31.03.1981
Sameinað þing: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3232 í B-deild Alþingistíðinda. (3363)

267. mál, menntun fangavarða

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefði verið gaman að ræða í löngu máli lokaorð hæstv. ráðh. Ég held að það komist enginn inn á Alþingi nema hafa sýnt talsvert í þjóðfélaginu. Það er ekki nóg fyrir hann eða aðra að hafa gengið í þá einu skóla sem þykjast eiga rétt til að senda menn á Alþingi, lögfræðinga eða háskólamenntaða. Það er nú þannig. Ég held að lífsins skóli sé miklu betri menntun en nokkru annar skóli sem slíkur eða stofnun. Það eru yfirleitt menn frá þeim skóla sem komast inn á Alþingi, á sama hátt og það eru menn sem bregðast kannske á einhvern hátt í þeim sama skóla sem verða settir í fangelsi.

Það væri hægt að fjalla í löngu máli um fangelsismál og menntun fangavarða, en ég er alveg sannfærður um að niðurstaðan er sú, að fangelsin sjálf eru úrelt og fangelsun á manninum, frelsisskerðing er ekki lengur talin mannbætandi. Það er höfuðmálið. Og síst af öllu telst hún til bóta eins og á sér stað nú í okkar litla þjóðfélagi, þar sem viðkomandi aðili er oft látinn bíða svo árum skiptir eftir að dómur falli í málum og er löngu búinn að afplána miklu þyngri refsingu, meðan hann er þó að bíða eftir fangelsisvist, heldur en hann nokkurn tíma gerir eftir að hann kemur inn fyrir dyr fangelsisins. Þannig þarf ekki bara að mennta fangelsisverði, það þarf að endurmennta þjóðfélagið sjálft. Og er ég sannfærður um að þá yrðu niðurstöður allt aðrar hvað afbrotafólk snertir. Við eigum afskaplega lítið af afbrotafólki ef við berum saman afbrot, sem hér eru framin, og afbrot hjá stórum þjóðfélögum. Að vísu eigum við til dæmi sem eru hliðstæð, en þau eru afskaplega fá. Og meðferðin á þeim, sem hljóta frelsisskerðingu af einhverjum ástæðum, er sú sama fyrir öll afbrot. Ef menn eru á annað borð dæmdir til fangelsisvistar eru þeir sendir í þessi — eitt, tvö, í hæsta lagi þrjú — fangelsi eða stofnanir sem við eigum til. Þetta er okkur öllum til háborinnar skammar. Ég held að við verðum að finna einhverja aðra lausn en við höfum nú til þess að sá, sem sekur er hverju sinni, greiði þjóðfélaginu það sem þjóðfélagið telur það eiga inni hjá viðkomandi.

Ég verð að segja það alveg eins og er, að í mörg ár, ég veit ekki hvað mörg ár, hef ég farið nokkuð reglulega í viðtalstíma og heimsóknir að Litla-Hrauni. Ég kem aldrei sami maður til baka. Það tekur mig oftast nær nokkra daga að ná mér eftir slíkar heimsóknir, ég tala nú ekki um þegar ég hef í þeirri heimsókn viðtalstíma við fanga eða fangaverði jafnvel. Síðasta ferð var farin ekki alls fyrir löngu. Áttum við þá leið saman Guðmundur J. Guðmundsson, hv. þm., og ég og höfðum þar viðtalstíma. Ég skal ekki segja hvernig honum leið, en illa hefur mér liðið.

Eitt verð ég að segja, að ég hef ekki í eitt einasta skipti fengið neina kvörtun frá föngum um að fangaverðir væru ekki starfi sínu vaxnir, væru ekki yfirleitt menn sem væri nokkuð auðvelt að umgangast og þeir kynnu til starfa. En ég vil þó segja að ég tek eindregið undir þessa till. og ég vona að sú nefnd, sem þar um getur, verði sem fyrst sett á laggirnar og hún ljúki störfum það fljótt að flm. geti þá komið með aðra till. um fjárveitingu til starfsins fyrir gerð næstu fjárlaga, því annars er þetta bara sýndarmennska. Ef því er ekki fylgt eftir er það sýndarmennska og ekkert annað.

