allt önnur leið en núv. ríkisstj. fer. Hún fer þá leið sem Geir Hallgrímsson fór áður: að skerða kaupið eitt og gera ekkert annað og láta síðan vaða á súðum og láta sér í léttu rúmi liggja hvernig almenningur fer út úr því eða hver hin raunverulega þróun verður í þjóðfélaginu, hver verðbólgan verður á endanum. Sannleikurinn er líka sá, að þær aðgerðir, sem nú hefur verið gripið til, munu gersamlega renna út í sandinn og reynast nákvæmlega jafnilla og það sem Geir Hallgrímsson og hans stjórn gerði á sínum tíma. En ásakanir af því tagi sem hér eru hafðar uppi af hæstv. fjmrh. eru fyrir neðan virðingu Alþingis.