Ég tek undir það með ráðh., að margt hefur verið gert. Og ég hef talað við flesta þá dómsmrh., sem setið hafa í ríkisstj. síðan ég koma á þing, og þar á meðal hæstv. núv. dómsmrh. Ég veit vel að hann er fullur af vilja til að gera allt sem hægt er til að bæta bæði menntun og eins aðstöðu fanga og fangavarða. Ég hef einnig talað við aðra ráðh. vegna þess að dómsmrh. telja ekki allt heyra undir sig sem fer fram á Litla-Hrauni t. d. Ég geri ráð fyrir að það sé sama í öðrum fangelsum. Ég barðist nokkur ár fyrir því, að bókavörður sækti námskeið í bókavörslu og sæi þar um bókasafnið. Það heyrði ekki undir dómsmrh. Það heyrði undir menntamrh. og það tók mig langan tíma þangað til ég gafst upp á menntmrn. Það þekkja allir fyrrv. hæstv. menntmrh. Vilhjálm Hjálmarsson. Hann fór með mér austur og skoðaði aðstöðuna og var mér sammála um að þar þyrfti að bæta mikið um, ekki bara bókasafnið, heldur líka kvikmyndasafnið. Ég talaði lengi og oft við hæstv. fyrrv. dómsmrh. Ólaf Jóhannesson um ýmislegt sem þurfti að bæta. Í frístundum vildu þessir gestir á Litla-Hrauni gjarnan geta stundað íþróttir, en það var ekki nokkur skilningur á þeim tíma fyrir þeirri þörf. Þeir höfðu útivistartíma og hvernig sem viðraði urðu þeir að fara út, fá sér frískt loft, en það var ekkert við að vera. Það endaði með því, að ég varð sjálfur í nokkur ár að kosta því til sem þurfti að kosta til að þeir gætu stundað knattspyrnu og sumar frjálsar íþróttir. Þetta gengur náttúrlega ekki. Ég hef fengið bréf eftir bréf frá föngum þar sem þeir biðja um smáaðstoð til að afla tækja sem gætu komið að notum við íþróttaiðkanir. Ekkert rn. telur sér skylt að verða við þeim óskum.

Það þarf að mennta fangaverði, en það þarf ekki síður að hugsa um fangana. Ég kynnti mér í Englandi og í Frakklandi löngu áður en ég kom á Alþingi frönsk og ensk fangelsi. Það eru borgarsamfélög þó þau séu ekki öll stór. Þar er ýmislegt unnið. Menn vakna til vinnu. Menn hafa reglulega daga. Þeir hafa eitthvað til að vakna til og sofna frá. Þetta er ekki þannig hér. Það þarf að endurmennta þjóðfélagið. Það þarf að skapa það viðhorf til þessara — við skulum segja: ógæfusömu bræðra okkar, sem er í einhverjum takt við tímann. Það er ekki hægt að senda alla menn á sama stað fyrir hvaða afbrot sem er, unga sem aldna. Margir koma út verri menn en þeir voru þegar þeir fóru inn. Þannig hefði ég gjarnan viljað að till. næði yfir stærra svið þannig að fleiri kæmu nálægt þessum málum, en fangaverðirnir sjálfir fengju tilsögn í því, hvað er að ske í þessu litla þjóðfélagi í hnotskurn, sem er þó án alls sem þarf til afþreyingar. Ég kalla það ekki afþreyingu sem fyrir er á þeim stöðum. Fólk er búið að fá leiða á því vegna þess að engin fjölbreytni er í því mannlífi sem þar á sér stað.

Ég lýsi sem sagt samstöðu minni við þá hugsun sem kemur fram í þessari till., en hún er í mínum augum til að draga athyglina að nauðsyn þess, að fangaverðir, starfsfólkið sjálft, verði betur undirbúnir þegar kemur til samstarfs — ég segi til samstarfs — við þetta innilokaða fólk. Það þarf að kunna aða umgangast fólk. Þarna fer fólk til samstarfs. Það er ekki lengur rík sú hugsun að þarna fari maður til þess að gæta annars. Ef það ætti að ske, eins og áður var, er ég hræddur um að Litla-Hraun eða öll þau fangelsi, sem við eigum, mundu ekki halda neinu af þessu fólki. En eins og hæstv. ráðh. sagði: Það er oft erfitt að fá góða menn. Af hverju er það erfitt? Það er fyrst og fremst erfitt vegna þess að stofnanirnar, sem þeir eiga að reka, eru ekki góðar, löngu löngu úreltar.

En ég endurtek: Ég mun styðja þessa till. og ég geri þá kröfu til flm., þá sérstaklega 1. flm., að fylgjast með framgangi málsins. Ég veit ekki hvort 1. flm. heyrir til mín. En þegar að líður að fjárlögum verði niðurstaða komin um vinnu þessarar nefndar, sem ég er ekki í nokkrum vafa um að hæstv. dómsmrh. mun beita sér fyrir að komist á laggirnar hið fyrsta. Ég tel mig þekkja hann á sama hátt og hv. 1. flm. gat um áðan. Ég ætlast sem sagt til að nefndin skili áliti og þessu verði síðan fylgt eftir. Þá verður gaman að sjá hverjir standa að fjárveitingum til þessa verkefnis. Það er oft þegar að buddunni kemur að menn draga sig í hlé.